Óli Björn Kárason
Óli Björn Kárason
Ég er ekki hrifinn af afkastamiklu þingi. En ég verð aðviðurkenna að fjöldi góðra mála var afgreiddur á síðustu dögum þingsins (og nokkur miður góð).

Það er hægt að gera upp þingveturinn með ýmsum hætti en 154. löggjafarþingi var frestað aðfaranótt síðasta sunnudags. Uppgjörið er mismunandi eftir því hver það gerir. Margir stjórnarþingmenn benda sjálfsagt á fjölda mála, á meðan aðrir telja að þingið hafi fremur markast af átökum en árangri. Svo eru þeir sem benda á að tvær ríkisstjórnir – ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur og ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar – hafi setið að völdum á liðnum þingvetri.

Í samantekt skrifstofu Alþingis kemur fram að 112 frumvörp voru samþykkt sem lög og 22 tillögur urðu að ályktunum. Alls voru 35 skriflegar skýrslur lagðar fram og 25 beiðnir um skýrslur. Fyrirspurnir til munnlegs svars voru 90 og var 58 svarað. Skriflegar fyrirspurnir voru hvorki fleiri né færri en 625 og var 361 þeirra svarað. Yfir 260 skriflegar fyrirspurnir biðu svars er þingi var frestað. Þingmenn virðast því forvitnari en aðrir landsmenn.

Tölfræði af þessu tagi skiptir líklega litlu í hugum kjósenda fyrir utan fjölda frumvarpa sem samþykkt voru sem lög. Alls voru 1.213 þingmál til meðferðar og var fjöldi þingskjala 2.060.

Málglaðir þingmenn

Eins og áður voru þingmenn misjafnlega málglaðir. Nýr ræðukóngur var krýndur; Eyjólfur Ármannsson, þingmaður Flokks fólksins, sem náði titlinum af píratanum Birni Leví Gunnarssyni og það nokkuð örugglega. Eyjólfur talaði í einn sólarhring og átta klukkutímum og sextán mínútum betur. Flokkur fólksins er hreykinn af sínu fólki. Á Facebook-síðu flokksins er sérstök athygli vakin á ræðukónginum og að Inga Sæland hafi verið ræðudrottning. Hún hafi talað oftar og lengur en formenn annarra stjórnmálaflokka. Í þeirri keppni hafði Inga mikla yfirburði. Mælikvarðarnir á árangur eru þannig misjafnir.

Tíu málglöðustu þingmennirnir komu allir úr röðum stjórnarandstöðunnar. Þrír frá Flokki fólksins, fjórir frá Pírötum, einn frá Miðflokknum og tveir úr Viðreisn. Alls töluðu þessir tíu þingmenn í liðlega 182 klukkustundir eða í rúmlega sjö og hálfan sólarhring. Stjórnarandstæðingarnir tíu komu alls 3.353 sinnum í ræðustól þingsins.

Liðinn þingvetur var veturinn þegar lagðar voru fram fjórar vantrauststillögur, en tvær voru dregnar til baka. Hægt og bítandi er grafið undan tillögum um vantraust. Þær breytast í einskonar málfundaæfingar fyrir stjórn og stjórnarandstöðu. Hér á hið sama við og um úlfinn!

Klofningur og autt blað

Eins og ég hef margítrekað er ég ekki hrifinn af „afkastamiklu“ þingi. Í mínum huga er magn ekki sama og gæði. En ég verð að viðurkenna að fjöldi góðra mála var afgreiddur á síðustu dögum þingsins (og nokkur miður góð). Að þessu leyti rættist hressilega úr þingvetrinum.

Breytingar á útlendingalögunum eru þýðingarmiklar. Loforð Bjarna Benediktssonar, þegar hann tók við forsætisráðuneytinu, um að tekin yrði stjórn á landamærunum, gekk eftir. Samfylkingin skilaði hins vegar auðu. Augljóst er að flokkurinn er þverklofinn. Djúpstæður ágreiningur innan og utan þingflokksins hefur þannig gert Samfylkinguna áhrifalausa í málefnum flóttamanna og marklausa þegar kemur að því að glíma við erfið og viðkvæm mál. Viðreisn fetaði í fótspor Samfylkingarinnar. Þingmenn flokksins sátu hjá.

