Ásthildur Davíðsdóttir fæddist í Reykjavík 12. nóvember 1951. Hún lést á Landspítalanum við Hringbraut 12. júní 2024.

Foreldrar hennar voru hjónin Katrín Oddsdóttir, f. 12. desember, d. 18. apríl 1966, og Davíð Hermann Þorsteinsson, f. 13. apríl 1918, d. 24. nóvember 1971. Hún var yngst barna þeirra hjóna. Systur hennar eru: Lára Magnea, f. 22. ágúst 1950, Þuríður, f. 23. mars 1948, og sammæðra systir Guðrún Frances Ágústsdóttir, f. 22. maí 1937, d. 23. október 2018.

Ásthildur giftist Guðmundi Andréssyni, f. 28. nóvember 1947, d. 6. maí 2022, þann 1. september 1973. Foreldrar hans voru hjónin Ásta Sigríður Williamsdóttir, f. 8. október 1927, d. 5. febrúar 2016, og Andrés Þ. Guðmundsson, f. 29. maí 1925, d. 6. júlí 2022. Systkini hans eru: Inga Jóna, f. 7. janúar 1949, Ásta, f. 2. október 1950, Andrés, f. 9. maí 1954, og Jón William, f. 10. mars 1959, d. 26. júlí 2016.

Dætur Ásthildar og Guðmundar eru Eva Katrín, f. 17. maí 1973, og Erla Björk, f. 26. október 1975. Sambýlismaður Erlu er Eiríkur Ingi Kristinsson, f. 17. október 1970. Börn þeirra eru: Sara, f. 26. júlí 1997, Eyþór, f. 22. mars 2001, og Lilja, f. 13. nóvember 2005.

Ásthildur verður jarðsungin frá Digraneskirkju í dag, 26. júní 2024, og hefst athöfnin klukkan 13.

Það er sárt að sleppa takinu, en eftir löng og erfið veikindi er komið að kveðjustund.

Þann 12. júní skildi mamma við umkringd sínum nánustu.

Mamma hefur alla sína tíð haft mjög jákvæða sýn á lífið og tilveruna. Hún tók veikindum sínum með miklu æðruleysi, dugnaði og jákvæðni. Það var aðdáunarvert að sjá hvernig hún tókst á við veikindi sín og áföllin sem dundu á litlu fjölskyldunni okkar. Alltaf var hún samt kletturinn.

Mamma hefur haft mikil og gæfurík áhrif á líf okkar og allra sem henni stóðu næst. Mamma tók alltaf virkan þátt í lífi sinna nánustu og var til staðar fyrir okkur. Mamma var svo góð fyrirmynd í einu og öllu. Við eigum svo ótal margar skemmtilegar og góðar minningar. Tenging okkar var sterk, mikill kærleikur og við vorum svo ánægðar með hvor aðra. Ljósa fallega hárið þitt, fallega brosið og skemmtilegi, smitandi hláturinn.

Mamma þú varst stjarnan mín.

Sorg, tómleiki, söknuður. Það eru svo margar tilfinningar sem berjast um þegar sorgin yfirtekur mann, lífið fer í hægagang og tilveran verður litlaus. Lífið í kringum mann heldur áfram en það er eins og ljósið hafi dofnað. Við eigum alltaf eftir að sakna þín og pabba enda mikill missir af góðum foreldrum sem voru einstök.

Þakklæti, hlýja og ást er mér efst í huga þegar ég hugsa til þín og pabba. Það kemur enginn í ykkar stað en við sem vorum svo lánsöm að eiga ykkur að eigum til ótal minningar sem gleðja okkur.

Ég mun elska þig alla tíð elsku mamma.

Þín dóttir
Erla Björk Guðmundsdóttir.

Mamma, þá er komið að þessu, kveðjustundin.

Ég fékk skilaboðin um að ég ætti að vera í smá lit í jarðarförinni, ekki allt svart, geri það kona eins og ég kallaði þig oft; hei, kona!

En vá hvað það er erfitt að skrifa um þig í fáum orðum. En aðalorðin eru: elska þig mamma og takk fyrir allt. Elskaði húmorinn þinn, fannst þú svo fyndin.

Þú stóðst þig svo vel í þínum veikindum og líka í veikindum pabba, kona, þú ert/varst mögnuð. Eins í restina varstu sterk og stutt í húmorinn, þótt þú værir að berjast við dauðann.

Þessi erfiði tími í lokin var vondur en samt líka góður og ég er þakklát fyrir síðustu vikuna sem ég og fleiri áttum með þér. Það er nauðsynlegt að sleppa takinu á því sem þú ræður ekki við og eiga góðar minningar um síðustu daga manneskju sem maður elskar svona mikið.

Þótt ég tjáði mig ekki um allt við þig þá var alltaf eins og þú vissir allt. Ef þetta kallast að vera mamma hefði ég viljað vera eins og þú, skilningsrík, erfið á jákvæðan hátt, sanngjörn, ráðagóð, jarðbundin, fyndin, með tískuna á hreinu og stórglæsileg kona eins og þú.

Eins fannst mér svo fallegt hvað þið pabbi voruð ástfangin, skilyrðislaus ást, og hvað þú áttir marga vini, fólk sem þótti vænt um þig og þér um það, ekkert fallegra en það, kona.

Þótt ég segði það aldrei við þig þá fannst mér þú og systur þínar dugnaðarforkar, svona ungar búnar að missa mikilvægt bakland þegar amma og afi fóru svona ung en samt búnar að standa ykkur ótrúlega vel í lífinu, börn og barnabörn.

