Fundur Landskjörstjórn kom saman á Þjóðminjasafni Íslands í
gær.
Fundur Landskjörstjórn kom saman á Þjóðminjasafni Íslands í gær. — Morgunblaðið/Eggert
Tilefni er til að skoða hvort breyta megi ákvæðum kosningalaga þegar kemur að mati á gildi atkvæða. Þetta segir Ástríður Jóhannesdóttir framkvæmdastjóri landskjörstjórnar.

Birta Hannesdóttir
birta@mbl.is

Tilefni er til að skoða hvort breyta megi ákvæðum kosningalaga þegar kemur að mati á gildi atkvæða. Þetta segir Ástríður Jóhannesdóttir framkvæmdastjóri landskjörstjórnar í samtali við Morgunblaðið.

„Landskjörstjórn hefur hug á því að taka til skoðunar þessi ákvæði í lögunum, meðal annars með tilliti samfélagsbreytinga,“ segir Ástríður.

Hún segir ástæðuna tvíþætta. Annars vegar sé mikilvægt að fræða kjósendur betur um hvað ógildi seðil og hins vegar telur landskjörstjórn tilefni til að skoða hvort þörf sé á að endurskoða lögin þegar hvað viðkemur mati á gildi atkvæða.

Kjör Höllu Tómasdóttur staðfest

Landskjörstjórn kvað upp úrskurði sína vegna ágreiningsseðla sem var skilað inn í forsetakosningum 1. júní síðastliðinn í gær og var kjör Höllu Tómasdóttur staðfest. Þá voru 117 ágreiningsseðlar teknir fyrir og 115 þeirra staðfestir.

Rúmlega 215 þúsund atkvæði voru talin og voru 803 seðlar metnir auðir og 512 seðlar ógildir.

Algengt að fólk riti vísur á kjörseðla

Seðlar eru metnir ógildir af ýmsum ástæðum og brjóta þeir þá 102. og 103. grein kosningalaga. Þar er kveðið á um að atkvæði þar sem kjósandi markaði ekki X í ferninginn sé dæmt ógilt og ef ekki má sjá með öruggum hætti hvaða framboðslista/frambjóðanda kjósandi hefur viljað greiða atkvæði er atkvæðið dæmt ógilt. Þá er atkvæði einnig ógilt ef búið er að gera kjörseðilinn auðkennilegan af ásettu ráði og nefnir Ástríður sem dæmi að algengt sé að sjá vísur eða skilaboð rituð á kjörseðla.

Þá sagði hún að ógildir seðlar hefðu verið í takt við niðurstöðu kosninganna og ekki beinst að sérstökum frambjóðanda.