Kína gengur æ lengra gagnvart nágrönnum sínum.

Kínversk stjórnvöld telja sig eiga að ráða yfir nánast öllu Suður-Kyrrahafi og að auki yfir eyjunni Taívan. Breytir engu fyrir stjórnina í Peking þó að alþjóðlegur dómstóll í Haag hafi úrskurðað gegn sjónarmiðum þeirra um Suður-Kyrrahaf og þó að á eyjan Taívan sé sjálfstætt og fullvalda lýðræðisríki og að þar hafi verið sjálfstætt ríki jafn lengi og kommúnistaflokkurinn kínverski hefur ráðið yfir meginlandi Kína.

Eftir því sem Kína hefur vaxið ásmegin, jafnt efnahagslega og hernaðarlega, hefur þrýstingur þess gagnvart nágrönnum orðið meiri og yfirgangurinn augljósari. Hótanirnar í garð Taívans eru viðvarandi og vaxandi og birtast ekki aðeins í yfirlýsingum kínverskra stjórnvalda heldur einnig í heræfingum og kvörtunum yfir því að aðrir sigli um Taívan-sund, svo sem í síðasta mánuði þegar bandarískt herskip sigldi í gegnum sundið undir skömmum frá Kína. Bandaríski herinn vísaði í skýlausan rétt til frjálsra ferða um höfin en kínversk stjórnvöld gefa lítið fyrir slík sjónarmið á þessu hafsvæði.

Kínversk stjórnvöld deila við marga nágranna sína, ekki aðeins lýðræðislega kjörin stjórnvöld í Taívan þó að mest beri á þeim deilum. Deilur um Suður-Kínahaf hafa meðal annars verið við stjórnvöld í Malasíu, Víetnam og á Filippseyjum, en þar sló í brýnu fyrir rúmri viku þegar Filippseyingar reyndu að koma vistum og búnaði um borð í gamalt herskip sem strandað var á skeri fyrir aldarfjórðungi og Filippseyjar líta á sem útvörð sinn í hafinu á þessu svæði. Skerið, Annað Tómasarsker (e. Second Thomas Shoal), er um 200 kílómetra frá Filippseyjum, en meira en 1.000 kílómetra frá næsta landsvæði Kína, sem telur sig engu að síður eiga að hafa þar yfirráð.

Atburðarásin við skerið var undarleg svo ekki sé meira sagt. Þegar Filippseyingarnir fóru á gúmmíbátum sínum að strandaða skipinu mættu þeir kínversku strandgæslunni á smáum bátum með strandgæsluliðum með miklum hávaða, veifandi öxum og hnífum. Skorið var á gúmmíbátana og í atganginum missti einn Filippseyingurinn fingurinn.

Slík framganga er siðuðum ríkjum vitaskuld ekki sæmandi en ætla má að skýringin á þessum undarlegheitum sé sú að kínversk stjórnvöld séu að láta reyna á hve langt þau geta gengið, ekki síst vegna þess að Filippseyjar hafa gagnkvæman varnarsamning við Bandaríkin og hafa haft jafn lengi og Ísland hefur haft varnarsamning við Bandaríkin, eða frá 1951.

Afleiðingar þessa atviks verða líklega takmarkaðar þó að þetta sé ekki til þess fallið að auka hróður Kína eða traust annarra ríkja til þess. Forseti Filippseyja sagði nýlega á öryggisráðstefnu í Singapúr að hann teldi að ef filippseyskur borgari væri vísvitandi drepinn, væri það að hans mati „mjög mjög nærri því að vera það sem skilgreint er sem stríðsaðgerð“.

Þetta má segja að sé mjög mjög nærri því að vera rauð lína og tekur í öllu falli af tvímæli um að einn fingur dugar ekki til enda mundi sjóliðinn þá dýr allur. Og stjórnvöld í Manila hafa eftir atvikið við Annað Tómasarsker gefið það út að það sé ekki þess eðlis að á ákvæði varnarsamningsins við Bandaríkin reyni.

Atvikið er engu að síður áminning um hvert hugur stjórnvalda í Peking stendur. Vilji þeirra er skýr og þau munu áfram láta reyna á öll mörk og rauðar línur þar til þau finna veikleika og telja sig geta gripið tækifærið. Hvort sem það snýst um hernaðaraðgerðir gegn Taívan eða einstökum landsvæðum eða skerjum öðrum.

Í þessu sambandi verður heldur ekki horft framhjá nýrri löggjöf stjórnvalda í Peking sem kveður á um að strandgæsla Kína megi fangelsa erlenda ríkisborgara á Suður-Kínahafi. Stjórnvöld á Filippseyjum og í Bandaríkjunum hafa mótmælt þessari löggjöf harðlega og telja hana ógna friði á svæðinu enda enn eitt skrefið til að auka yfirgang kínverskra stjórnvalda, sem segja á hinn bóginn að lagasetningin eigi að stuðla að öryggi á svæðinu.

Yfirmaður hers Filippseyja benti á að einungis sjóræningjar höguðu sér með þeim hætti sem Kínverjar gerðu við Annað Tómasarsker í liðinni viku. Á meðan kínversk stjórnvöld telja slíka framgöngu boðlega verða aukin ítök þeirra og yfirgangur á svæðinu síst til að auka öryggi þar, enda er það ekki tilgangurinn með aðgerðunum. Þess vegna skiptir máli að skilaboðin frá lýðræðisríkjum og öðrum sem vilja fara að lögum séu skýr um að svona framganga verði ekki liðin og að yfirgangssöm ríki, hvort sem er Kína, Rússland eða önnur, komist ekki upp með að knýja vilja sinn fram með hernaðaraðgerðum.