[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sundkonan Snæfríður Sól Jórunnardóttir verður á meðal keppenda á Ólympíuleikunum í París í sumar en það var endanlega staðfest í gær.

Sundkonan Snæfríður Sól Jórunnardóttir verður á meðal keppenda á Ólympíuleikunum í París í sumar en það var endanlega staðfest í gær. Þar með eru fjórir Íslendingar komnir með keppnisrétt, auk hennar þau Anton Sveinn McKee sundmaður, Hákon Þór Svavarsson haglabyssuskytta og Guðlaug Edda Hannesdóttir þríþrautarkona.

Bandaríska körfuboltakonan Abby Beeman hefur skrifað undir samning við Hamar-Þór, sem eru nýliðar í úrvalsdeildinni. Abby er 22 ára bakvörður og spilaði með skólaliði Marshall í Huntington, Bandaríkjunum. Hún var að meðaltali með 16,6 stig í leik á síðasta tímabili hennar í skólanum.

Viktor Szilagyi , íþróttastjóri þýska handknattleiksfélagsins Kiel, staðfestir að félagið hafi haft samband við fyrrverandi leikmann liðsins og landsliðsfyrirliða Íslands, Aron Pálmarsson , og reynt að fá hann aftur til Þýskalands. „Það er rétt að við töluðum við Aron en það fór ekki lengra en það, við ræddum ekki samning,“ sagði Szilagy við handball-world. Aron lék með Kiel frá 2009 til 2015 en hann sneri heim til FH síðastliðið sumar og varð Íslandsmeistari með uppeldisfélaginu.

Stúlkurnar í U20 ára landsliðinu í körfuknattleik biðu lægri hlut fyrir Írum, 80:67, í fyrsta leik sínum á Norðurlandamótinu í Södertälje í Svíþjóð í gærkvöld. Jana Falsdóttir var í aðalhlutverki hjá íslenska liðinu og skoraði 24 stig. Agnes María Svansdóttir skoraði 14 stig og Eva Wium Elíasdóttir 10. Íslenska liðið mætir Svíum í öðrum leik sínum í dag og loks Dönum á morgun.

Tveir leikmenn knattspyrnuliðs KR eru farnir frá félaginu og spila ekki meira á þessu tímabili. Moutaz Neffati er farinn aftur til Norrköping í Svíþjóð eftir lánsdvöl í Vesturbænum og Lúkas Magni Magnason er farinn í háskólanám til Bandaríkjanna.

Selfyssingar töpuðu í gærkvöld fyrsta leik sínum á tímabilinu í 2. deild karla í fótbolta en Haukar sóttu þá heim og sigruðu, 2:1. Dagur Jósefsson kom Selfyssingum yfir en Frosti Brynjólfsson svaraði tvisvar fyrir Hauka. Selfoss er þó á toppnum með 19 stig en síðan koma Víkingar í Ólafsvík með 18 stig og Ægir úr Þorlákshöfn með 15. Haukar lyftu sér upp í sjöunda sætið með 11 stig.

Brynjólfur Willumsson , knattspyrnumaður hjá Kristiansund í Noregi, er á leið til hollenska úrvalsdeildarliðsins Groningen samkvæmt norskum fjölmiðlum. Groningen fór upp úr B-deildinni á liðnu tímabili. Brynjólfur gekk til liðs við Kristiansund frá Breiðabliki árið 2021 og hefur að sögn Stians Andrés de Wahls, norsks félagskiptasérfræðings, samþykkt tilboð um þriggja ára samning frá hollenska félaginu.