Loftmynd Byggingarreitir eru snyrtilega afmarkaðir og með garð í miðjunni. Stutt er í helstu þjónustu frá þessu svæði í Hafnarfirði.
Loftmynd Byggingarreitir eru snyrtilega afmarkaðir og með garð í miðjunni. Stutt er í helstu þjónustu frá þessu svæði í Hafnarfirði.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Bæjarstjórn Hafnarfjarðar samþykkti í síðustu viku uppbyggingu allt að 144 íbúða við Hvaleyrarbraut 26-30. Samningurinn markar tímamót enda er hann fyrsti samningurinn um uppbyggingu á hafnarsvæðinu.

Baldur Arnarson
baldura@mbl.is

Bæjarstjórn Hafnarfjarðar samþykkti í síðustu viku uppbyggingu allt að 144 íbúða við Hvaleyrarbraut 26-30. Samningurinn markar tímamót enda er hann fyrsti samningurinn um uppbyggingu á hafnarsvæðinu.

Hafnarfjarðarbær samdi annars vegar við Fjarðarmót um uppbyggingu á lóð númer 26  og hins vegar við Hagtak hf. og Verkfræðiþjónustu Jóhanns G. Bergþórssonar ehf. um uppbyggingu á lóðum númer 28 og 30.

Morgunblaðið hefur á síðustu árum fjallað um rammaskipulag endurnýjaðs hafnarsvæðis í Hafnarfirði, að meðtalinni Óseyrinni og Flensborgarhöfn, en þar hefur verið rætt um samtals um 900 íbúðir.

Rósa Guðbjartsdóttir, bæjarstjóri Hafnarfjarðar, segir fyrirhugaða uppbyggingu á Hvaleyrarbraut 26-30 koma til viðbótar væntanlegri uppbyggingu á svæðinu sem rammaskipulagið nær til.

„Þetta er í raun nátengt enda næsta svæði við hliðina en fellur þó ekki innan rammaskipulagsins sem við höfum kynnt. Það gekk vel að ná samkomulagi við lóðarhafa á Hvaleyrarbraut sem óskuðu eftir að fá að gera breytingar á skipulagi og fá heimild til að reisa íbúðir á lóðunum í samræmi við samþykkt aðalskipulag á svæðinu.

Samtalið við lóðarhafa tók tæpt ár og það þykir ekki langur tími í tilvikum sem þessum. Það hefur verið þyngra að semja á öðrum þéttingarreitum í bænum – það verður að viðurkennast – því menn hafa ólíkar hugmyndir um verð og annað slíkt. Það er í gildi gjaldskrá um gatnagerðar- og byggingarréttargjöld sem bærinn fylgir mjög ákveðið,“ segir Rósa og upplýsir að lóðarhafarnir á Hvaleyrarbraut 26-30 muni greiða rúman milljarð króna í gjöld til bæjarins. Það samsvarar um sjö milljónum króna á íbúð.

Rósa segir aðspurð vel koma til greina að heimila enn frekari uppbyggingu á þessu svæði, þ.e.a.s. í næsta nágrenni rammaskipulagssvæðisins sömumegin við Hvaleyrarbrautina enda heimilt samkvæmt aðalskipulagi.

„Þar eru reitir sem er ekki búið að breyta deiliskipulagi á en samtal er hafið við suma lóðarhafa sem áhugasamir eru um breytingar. Rammaskipulagið nær yfir svokallað Óseyrarsvæði, Flensborgarhöfn og Fornubúðarsvæði og þar er gert ráð fyrir samtals um 900 íbúðum. Það hefur hins vegar tekið lengri tíma en við hefðum viljað, að ná samkomulagi við þá sem þar eru fyrir á fleti. Vonandi nást þó samningar fyrr en síðar en þessi samningur á Hvaleyrarbraut gefur tóninn og við erum ákaflega ánægð með að fyrsti samningurinn á hafnarsvæðinu sé í höfn svo uppbygging geti hafist,“ segir Rósa.

Á Hvaleyrarbraut 26-30 er nú skemma á einni lóðinni en annars auðar lóðir. Lóðirnar eru í hæð ofan við höfnina og frá íbúðum verður því útsýni yfir Hvaleyrarlón og til suðurs á golfvöllinn á Hvaleyrarholti. Ætla má að um 300 manns muni búa í íbúðunum 144 og er verkefnið til dæmis álíka stórt og þétting byggðar í Stakkholti við Hlemm þar sem byggðar voru 139 íbúðir fyrir rúmum áratug.

Innviðauppbygging

Rósa segir breytt skipulag á hafnarsvæðinu öllu kalla á innviðauppbyggingu. Meðal annars þurfi á næstu árum að byggja við nærliggjandi grunnskóla og byggja leikskóla á svæðinu. Jafnframt þurfi að endurgera gangstéttir og götur og aðlaga hafnarsvæðið betur að þeirri blönduðu byggð sem rísa muni á svæðinu á næstu árum. Þar með talið með gerð almenningssvæða. Gert sé ráð fyrir húsnæði undir verslunar- og þjónustustarfsemi á öllum lóðunum á Hvaleyrarbraut. Þá sé tekið tillit til nærliggjandi íbúðarhúsa, ofar í hæðinni í Skipalóni, til að skerða ekki útsýni frá nærliggjandi fjölbýlishúsum. Jafnframt sé lagður metnaður í hönnun húsanna, til dæmis með hallandi þökum og uppbroti húshliða, til að þau falli sem best að umhverfinu.

Með tímanum muni uppbygging við Flensborgarhöfn tengja allt hafnarsvæðið betur við miðbæinn. Það muni skapa aðdráttarafl og auka möguleika til afþreyingar fyrir íbúana, ferðamenn, innlenda sem erlenda, og íbúðirnar örugglega verða afar eftirsóttar.

Spurð að lokum hvenær ætla megi að framkvæmdir geti hafist á Hvaleyrarbraut 26-30, segir Rósa ekki óraunhæft að þær hefjist síðar á árinu eða í byrjun þess næsta og að flutt verði inn í fyrstu íbúðirnar tveimur árum síðar.

Til upprifjunar var efnt til hugmyndasamkeppni um endurnýjun hafnarsvæðisins árið 2018. Rammaskipulagið var unnið á grundvelli vinningstillagna hollensku arkitektastofunnar Jvantspijker og sænsku arkitektastofanna Kjellgren Kaminsky Architecture og Mareld Landskapsarkitekter. Upphaflega stóð til að gera nýtt deiliskipulag fyrir Flensborgarhöfn. Skipulagssvæðið var síðan útvíkkað inn á land Óseyrar, vestan við Flensborgarhöfn og að Suðurbakka.