Lúðvík Sigurður Sigurðsson fæddist í Neskaupstað 23. febrúar 1940. Hann lést á heimili sínu 14. júní 2024.
Lúðvík var sonur hjónanna Berthu Serínu Margrétar Stefánsdóttur, húsfreyju í Neskaupstað, f. 24. desember 1914, d. 8. nóvember 2000, og Sigurðar Lúðvíkssonar, útgerðarmanns og skipstjóra í Neskaupstað, f. 21. desember 1904, d. 12. september 1990. Systkini Lúðvíks eru Anna Karen, f. 14. febrúar 1936, Ingibjörg, f. 24. febrúar 1948, d. 7. nóvember 2023, og Bertha Sigríður, f. 10. maí 1953.
Börn Lúðvíks og Brendu Isobel Sigurðsson, f. 29. ágúst 1945, eru: 1) Sigurður John, f. 1968, kvæntur Jolöntu Elzbietu Szczesniak. Börn Sigurðar eru Helen, Alexaner John og Viktoria Isabel. 2) Stefán Karl, f. 1971, sambýliskona Hrafnhildur Mjöll Geirsdóttir. Hún á einn son. 3) Sindri, f. 1978. 4) Sölvi Michael, f. 1986, sambýliskona Arnleif Margrét Friðriksdóttir. Hún á þrjú börn. Einnig átti Lúðvík dóttur, Sif, f. 1977. Sif býr á Nýja-Sjálandi ásamt sambýlismanni sínum, Matthew Rice, og syninum Ryan Arnari.
Lúðvík ólst upp í Neskaupstað og lauk þar landsprófi, að því loknu fór hann í húsasmíði. Síðan lá leiðin til Englands þar sem hann lauk flugmannsprófi. Fyrstu hjúskaparár Lúðvíks og Brendu bjuggu þau í Englandi. Lúðvík og Brenda skildu fyrir nokkrum árum. Lúðvík flaug fyrir hin ýmsu flugfélög um allan heim og síðustu árin sem hann var í fluginu flaug hann í Mið-Austurlöndum.
Útför Lúðvíks fer fram frá Seltjarnarneskirkju í dag, 25. júní 2024, klukkan 13.
Í dag kveð ég elskulegan tengdaföður minn. Það eru ekki mörg ár síðan ég kynntist Lúðvík, en það var þegar ég fór að rugla saman reytum við son hans, Stefán Karl. Allt frá fyrsta degi sem ég hitti hann og allar götur síðan, þá mátti maður eiga von á þéttu faðmlagi, hvort sem hann var að koma eða fara. Lúðvík fyllti öll herbergi sem hann kom inn í bæði með fasi og stórum persónuleika, ég er ekki frá því að þarna hafi verið á ferðinni einn stærsti persónuleiki sem ég hef kynnst.
Þær voru margar stundirnar sem setið var og hlustað á sögur frá öllum heimshornum, og oft var mikið hlegið og stundum voru sögurnar svo ótrúlegar að það var eins og þær væru úr ævintýrunum Þúsund og einni nótt, sem má líka vel vera þar sem hann flaug um allan heim og bjó meira og minna í Mið-Austurlöndum síðustu tíu ár starfsævi sinnar.
Lúðvík hafði skoðanir á öllu, hvort sem það var meðvitað eða ekki. Það má með sanni segja að það hafi verið mikil elja í honum, þar sem hann á gamals aldri fer út í það að byggja sér einbýlishús sem hann byrjaði á fyrir fimm árum og á byggingartímanum bjó hann í sumarhúsi sínu í Svarfhólsskógi einn með fuglum og náttúru til margra ára, það var ekki fyrr en á seinni hluta síðasta árs sem hann flytur í húsið sitt sem staðsett er í dreifbýli Akraness. Það var ekki langur tími sem hann gat notið þess að vera fluttur í húsið og fram að dánardegi, aðeins nokkrir mánuðir og ekki ennþá alveg búinn að taka upp úr kössum, því jú allt hafði sinn tíma eins og hann sagði.
Stefán sonur hans var duglegur að aðstoða föður sinn við þessa flutninga og það má með sanni segja að hann hafi farið dag eftir dag svo vikum skipti eftir sína dagvinnu og hjálpað föður sínum og allar helgar ef því var að skipta. Lúðvík hafði oft á orði hvað hann var stoltur af Stefáni sínum að vera svona umhugað um gamla manninn, einnig hringdi Lúðvík ekki bara daglega heldur mörgum sinnum á dag í Stebba sinn og oft var spurt: Verður Hrafnhildur ekki með steiktan fisk í kvöld? Honum fannst ekkert eins gott og steikti fiskurinn minn og varð oft að orði: hvar færð þú alltaf svona góðan fisk? og ef það var eftirréttur, t.d. frómas, þá lá við að hann malaði.
