Þórhallur Sófusson Gjöveraa fæddist á Fjórðungssjúkrahúsinu í Neskaupstað 13. maí 1964. Hann lést á Landspítalanum í Fossvogi 9. júní 2024.

Foreldrar Þórhalls voru Jón Friðrik Sófus Gjöveraa, f. 5. júlí 1931 í Héðinsvík á Tjörnesi, d. 23. febrúar 2001, og Ingunn Þórðardóttir, f. 22. júlí 1939 í Hergilsey á Breiðafirði. Þórhallur var miðjubarn af þremur systkinum. Eldri systir hans er Ólína Ágústa, f. 20. september 1960. Yngri bróðir hans er Alexander Smári, f. 9. nóvember 1965.

Eiginkona Þórhalls er Aðalheiður Svanbjörg Axelsdóttir, f. 20. janúar 1961 í Reykjavík. Fyrir þeirra sambúð átti Aðalheiður eina dóttur, Lilju Björk, f. 17. apríl 1980 í Reykjavík, sem Þórhallur gekk í föðurstað og leit á sem sitt barn. Saman eiga þau tvær dætur, Ingunni Jónu, f. 30. júlí 1988 í Neskaupstað, og Kötlu Lind, f. 24. ágúst 1990 í Neskaupstað. Lilja Björk eignaðist tvær dætur, Heiðrúnu Líf, f. 5. ágúst 1998, og Auroru Freyju, f. 6 desember 2018.

Útför Þórhalls fer fram í Fella- og Hólakirkju í dag, 25. júní 2024, klukkan 13.

Að sögn pabba ólst hann upp á bryggjunum í Norðfirði, en ég vil meina að hann lifði megninu af sínu lífi á hinum ýmsu bryggjum landsins, hvort sem það var fyrir austan eða sunnan. Faðir hans og afi voru sjómenn og pabbi fékk sjómennskuna með móðurmjólkinni, hann elskaði sjóinn, skipin og fiskinn. Hann var ekta íslenskur sjómaður í húð og hár. Man þegar við systurnar kvörtuðum um fiskifýlu af honum eftir langan dag og hann fussaði bara og sagði að þetta væri peningalykt.

Eitt af hans stærstu áhugamálum voru skip. Hann varði miklum tíma að tína til upplýsingar um hin ýmsu skip, bæði gömul og ný, og hélt úti vefsíðu þeim tileinkaðri. Hann var það fróður innan greinarinnar að fólk hvaðanæva úr heiminum bað hann um upplýsingar og myndir, sem hann glaður gaf enda einn gjafmildasti maður sem ég þekki. Þó ég hafi ekki haft nokkurn áhuga á þessu áhugamáli hans var ég mjög stolt af pabba og þeim árangri sem hann náði með síðunni sinni.

Betri pabba var ekki hægt að hugsa sér. Hann var svo ljúfur og góður við okkur og vildi okkur alltaf svo vel, stundum aðeins of vel. Þegar við vorum t.d. að læra að ryksuga þá tók hann oft ryksuguna af okkur „því ég er fljótari“ og mamma var í því að skamma hann fyrir að taka af okkur húsverkin, því öðruvísi lærðum við ekki.

Við pabbi vorum alla tíð mjög náin. Unglingsárin voru nú annað mál, en þó ég hafi verið erfið var pabbi alltaf tilbúinn með öxl til að gráta á. Þó hann hafi oft sagt „láttu þetta ekki trufla þig Ingunn mín, hugsaðu um annað“, þá skildi hann samt svo margt.

Ég á ógrynni af minningum um pabba og erfitt að velja hvað stendur upp úr. Ferðir okkar fjölskyldunnar keyrandi til Reykjavíkur voru alltaf ævintýri út af fyrir sig. Pabbi var svo fróður um landið og þekkti öll fjöll, staði og sögur þeim tengdar og var í því að fræða okkur systur. Stundum fannst okkur þetta hundleiðinlegt, en við lærðum mikið um landið okkar og í seinni tíma kunnum við mjög að meta þessar ferðir með pabba.

Hann var alltaf að fíflast í okkur, mjög stríðinn og elskaði saklausa hrekki. Gleymi því ekki þegar við Katla fengum okkur kettling og pabbi skreið um öll gólf, grettandi sig og geiflandi framan í köttinn og lék við hana endalaust, lýsir honum svo vel. Hann sá alltaf til þess að það væri til ferskur fiskur fyrir kettina í fjölskyldunni. Já og bara alla, hann var duglegur að gefa frá sér fisk til allra sem báðu um hann.

Hann eldaði líka besta fiskinn. Það var ekkert eins gott og fiskur í raspi hjá pabba. Hann elskaði allt sem tengdist mat, var mikill matmaður og fjölskyldan kom alltaf saman á sunnudögum í góðan mat, sem allir vissu að var bara afsökun til að eyða sunnudögunum saman sem fjölskylda. Meiri og betri fjölskylduföður var ekki hægt að hugsa sér.

Ég get ekki lýst því hvað það er sárt að missa hann, fá aldrei að tala við hann aftur eða heyra hann babla framan í kisurnar. Heimurinn er svo tómlegur án þín! Ég sakna þín svo djúpt elsku pabbi minn að hjartað mitt er við það að brotna.

Hvíl í friði elsku pabbi minn.

Ingunn Jóna Þórhallsdóttir.