Sólrún Rúnarsdóttir fæddist 25. júní 1974 á Sjúkrahúsi Suðurlands á Selfossi.
Hún ólst upp á Hvolsvelli og bjó þar til tvítugs. Hún tók þátt í íþróttastarfi og björgunarsveitinni Dagrenningu sem unglingur. „Ég keppti í frjálsíþróttamótum hjá ungmennafélögunum og æfði m.a. blak og líka körfubolta. Sem er sérstakt verandi 157 cm á hæð en maður tók þátt í því sem var í gangi.“
Sólrún gekk í Hvolsskóla og varð stúdent 1994 frá Fjölbrautaskóla Suðurlands á Selfossi (FSU). Hún útskrifaðist með BS gráðu í hjúkrunarfræði 1999 og MSc gráðu í mannauðsstjórnun úr viðskiptafræðideild Háskóla Íslands 2011.
Sólrún starfaði á bráðamóttöku Landspítala frá útskrift og var gæðastjóri og í ýmsum verkefnum á flæðisviði Landspítala frá 2015 til 2019. auk þess að vera verkefnastjóri í nýjum meðferðarkjarna og vegna sjúkrahótels við Hringbraut.
Sólrún hefur verið hjúkrunardeildarstjóri á sjúkrahóteli Landspítalans frá 2019 og hótelstjóri sjúkrahótelsins. „Sjúkrahótelin höfðu verið á Snorrabraut og í Ármúla og Landspítalinn verið með samninga við Sjúkratryggingar um hjúkrunina þar. En frá 2019 hefur Landspítalinn alfarið rekið sjúkrahótelið í nýju húsnæði hér á Landspítalalóðinni. Það geta allir gist hér sem eiga erindi einhvers staðar í heilbrigðiskerfinu. Við erum með rými fyrir 75 sjúklinga en aðstandendur geta líka gist hérna og við erum oft meira en 100 manns í gistingu. Um 18 manns starfa á deildinni.“
Sólrún er fulltrúi í áhöfn samhæfingarstöðvar í Skógarhlíð og í aðgerðarstjórn höfuðborgarsvæðisins frá 2017. Hún var í stjórn hjúkrunarráðs Landspítala 2015-2017, hefur verið í undirbúningsnefnd bráðadagsins frá 2014 og í stjórn fagdeildar bráðahjúkrunarfræðinga 2003- 2008. Hún hefur tekið þátt í fjölda gæða- og umbótaverkefna innan bráðadeilda sem snúa m.a. að verklagi, áætlanagerð, skráningu, öryggi og mannauðsmálum. Hún hefur verið stundakennari við Háskóla Íslands og Tækniskóla Íslands og sinnt kennslu og þjálfun á ýmsum námskeiðum s.s. Basic Patient Safety námskeiðum og Lean námskeiðum.
Helstu áhugamál Sólrúnar eru samvera með vinum og fjölskyldu, útivera, hreyfing og ferðalög. „Við eigum sumarbústað ásamt bróður mínum og mágkonu við Laugarvatn og erum oft þar. Ég hjóla, er í ketilbjölluhópi og tveimur gönguhópum. Ég reyni að hafa hreyfinguna sem fjölbreyttasta. Við fórum á Hornstrandir í fyrra með öðrum gönguhópnum og í hinum hópnum gistum við rétt hjá Eldborg á Snæfellsnesi og gengum þar í kring, m.a. yfir á norðanvert Snæfellsnesið. Þetta árið verður farið í Lónsöræfi og inn á Fjallabak.“
FjölskyldaEiginmaður Sólrúnar er Daníel Reynisson, f. 7.1. 1970, kerfisfræðingur. Þau eru búsett í Mosfellsbæ. Foreldrar Daníels: Ingibjörg Daníelsdóttir, 1943, d. 2019, og Reynir Sigurðsson, f. 18.10. 1943, búsettur á Egilsstöðum. Stjúpfaðir Daníels er Jón Sigurðsson, f. 1953, búsettur í Kópavogi.
Börn Sólrúnar og Daníels eru Rúnar Ingi Daníelsson, f. 19.11. 2004; Sölvi Þór Daníelsson, f. 29.5. 2008, og Guðrún Klara Daníelsdóttir, f. 5.9. 2011.
Systkini Sólrúnar: Árni Rafn Rúnarsson, f. 19.7. 1976, líffræðingur; Klara Rúnarsdóttir, f. 21.2. 1986, d. 18.1. 1987, og Gissur Þór Rúnarsson, f. 14.1. 1988, ferðamálafræðingur.
Foreldrar Sólrúnar eru hjónin Rúnar Árnason, f. 29. apríl 1952, vélvirki, og Hrönn Gissurardóttir, f. 10.3. 1955, fyrrverandi stuðningsfulltrúi. Þau eru búsett í Mosfellsbæ.