Ásta Kristjánsdóttir fæddist á Akranesi 27. febrúar 1950. Hún lést á sjúkrahúsi Akraness 12. júní 2024.
Foreldrar Ástu voru Kristján Ásgeir Ásgeirsson, f. 2. september 1926, d. 21. apríl 2023, og Ólöf Líndal Hjartardóttir, f. 2. ágúst 1930, d. 21. maí 2022. Bróðir Ástu er Ásgeir, f. 26. maí 1951.
Eiginmaður Ástu var Ólafur Ólafsson, f. 8. júní 1944, d. 16. mars 1997. Synir þeirra eru: 1) Elías Halldór, f. 16. júlí 1969, giftur Huldu Gestsdóttur og eru börn þeirra Alex Hinrik, Auður Ósk, Gróa Dagmar og Gestur Ólafur. 2) Kristján, f. 3. ágúst 1970, giftur Birnu Katrínu Hallsdóttur og eru börn þeirra Ásta María, Ólafur Már og Ína Maren.
Útför Ástu Kristjánsdóttur fer fram frá Akraneskirkju í dag, 25. júní 2024, klukkan 11. Streymt verður frá athöfninni á vef Akraneskirkju,
www.akraneskirkja.is.
Elsku Ásta.
Nú ertu laus undan þeim þjáningum sem voru á þig lagðar síðustu mánuði. Þú varst rétt nýbúin að kveðja pabba þinn fyrir um ári þegar þú greindist með krabbamein í annað sinn.
Strax í upphafi var vitað að verkefnið væri strembið en ég lofaði þér að ég skyldi fylgja þér í gegnum það ferli og styðja þig alla leið. Mikið er ég þakklát fyrir að hafa náð að standa við það loforð.
Mínar fyrstu minningar um þig eru þegar þú varst að sækja okkur Rannveigu í Akraborgina því við vildum frekar djamma á Skaganum en í Reykjavík. Þú komast á litla rauða bílnum og Bangsi var með.
Það var alltaf velkomið að gista hjá þér. Okkur fannst svo gaman á Skaganum að við fluttum hingað vorið 1998 án þess að vera komnar með húsnæði svo við fluttum bara inn til þín.
Svo vel náðum við saman að eitt skiptið sem ég kom með Akraborginni þá var mér rétt blóm og þú baðst mig um að verða tengdadóttir þín. Ég mætti ráða hvort ég myndi velja Ella eða Didda. Þetta fannst mér mjög fyndið á þeim tíma en einhverju fræi hafðir þú sáð því ekki leið á löngu þar til ég fór að gista á neðri hæðinni á Vesturgötu 117.
Ég á margar ljúfar minningar um samverustundir okkar á liðnum árum svo sem heitt súkkulaði og púðursykurmarengs á aðfangadagskvöld með tengdafjölskyldunni þinni, sumarbústaðarferðirnar, Reykjavíkurferðirnar, sláturgerð, baunasúpan, smákökubakstur og svo þegar við þvoðum og straujuðum barnafötin að minnsta kosti tvisvar og röðuðum aftur í skúffurnar áður en börnin fæddust. Svo mikill var spenningurinn.
Fyrstu 20 árin okkar Didda saman nutu börnin okkar góðs af því að geta alltaf farið yfir til Ástu ömmu meðan við bjuggum á sömu lóð. Hvort sem það var að horfa, spila, spjalla eða fá eitthvað gott að borða. Svo var alltaf í boði að fara á rúntinn í hádeginu eða í heimsókn til langömmu og langafa. Þú varst alltaf boðin og búin að passa þau, skutla á æfingar og alltaf var velkomið að gista hjá Ástu ömmu. Börnin okkar áttu einstakt samband við þig.
Frá því þú misstir Óla þinn fyrir 27 árum hefur þú átt misjafna daga. Sorgin og söknuðurinn tóku sinn toll sem og heilsuleysi síðustu árin. Ég vildi óska að lífið hefði farið mýkri höndum um þig og þú hefðir náð að njóta þess betur.
Ég trúi því að nú séuð þið Óli sameinuð á ný og að allir þeir sem þér þykir vænt um í sumarlandinu taki á móti þér og umvefji þig með ást og kærleik.
Nú legg ég augun aftur,
ó, Guð, þinn náðarkraftur
mín veri vörn í nótt.
Æ, virst mig að þér taka,
mér yfir láttu vaka
þinn engil, svo ég sofi rótt.
(Sveinbjörn Egilsson)
Elsku Ásta, takk fyrir vináttuna, samverustundirnar, aðstoðina og takk fyrir vera börnunum mínum svona góð amma.
Takk fyrir allt.
Þín tengdadóttir,
Birna Katrín.
Elsku Ásta amma.
Það var alltaf svo gott að koma til þín á Vesturgötuna. Þar fórum við út í garð með djús og kex þegar veðrið var gott og höfðum það kósí. Þegar ég var lítil var ég oft í pössun hjá þér ef ég var lasin og þú áttir fullt af myndum sem ég gat horft á. Ég gisti oft hjá þér og það var alltaf notalegt að vera hjá þér og auðvitað Bangsa á meðan hann var á lífi. Við fórum í ísbíltúra og í heimsóknir til langömmu og langafa. Þú varst með nammiskúffu sem alltaf var hægt að finna eitthvað gott í. Þú hafðir stundum kjötsúpuboð fyrir fjölskylduna sem var gaman að koma í.
Svo fluttirðu á Höfðagrund og stundum komu langamma og langafi í heimsókn því það var stutt fyrir þau að koma frá Höfða og áttum við góðar stundir þar.
Takk fyrir allt elsku amma og hvíl í friði.
Þín
Auður Ósk.
Kær vinkona okkar er fallin frá og minningarnar streyma fram, t.d. þegar við fórum í síldarsöltun í Mjóafirði eitt sumar þegar við vorum 15 ára og ýmislegt brallað þar. Bítlalögin spiluð út í gegn, fyrsti bíltúrinn sem endaði í veltu en enginn slasaðist sem betur fer. Sungum Angelíu eftir Theódór Einarsson af mikilli innlifun. Angelía, ég á sorg sem enginn veit, undra þig þó renni tár um kinnar heit og margt margt fleira sem gaman var að rifja upp með Ástu því hún var svo minnug á gömlu góðu dagana.
Margs er að minnast,
margt er hér að þakka.
Guði sé lof fyrir liðna tíð.
Margs er að minnast,
margs er að sakna.
Guð þerri tregatárin stríð.
Far þú í friði,
friður Guðs þig blessi,
hafðu þökk fyrir allt og allt.
Gekkst þú með Guði,
Guð þér nú fylgi,
hans dýrðarhnoss þú hljóta skalt.
(Valdimar Briem)
Vottum fjölskyldunni innilega samúð. Elsku Ásta, góða ferð í sumarlandið. Minning þín lifir.
Þínar vinkonur,
Ester og Kolbrún.