Úr hafinu Nótin er þétt því rauðátan er einungis 4 millimetrar að stærð.
Úr hafinu Nótin er þétt því rauðátan er einungis 4 millimetrar að stærð. — Ljósmynd/Óskar Pétur Friðrikson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Rauðátan er undirstaða alls lífs í hafinu og nú eru hafnar rannsóknir á því hvernig nýta má betur þessa dýrmætu afurð á Íslandi. Astaxanthin sem unnið er úr rauðátunni er bæði notað í fæðubótarefni og lyf gegn sykursýki 2.

Fréttaskýring
Óskar Bergsson
oskar@mbl.is

Rauðátan er undirstaða alls lífs í hafinu og nú eru hafnar rannsóknir á því hvernig nýta má betur þessa dýrmætu afurð á Íslandi. Astaxanthin sem unnið er úr rauðátunni er bæði notað í fæðubótarefni og lyf gegn sykursýki 2.

Hörður Baldvinsson, framkvæmdastjóri Þekkingarseturs Vestmannaeyja, er nýkominn úr tveimur leiðöngrum þar sem kannaðar voru hentugar togslóðir til veiða á rauðátu.

Fundu réttar togslóðir

„Við erum ánægð með útkomuna úr þessum tveimur leiðöngrum. Í fyrri leiðangrinum náðum við einu tonni af rauðátu og í þeim seinni hálfu tonni. Markmiðið var ekki að veiða, heldur fyrst og fremst að kanna togslóðir. Bæði hvar við getum ekki veitt vegna mikils meðafla og svo hvar við getum veitt þar sem ekki er meðafli. Lykillinn er að sleppa við meðaflann.“

Hörður segir að mikið sé af rauðátu við suðurströndina og togslóðir við Selvogsbanka, Grindavíkurdýpi og austur með ströndinni hafi verið kannaðar.

Notuðu gervihnött og bergmálstæki

„Við notum gervihnött og hátíðni-bergmálstæki til að skoða yfirborð sjávar og árangurinn er sá að við höfum fundið togslóðir þar sem aðstæður eru líklegar til árangurs og líka fundið svæði þar sem ekki ætti að leyfa veiðar af þessu tagi. Það sem við leitum að er mikil lóðning og lítill meðafli. Gott hlutfall er 80 grömm af átu úr hverjum rúmmetra af sjó.“

Norðmenn hafa stundað þessar veiðar síðan 1959 og hafa mikla reynslu af því hvenær eru bestu skilyrði fyrir veiðarnar. Rauðátan lifir aðeins í eitt ár og veiðitíminn er frá maí og fram í miðjan ágúst. Þá fellur hún á botninn og svo kemur ný kynslóð upp á vorin.

Betra að toga síðdegis

„Þau atriði sem hafa þarf í huga við veiðarnar eru að rauðaátan flytur sig ofar í sjóinn þegar skyggir og því betra að toga þegar halla fer af degi. Við viljum ekki stunda tilraunaveiðar fyrr en við erum viss um að fá engan meðafla, því við viljum ekki óábyrgar veiðar,“ segir Hörður.

Hann segir að ekki verði farnir fleiri leiðangrar í ár. Hver leiðangur kosti mikið og árangurinn úr þessum tveimur leiðöngrum sé góður og verði rannsakaður í vetur. Verkefnið er styrkt af Rannís, Sóknaráætlun Suðurlands, Matvælasjóði og Lóusjóðnum sem styrkir nýsköpunarverkefni á landsbyggðinni. Verkefnið er unnið í samstarfi við Hafró og var rannsóknarskipið Bjarni Sæmundsson leigt í leiðangrana.

Góð viðbót fyrir uppsjávarflotann

„Það er mikilvægt að frysta aflann alveg ferskan, því átan brotnar hratt niður og gæðin rýrna. Við þurftum að bíða í 6-8 klst., en Ísfélagið og Vinnslustöðin frystu fyrir okkur, þar sem ekki er hægt að frysta um borð í Bjarna Sæm.“

Hörður segir að ef vel takist til sé þetta gott tækifæri fyrir Íslendinga, sem geti stuðlað að betri nýtingu fyrir flotann.

„Loðna og makríll veiðast á veturna og fram á vor og svo er beðið eftir síldinni fram á haust. Veiðar á rauðátu geta bara verið á sumrin og því kjörið verkefni fyrir sjómenn á sumrin og vísindamenn á veturna. Ef vel tekst til getur þetta orðið mjög góð viðbót fyrir uppsjávarflotann og fyrst og fremst Vestmanneyinga,“ segir Hörður Baldvinsson.

Karótín

Litar lundann

Lundinn er algengur við Ísland og skrautlegur goggurinn litskrúðugur. Sílið lifir á rauðátunni og lundinn étur sílið. Karótínefnið í rauðátunni gefur goggnum og fótunum lit. Hörður segist hafa tekið eftir því með veikburða fugla sem teknir hafa verið og hlúð að, að þeir misstu litarefni úr goggi og fótum eftir nokkra mánuði í umsjá safnsins. Í samráði við dýralækni var þeim gefin þurrkuð rauðáta og eftir það tók liturinn við sér aftur. Karótínefnið gefur bleikum fisk litinn.