Siglufjörður Róbert Guðfinnsson er ósáttur við bæjaryfirvöld sem hann segir að hafi ekki staðið við sinn hluta samkomulags um uppbyggingu.
Siglufjörður Róbert Guðfinnsson er ósáttur við bæjaryfirvöld sem hann segir að hafi ekki staðið við sinn hluta samkomulags um uppbyggingu. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Stefnumörkunarvinna á komandi mánuðum mun leiða í ljós hvort framtíðaruppbygging líftæknifyrirtækisins Genís fari fram á Siglufirði eða annars staðar. Fyrirtækið var stofnað í bænum árið 2005 og er í dag metið á 23 milljarða króna.

Dagmál
Stefán E. Stefánsson
ses@mbl.is

Stefnumörkunarvinna á komandi mánuðum mun leiða í ljós hvort framtíðaruppbygging líftæknifyrirtækisins Genís fari fram á Siglufirði eða annars staðar. Fyrirtækið var stofnað í bænum árið 2005 og er í dag metið á 23 milljarða króna.

Róbert Guðfinnsson stofnandi Genís segist efins um að Siglufjörður sé reiðubúinn að fóstra uppbyggingu fyrirtækisins á komandi árum. Kennir hann þar m.a. um svikum stjórnmálamanna sem ekki hafi staðið við samkomulag sem hann gerði við bæinn fyrir mörgum árum. Fól það í sér fjárfestingu af hans hendi upp á nærri fjóra milljarða króna.

„Ég gerði samkomulag við sveitarfélagið fyrir tólf árum um að ég myndi fara í viðamiklar fjárfestingar þarna. Byggði hótel og setti pening í golfvöll og skíðasvæði og fleira en ég gerði aldrei neina kröfu til þeirra, aldrei kröfu um afslátt á tengigjöldum, fasteignagjöldum eða öðru slíku. Ég gerði aftur á móti miklar kröfur til þess hvað þeir gera í samfélaginu. Ég gerði fimm liða samkomulag við þá um að ég myndi fjárfesta en að þeir færu í ákveðnar aðgerðir sem gerðu samfélagið meira aðlaðandi í snyrtimennsku, og annað, taka þarna miðbæinn í gegn, taka útivistarsvæði þar sem komin er steypustöð og annað.“

Segir hann að bæjarfélagið hafi ekkert gert til þess að standa við samkomulagið, sem sé miður.

„Krafan um lífsgæði hefur breyst mjög á undanförnum áratugum. Áður voru lífsgæði að geta bara framfleytt fjölskyldu þinni og fengið góðan launatékka. Í dag er hluti af lífsgæðum umhverfi þitt, samgöngur, heilbrigðiskerfið, skólar og það er annað. Þannig að ég átti mér alltaf þann draum að það væri hægt að umbreyta gömlu fiskimannaþorpi í stað sem laðaði að vel menntað fólk sem vildi búa í svona náttúrulegu umhverfi, snyrtimennsku, skipulagi og annað en nú er sá draumur að fjara út.“

Þetta segir Róbert í samtali í Dagmálum þar sem hann ræðir fyrirtækið og framtíð þess en nýverið juku núverandi og nýir eigendur hlutafé þess um 1,1 milljarð króna.

Segir hann að upplifun sín sé sú að hann hafi þurft að draga vagn uppbyggingar á svæðinu. Hann hafi hins vegar ekki ætlað sér að verða allt í öllu í samfélaginu.

„Þegar ég fór í þessar fjárfestingar mínar og flutti Genís þarna norður, þá var hugsunin sú að þessi innspýting af fjármagni ætti að vera hvati til annarra að fjárfesta. Ég hafði engan áhuga á að verða dómínerandi í þessu samfélagi. Ég vildi sjá það að upp úr þessum fjárfestingum kæmu lítil fyrirtæki allt í kringum okkur þar sem við hefðum öfluga millistétt, einkaframtak sem væri að byggja upp.“

Spurður út í sífellt háværari kröfur um uppbyggingu samgöngumannvirkja við Siglufjörð, ekki síst ný jarðgöng úr firðinum og yfir í Fljótin í Skagafirði, segist Róbert sammála kröfum þar um. Hins vegar þurfi þær að byggjast á eðlilegum forsendum og að verið sé að tryggja samgöngur inn á samfélag sem eigi sér framtíð.

„Mér þykir afskaplega vænt um peninga, líka peninga annarra, líka peninga ríkisins. Héðinsfjarðargöng kostuðu á núvirði sennilega í kringum 20 milljarða. Nýju göngin kosta sennilega 20 milljarða líka. Það er verið að setja fjóra milljarða í snjóflóðavarnir yfir þessu byggðarlagi. Þegar þú ert kominn með yfir 40 milljarða til að vernda þetta byggðarlag þá er það krafa, hlýtur það að vera krafa þeirra sem setja peninga í þetta að þarna sé líflegt samfélag. Að þarna sé samfélag sem sé í uppbyggingarfasa, að þetta sé samfélag sem muni eiga blómlegt atvinnulíf, að öðrum kosti ertu bara að sólunda peningum. Það er mín skoðun á þessu,“ segir Róbert.

Hann segir að nýlegar fréttir af jarðsigi nærri Strákagöngum séu til þess gerðar að þrýsta á jarðgöng. Hins vegar hafi menn farið fram úr sér með yfirlýsingum þar um, m.a. á vettvangi Morgunblaðsins. Hafi fréttaflutningurinn meðal annars haft neikvæð áhrif á ferðaþjónustu á Siglufirði. Er hann sérstaklega gagnrýninn á að Morgunblaðið hafi leitað álits Kristjáns L. Möller um mögulega gangagerð. Segir Róbert það skrítið í ljósi þess að Kristján hafi haft forgöngu um að troða Vaðlaheiðargöngum fram fyrir 20 mikilvægari samgönguverkefni. Það hafi verið gert á þeim forsendum að um einkaframkvæmd væri að ræða en verkefnið hafi að lokum allt lent á herðum ríkissjóðs.