Inga Sæland
Inga Sæland
Frumvarpið tryggir í engu öryggi og afkomu öryrkja og öllum má vera ljóst að það er illa unnið og vitnisburður um hversu lítinn skilning og hve litla virðingu þingmenn bera fyrir öryrkjum

Á laugardaginn var almannatryggingafrumvarp ríkisstjórnarinnar keyrt í gegn á Alþingi þrátt fyrir harða andstöðu Flokks fólksins. Frumvarpið tryggir í engu öryggi og afkomu öryrkja og öllum má vera ljóst að það er illa unnið og vitnisburður um hversu lítinn skilning og hve litla virðingu þingmenn bera fyrir öryrkjum. Enda öryrkjum ekki sýnd sú lágmarksvirðing að eiga fulltrúa í nefndinni sem Steingrímur J. Sigfússon leiddi og sem sauð saman þetta frumvarp.

Flokkur fólksins gagnrýnir m.a. harðlega að meginmarkmið frumvarpsins sé að losna við nýgengi örorku með því að setja þá sem koma nýir inn í kerfið í starfsgetumat. Það er með öllu óútfært hvernig á að standa að slíku mati og hvernig vinnumarkaðurinn bregst við.

Árum saman hafa stjónvöld reynt að hnoða saman löggjöf sem þvingar öryrkja út á vinnumarkaðinn. Þau eru mest stressuð yfir því að öryrki sé ekki öryrki heldur letingi sem nennir ekki að vinna heldur sé að svindla á kerfinu.

Það er vert að minna á að Flokkur fólksins hefur ítrekað lagt fram frumvörp sem koma til móts við þá öryrkja sem treysta sér til að reyna fyrir sér á hinum almenna vinnumarkaði. Það hefði strax náð fram að ganga og ekki kostað samfélagið eina einustu krónu, heldur þvert á móti. En því hefur ávallt verið fleygt í ruslið. Munurinn á þeirri nálgun okkar og þvingunaraðgerðunum sem allir flokkar á þingi samþykktu um helgina nema Flokkur fólksins er sá að við virðum einstaklinginn, þarfir hans og getu til að ákveða sjálfur hvort hann treystir sér til vinnu.

Þetta er frumvarp áframhaldandi kjaragliðnunar. Tæplega 11 milljarða kjarabótum til öryrkja er frestað svo þeir mættu greiða fyrir kjarapakka ríkisstjórnarinnar vegna nýgenginna kjarasamninga sbr. bls. 54 í fjármálaáætlun 2025-2029 en þar segir m.a.:

„Jafnframt hefur verið gripið til ýmissa hagræðingaraðgerða. Það er gert til þess að skapa svigrúm fyrir aukin útgjöld í tengslum við aðkomu ríkissjóðs að gerð kjarasamninga á almennum markaði sem munu koma fram af miklum þunga á næsta ári, m.a. með frestun á gildistöku nýs örorkubótakerfis til 1. september 2025.“

Einnig sbr. á bls. 65 í sömu fjármálaáætlun segir:

„Önnur veigamikil breyting frá gildandi fjármálaáætlun sem fellur undir félags- og tryggingamál er seinkun gildistöku nýs örorkulífeyriskerfis frá ársbyrjun 2025 til 1. september sama ár. Með breytingunni lækkar framlag sem gert hafði verið ráð fyrir í gildandi fjármálaáætlun til nýs örorkulífeyriskerfis um 10,1 ma.kr. vegna ársins 2025.“

Að fresta launahækkun til öryrkja sem mest þurfa á henni að halda í því okri sem við búum við er lúalegt svo ekki sé meira sagt. Þið megið svo sannarlega skammast ykkar.

Höfundur er alþingismaður og formaður Flokks fólksins.