Árni Árnason
Árni Árnason
En keisarinn stendur ber uppi á sviði og kanínan sem hann ætlaði að draga upp úr hattinum, við mikinn fögnuð, reynist bara dauð rotta.

Svokölluðum ráðgjafarfyrirtækjum fjölgar hin seinni árin eins og myglugróum. Stjórnvöld hafa verið einstaklega dugleg að kaupa þjónustu slíkra fyrirtækja.   Nýlegt dæmi er um Bankasýsluna, sem keypti ráðgjafarþjónustu fyrir tugi milljóna eftir að búið var að ákveða að leggja Bankasýsluna niður. Kannski ekki alveg að marka þar sem ráðgjöfin var keypt af lögmannsstofu sem einn í stjórn Bankasýslunnar er meðeigandi í.
Ráðuneytin borga hundruð milljóna fyrir ráðgjöf utan úr bæ, þó að innan ráðuneytanna séu starfandi heilu herirnir af lögfræðingum og „sérfræðingum“.
En hvað er mikið að marka þessi svokölluðu „ráð“? Skoðum það aðeins nánar.
Faxaflóahafnir fengu ráðgjafarfyrirtækið Drewry til að meta rekstrarfyrirkomulag Sundahafnar til framtíðar. Þeim leist ekki vel á að innviðir eins og hafnir væru alfarið reknir af einkaaðilum (Eimskip og Samskip) og öðrum haldið frá því að nýta hafnirnar með góðu móti.

Eimskip fær svo annað ráðgjafarfyrirtæki, Portwise, til að koma með nýja ráðgjöf. Í því áliti er rekstrarfyrirkomulagið þar sem Eimskip og Samskip eiga og reka allan löndunarbúnað og aðstöðu til meðhöndlunar gáma sagt nánast draumur í dós, samkeppni o.fl.
Portwise segir Drewry ganga með þá ranghugmynd að „einokunaraðili“ hafi einhvern sérstakan velvilja í garð Íslendinga. Þeir virðast ætla okkur að trúa því að Eimskip og Samskip beri einhvern sérstakan velvilja í garð Íslendinga. Segir nýliðin saga okkur það? Þessi þvæla öll sýnir okkur svart á hvítu að keypt sérfræðiálit „ráðgjafar“fyrirtækis er ekki virði pappírsins sem það er skrifað á. Það er bara greitt fyrir það „sérfræðiálit“ sem fyrirtækin vilja fá.
Hvað ef Faxaflóahafnir hefðu leitað „ráðgjafar“ hjá Portwise? Hefði álit þeirra þá verið öfugt? Hefði Eimskip verið tilbúið að borga stórfé fyrir ráðgjöf Drewry sem ekki stendur með þeirra hagsmunum? Við vitum öll að svo er ekki.
Samt standa allir með puttann á kafi í hornösinni eins og vanvitar og virðast ekkert skilja hvernig „sérfræðingarnir“ geta komist að svo ólíkum niðurstöðum. Það er of langur fattarinn í þeim til að skilja að „ráðgjafarfyrirtæki“ sem setur fram álit sem gengur þvert á hagsmuni þess sem greiðir fyrir álitið myndi ekki lifa vikuna.
Þeir eru nefnilega bara sérfræðingar í að klæða  viðskiptavini sína í nýju fötin keisarans.
En keisarinn stendur ber uppi á sviði og kanínan sem hann ætlaði að draga upp úr hattinum, við mikinn fögnuð, reynist bara dauð rotta.
Og allur þessi skrípaleikur er greiddur af okkur neytendum á Íslandi.
„Sérfræðiálit“ Drewry er greitt af Faxaflóahöfnum/Reykjavíkurborg. „Sérfræðiálit“ Portwise er greitt af Eimskip (kæmi mér ekki á óvart þó að Samskip hefði laumað einhverju að vinum sínum) og allt er svo rukkað inn með hækkuðum flutningsgjöldum, sem við borgum í vöruverði.
Þetta ömurlega þjóðfélag okkar virðist vera farið að snúast alfarið um það hvernig hægt er að dæla nógu miklu af almannafé stjórnlaust úr vösum vinnandi fólks inn á bólgna bankareikninga sjálftökuliðsins sem munar ekkert um að kaupa sér það álit „sérfræðinga“ sem hentar þeirra hagsmunum hverju sinni.

Höfundur er vélstjóri.