Það var ánægjulegt að þingmenn skyldu sameinast um breytingar á lögreglulögunum fyrir utan Pírata sem hafa barist gegn auknum heimildum lögreglunnar í aðgerðum gegn skipulagðri glæpastarfsemi og tryggja þar með betur öryggi borgaranna. Netásás á Árvakur, útgáfufélag Morgunblaðsins, undirstrikar mikilvægi þess að samþykkja auknar heimildir lögreglunnar til afbrotavarna.

Fyrir unga foreldra skiptir miklu að greiðslur í fæðingarorlofi hafi loks verið hækkaðar.

Hagur öryrkja og stóryrði

Flestir þingmenn voru samstiga um viðamiklar breytingar á tryggingakerfi öryrkja sem mun bæta hag öryrkja með jákvæðum hvötum. Flokkur fólksins ákvað að styðja ekki breytingarnar. Inga Sæland var stóryrt, eins og oft áður, í samtali við mbl.is: „Okkur þykir þetta hrein og klár aðför að öryrkjum.“

Dómur Ingu vekur furðu. Bergþór Heimir Þórðarson, varaformaður Öryrkjabandalagsins [ÖBÍ], sagði í viðtali við Ríkisútvarpið að breytt lög mörkuðu þáttaskil. Á heimasíðu ÖBÍ segir að breytingarnar hafi mikla þýðingu fyrir örorku- og endurhæfingarlífeyristaka: „ÖBÍ fagnar þessum mikilvægu áföngum.“

Tveggja manna þingflokkur Miðflokksins klofnaði í afstöðu til kvótasetningar grásleppu. Viðreisn sat hjá. Samfylking var á móti líkt og Píratar og Flokkur fólksins.

Líkt og í grásleppunni skilaði Viðreisn auðu þegar kom að heimild til að selja hlut ríkissjóðs í Íslandsbanka, en Samfylking var á móti – í liði með Pírötum og Flokki fólksins.

Mér var ókleift að styðja breytingar á húsaleigulögum þrátt fyrir nokkrar breytingar sem voru mjög til bóta. Allt frá upphafi hef ég varað alvarlega við lagasetningunni enda óttast ég að afleiðingar lagasetningarinnar verði neikvæðar og að staða leigjenda versni en batni ekki, líkt og er yfirlýst markmið. Miðflokkurinn sat hjá af sömu ástæðum. Þingmenn Viðreisnar skiluðu einnig auðu en af allt öðrum ástæðum. Viðreisn vill allsherjar-skráningarskyldu á alla einkaréttarlega leigusamninga og að komið verði á leigubremsu. (Um slíkar hugmyndir hef ég skrifað á þessum stað. Meira að segja vinstrisinnaðir hagfræðingar eru sannfærðir um að leigubremsa eða leiguþak séu skilvirkasta leiðin til að eyðileggja borgir fyrir utan loftárásir.) Það kann að vera skiljanlegt að Viðreisn geti ekki viðurkennt að vandi á húsnæðismarkaðinum er ekki húsaleigulög – heldur skortur á húsnæði. Skorturinn er heimatilbúið vandamál sem hefur ekki síst verið hannað af pólitískum arkitektum í Ráðhúsi Reykjavíkur; Samfylkingu, Viðreisn og Pírötum, sem Framsóknarflokkurinn ákvað að ganga til liðs við.

Sameining stofnana á sviði umhverfis- og orkumála mun skipta miklu á komandi árum. Fá verkefni eru mikilvægari en að tryggja aukna græna orkuframleiðslu og þar leikur ný Umhverfis- og orkustofnun lykilhlutverk. Með sama hætti eiga nýsköpunarfyrirtæki og frumkvöðlar eftir að njóta sameiningar tveggja fjárfestingarsjóða í einn öflugan sjóð; Nýsköpunarsjóðinn Kríu.

Það er ánægjulegt að taka þátt í því að fækka stofnunum ríkisins. Ég hef aldrei litið á það sem hlutverk mitt á þingi að koma nýjum ríkisstofnunum á fót. Þess vegna gat ég ekki stutt frumvarp um Mannréttindastofnun. Verkefnin er hægt að leysa með öðrum og skilvirkari hætti.

Þegar litið er til baka get ég ekki komist að annarri niðurstöðu en að þrátt fyrir allt hafi ræst töluvert úr þingvetrinum á lokasprettinum. Stjórnarandstaðan er helst óánægð með að afgreiðslu samgönguáætlunar hafi verið frestað fram á næsta haust. Fátt lýsir stjórnarandstöðunni betur.

Höfundur er þingmaður Sjálfstæðisflokksins.

Höf.: Óli Björn Kárason