Róbert Guðfinnsson
Róbert Guðfinnsson
Róbert segir að stefnumörkun á komandi mánuðum muni leiða í ljós hvort Genís eigi sér framtíð á Siglufirði eða annars staðar. Vonbrigði séu fólgin í því að sveitarfélagið hafi ekki ráðist í uppbyggingu í samfélaginu.

Siglfirska líftæknifyrirtækið Genís er metið á 23 milljarða króna, sé miðað við verðmat í tengslum við 1,1 milljarðs króna hlutafjáraukningu sem ráðist var í fyrir skemmstu. Róbert Guðfinnsson stofnandi fyrirtækisins fer með 70% hlut í félaginu og er hann samkvæmt þessu metinn á 16 milljarða króna.

Róbert segir að stefnumörkun á komandi mánuðum muni leiða í ljós hvort félagið eigi sér framtíð á Siglufirði eða annars staðar. Vonbrigði séu fólgin í því að sveitarfélagið hafi ekki ráðist í uppbyggingu í samfélaginu sem samkomulag náðist um fyrir 12 árum. Í þeim samningi skuldbatt Róbert sig til þess að fjárfesta myndarlega í samfélaginu, m.a. með hóteluppbyggingu og innspýtingu í uppbyggingu íþróttamannvirkja.

Róbert er gestur Dagmála á mbl.is og greinir þar frá því að á þessum tíma hafi hann fjárfest fyrir um fjóra milljarða í fyrrnefndum verkefnum og aðra eins fjárhæð í Genís.

Bendir hann á að til þess að fyrirtæki geti dafnað og laðað til sín hæfileikafólk þurfi samfélagið að bjóða upp á lífsgæði sem felist í öðru en góðum launum. Þar hafi stjórnmálamenn á Siglufirði brugðist.

Hann bendir sömuleiðis á að í umræðunni um mögulega gangagerð til bæjarfélagsins þurfi að spyrja hvort von sé til þess að byggja upp blómlegt atvinnulíf og samfélag á svæðinu. Tryggja þurfi þá möguleika svo forsvaranlegt sé að leggja 20 milljarða í ný jarðgöng, ekki síst þegar litið er til þess að tugir milljarða hafa nú þegar verið lagðir í samfélagslega innviði á svæðinu.

>> 4 og Viðskiptamogginn