Gestur Ólafsson
Gestur Ólafsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fyrir hálfri öld gerðum við tillögu að Austurstræti sem göngugötu. Hún virðist eiga sér framhaldslíf.

Alveg er það yndislegt hvernig hjól tímans snúast og hvernig góðar hugmyndir geta verið lífseigar þrátt fyrir allt.
Fyrir rösklega hálfri öld var okkur á Teiknistofunni Garðastræti 17 falið að vinna tillögur að „Endurskipulagi eldri hverfa“ borgarinnar. Hluti af þessari vinnu var athugun á möguleika á að gefa gangandi fólki í þessum hverfum meiri forgang bæði í Austurstræti og fleiri götum á þessu svæði. Sem hluta af skipulaginu könnuðum við þessi mál nokkuð rækilega og skiluðum m.a. skýrslu til borgarinnar árið 1973 um „varanlega breytingu Austurstrætis í göngugötu“, sem fróðlegt er að lesa í dag, og veltum þar upp ýmsum möguleikum og hugsanlegum útfærslum, unnum kostnaðaráætlanir fyrir þessa möguleika og könnuðum afstöðu fólks til þessara mála.
Okkur var síðan falið að hanna breytingar á Lækjartorgi og Austurstræti að hluta og þar gerðum við m.a. tillögu um  að „gamli turninn“ yrði endurnýjaður og fluttur á Austurstræti, við Lækjargötu, og nýttur sem þjónustuhús og að frekari þjónustubyggingar fyrir gangandi fólk yrðu reistar í götunni, m.a. til að reyna að fyrirbyggja að þungaumferð yrði aftur hleypt á götuna.
Þegar nýr vinstri meirihluti tók við í borginni árið 1978 fengum við á Teiknistofunni Garðastræti 17 símtal frá borginni þar sem okkur var skipað að hætta strax allri vinnu við „Endurskipulag eldri hverfa“, þótt við værum með verksamning við embætti borgarverkfræðings um að ljúka þeirri vinnu, „annars skyldum við hafa verra af“. Turninn var svo fluttur burt og umferð aftur hleypt á Austurstræti.
Nú, um hálfri öld seinna, er það athyglisvert að skrifstofa samgöngustjóra og borgarhönnunar skuli hafi dottið niður á svipaðar hugmyndir og við vorum að vinna með fyrir þetta löngu, sem „framtíðar­sýn fyr­ir um­ferðar­skipu­lag Kvos­ar­inn­ar“ og að um­hverf­is- og skipu­lags­ráð Reykja­vík­ur­borg­ar hafi líka samþykkt þetta allt saman fyrir sitt leyti, auðvitað án nokkurs samráðs við þá sem unnu fyrri tillögur. Svona getur tíminn verið spaugsamur.

Höfundur er arkitekt og skipulagsfræðingur.