Mikið þykir mér vænt um að hafa getað gefið þér síðasta faðmlagið þar sem þú lást svo friðsæll í rúminu, því jú þú lagðist til hinnar hinstu hvílu í þínu eigin rúmi og ég held að þú hefðir ekki kosið að fara á annan hátt en í svefni. Þetta var svo óvænt og ég gleymi þessum orðum aldrei þegar Stefán sagði: pabbi er farinn. Ég mun sakna þess að heyra símhringingar og heyra hátt og hvellt þegar þú sagðir Stefán minn, því þér lá alltaf svo hátt rómur.
Farðu í friði elsku Lúðvík minn, mér þótti og þykir svo óendanlega vænt um þig þótt þú hafir oft á tíðum verið erfiður.
Við eigum öll eftir að sakna þín og það hefur ekki liðið sá klukkutími sem ég hugsa ekki til þín. Ég mun hugsa vel um Stefán þinn.
Ástarkveðja.
Þín
Hrafnhildur Mjöll Geirsdóttir.
Í dag verður til grafar borinn vinur minn og starfsbróðir, Lúðvík Sigurðsson. Ég kynntist honum fyrst árið 1982 sem aðstoðarflugmaður hans á Boeing 720/707 flugvélum Arnarflugs h.f.
Lúðvík vakti strax athygli mína fyrir þá miklu reynslu sem hann hafði sem flugmaður í millilandaflugi, en hann hafði lært fagið í Bretlandi og var í framhaldi af því ráðinn til breskra flugfélaga s.s. BOAC, Lloyds og fleirra. Þar öðlaðist hann mikla reynslu í langflugi á leiðum frá Bretlandi til Asíulanda. Hann var snillingur í verklagi í þannig flugum, svo og í fjarskiptum við mismunandi flugumferðastjórnir, svo ólíkar og erfiðar sem þær gátu verið.
Við Lúlli (eins og við kölluðum hann) flugum mikið saman á fjórum mismunandi flugvélategundum allt til ársins 1989, þegar leiðir okkar skildu um hríð. Lúðvík var mér alltaf góður, bæði um borð í flugvélum og þar fyrir utan, og sem félagi í hinum ýmsu verkefnum sem Arnarflug tók að sér á erlendri grundu. Þar er helst að nefna verkefni við vöruflutninga í Líbýu og í Saudi Arabíu við pílagrímaflug. Ennfremur var flogið áætlunarflug frá Keflavík til og Amsterdam um árabil.
Utan vinnutíma var Lúlli góður og glaðlyndur félagi, mikill húmoristi og hrókur alls fagnaðar. Hann átti til koma fólki á óvart með kostulegum uppátækjum og eru til margar sögur um hann, bæði sannar og ósannar, eins og sönnum höfðingjum sæmir.
Við Lúðvík hittumst aftur á vinnustað árið 1991, hjá Atlanta flugfélaginu og vann hann þar allt til að hann lauk störfum þar fyrir aldurs sakir árið 2005.
Eftir þetta tókst Lúlli á við hin efri ár með byggingu sumarhúss í Svínadal og dvaldi þar í öllum sínum frítíma. Ég var í sambandi við hann af og til á þessu æviskeiði og heimsótti hann stundum og aðstoðaði í sumarparadísinni.
Hann var mikill áhugamaður og fróður um mannkynssögu 20. aldar og ræddi hin ýmsu tilbrigði hennar í samtölum við félaga sína. Ennfremur var hann mjög hagur trésmiður, byggði sér stórt einbýlishús á Seltjarnarnesi svo og sumarhúsið sem áður er nefnt. Einnig þótti hann með afbrigðum laghentur við bílaviðgerðir. Hann gerði við og gerði upp sjálfskiptingar sem, svo sannarlega, ekki var á hvers manns færi.
Lúðvík var góður félagi, og sakna ég hans mjög, nú þegar hann er okkur horfinn og heldur á nýjar slóðir. Með þessum orðum vil ég þakka honum góða viðkynningu.
Ég votta sonum hans og öðrum ættingjum innilega samúð mína.
Jón Grímsson,
fyrrv. flugstjóri.