Vestmannaeyingurinn Freyja Stefanía Jónsdóttir og Hafnfirðingurinn Gunnar Már Torfason fagna bæði 100 ára afmæli í dag.

Vestmannaeyingurinn Freyja Stefanía Jónsdóttir og Hafnfirðingurinn Gunnar Már Torfason fagna bæði 100 ára afmæli í dag. Freyja fæddist í Eyjum og hefur mestalla tíð búið þar og Gunnar Már fæddist í Hafnarfirði og hefur lengstum búið þar.

Tólf sinnum hafa tveir Íslendingar náð 100 ára aldri á sama degi. Af þessum 24 einstaklingum eru fimm karlar og einir tvíburar, skv. Upplýsingum Jónasar Ragnarssonar, sem sér um vefinn Langlífi

Fyrst gerðist þetta 7. júní 1963. Fjórum sinnum náðu slíkir jafnaldrar 101 árs aldri, einu sinni 102 ára aldri og einu sinni 103 ára aldri. Það voru Helgi Símonarson á Dalvík og Ingibjörg Bjarnadóttir í Reykjavík. Þau fæddust 13. september 1895. Ingibjörg lifði í 103 ár og fjóra mánuði en Helgi í 105 ár og 11 mánuði og átti aldursmet íslenskra karla í fjórtán ár.

Hugsanlegt er að í haust nái tveir 100 ára aldri sama dag. Það gerist nokkrum sinnum aftur á næstu tveimur árum. Hingað til hafa þrír ekki átt 100 ára afmæli sama dag en það gæti komið að því eftir örfá ár, að sögn Jónasar.