Við Hvaleyrarlón Fjölbýlishúsin verða með samtals 144 íbúðum.
Við Hvaleyrarlón Fjölbýlishúsin verða með samtals 144 íbúðum. — Teikning/Ask Arkitektar
Bæjarstjórn Hafnarfjarðar samþykkti í síðustu viku uppbyggingu allt að 144 íbúða við Hvaleyrarbraut 26-30. Samningurinn markar tímamót.

Baldur Arnarson
baldura@mbl.is

Bæjarstjórn Hafnarfjarðar samþykkti í síðustu viku uppbyggingu allt að 144 íbúða við Hvaleyrarbraut 26-30. Samningurinn markar tímamót enda er hann fyrsti samningurinn um uppbyggingu á hafnarsvæðinu.

Morgunblaðið hefur á síðustu árum fjallað um rammaskipulag endurnýjaðs hafnarsvæðis í Hafnarfirði, að meðtalinni Óseyrinni og Flensborgarhöfn, en þar hefur verið rætt um samtals um 900 íbúðir.

Rósa Guðbjartsdóttir, bæjarstjóri Hafnarfjarðar, segir fyrirhugaða uppbyggingu á Hvaleyrarbraut 26-30 koma til viðbótar væntanlegri uppbyggingu á svæðinu sem rammaskipulagið nær til.

Rósa segir aðspurð vel koma til greina að heimila enn frekari uppbyggingu á þessu svæði, þ.e.a.s. í næsta nágrenni rammaskipulagssvæðisins sömumegin við Hvaleyrarbrautina enda heimilt samkvæmt aðalskipulagi.

Rósa segir að með tímanum muni uppbygging við Flensborgarhöfn tengja allt hafnarsvæðið betur við miðbæinn. Það muni skapa aðdráttarafl og auka möguleika til afþreyingar fyrir íbúana, ferðamenn, innlenda sem erlenda, og íbúðirnar örugglega verða afar eftirsóttar.