Vil bara segja gott hjá ykkur, dáist að ykkur, vel gert.

Það er eins og ég hafi þekkt ömmu og afa þar sem þú hélst uppi minningu þeirra með því að segja okkur sögur af þeim.

Ég vil ekki kveðja þig en svona er þetta bara. Takk fyrir tímann sem við áttum, takk fyrir að láta mann alltaf horfa á björtu hliðarnar á lífinu.

Drottinn er minn hirðir,
mig mun ekkert bresta.
Á grænum grundum
lætur hann mig hvílast,
leiðir mig að vötnum,
þar sem ég má næðis njóta.
Hann hressir sál mína,
leiðir mig um rétta vegu
fyrir sakir nafns síns.
Jafnvel þótt ég fari um dimman dal,
óttast ég ekkert illt,
því að þú ert hjá mér,
sproti þinn og stafur hugga mig.

Þú býr mér borð
frammi fyrir fjendum mínum,
þú smyr höfuð mitt með olíu,
bikar minn er barmafullur.
Já, gæfa og náð fylgja mér
alla ævidaga mína,
og í húsi Drottins bý ég langa ævi.

(23. Davíðssálmur)

Elska þig mamma.

Þín

Eva.

Lífið er alls konar en það er extra gott þegar maður á manneskju eins og þig.

Sorgin leggst á hjartað eins og þungur steinn en þakklæti er okkur efst í huga og góðir tímar. Það er lífsins lukka að hafa átt þig að ömmu og ef við mættum ráða þá myndum við vilja hafa þig hér að eilífu.

Það er ákveðin huggun að afi taki á móti þér og þið hafið hvort annað á ný. Við sáum það í augum þínum hversu mikið þú saknaðir hans og við vitum að hann hefur saknað þín.

Minningarnar eru ótal margar og á sama tíma og það var alveg ótrúlega erfitt að fylgja þér síðustu vegalengdina þá var það afskaplega gott. Gott að fá að vera til staðar fyrir þig eins og þú hefur alltaf verið fyrir okkur.

Við elskum þig amma.

Hvíldu í friði fallegi engill, við vorum rík að eiga þig.

Þín barnabörn,

Sara, Eyþór og Lilja.

Elsku fallega frænka mín, hvað ég á eftir að sakna þín. Hef dáðst að styrk þínum, seiglu og glettni í gegnum flókin veikindi. Hvernig þú leyfðir þér að flæða í augnablikinu og gleyma þér um stund með húmorinn að vopni. Ég minnist margra stunda þar sem við hlógum að einhverri vitleysu og gáfum hvor annarri misgóð ráð. Samtöl um bleika skó, ömmu og afa, börn, plöntur, dýr, listir, sorgir og tilgang. Í stóra samhengi lífsins standa stundir sem þessar upp úr, öll þessi litlu hversdagslegu augnablik þar sem sötrað var kaffi og skrafað.

Lífið er hlykkjóttur vegur og þú þurftir ung að standa á eigin fótum og finna þína eigin leið. Get ekki sett mig í þau spor að missa forelda sína svona ung. Tel að það hafi hjálpað þér mikið hve staðföst og kannski stundum þrjósk þú varst. Eins varstu harðdugleg og alltaf með eitthvað skemmtilegt á prjónunum. Þér var svo margt til lista lagt og eftir þig liggja mörg listaverk mótuð í leir og dregin á striga. Þú varst alltaf með nóg af áhugamálum, nú síðast glerið, varst alveg fallin fyrir glerlistinni.

Það var alltaf gott að koma í heimsókn til þín og Dumma, þið voruð flott dúó. Þið voruð svo mikið barnafólk, man ekki eftir skömmum þrátt fyrir að við Eva værum alltaf eitthvað að bralla sem pottþétt verðskuldaði skammir. Í seinni tíð sá ég betur hvað þið höfðuð gaman af litlum bröllurum í sögum sem þið sögðuð mér af barnabörnunum ykkar, fæ hlýtt í hjartað þegar ég hugsa um þetta. Dýravinir voruð þið einnig því eftir að hafa spurt mig út í fjölskyldu mína var spurt út í hundinn minn, hvar hann væri og liði.

Það væri auðveldlega hægt að skrifa hundrað blaðsíður um þig Ásthildur og þitt fallega líf með Dumma, flottu stelpunum ykkar, dýrmætu barnabörnunum og hundunum. Um það hversu orðheppin þú varst, smekkleg, hugmyndarík og það hvernig þú tókst á við verkefni lífsins af miklu æðruleysi.

Ég kveð þig með sorg í hjarta en full þakklætis fyrir ómetanlegar stundir sem ég hef átt með þér sem nú lifa sem fallegar minningar um stórglæsilega, skemmtilega og sterka frænku.

Sérhver draumur lifir aðeins eina nótt.
Sérhver alda rís en hnígur jafnan skjótt.
Hverju orði fylgir þögn –
og þögnin hverfur alltof fljótt.

En þó að augnablikið aldrei fylli stund
skaltu eiga við það mikilvægan fund.
Því að tár sem þerrað burt –
aldrei nær að græða grund.

Líttu sérhvert sólarlag
sem þitt hinsta væri það.
Því morgni eftir orðinn dag
enginn gengur vísum að.
(Bragi Valdimar Skúlason)

Elsku Eva, Erla, Eiríkur, Sara, Eyþór og Lilja, ég votta ykkur mína dýpstu samúð og sendi ykkur þær hlýjustu hugsanir sem ég á til. Megi guð gefa ykkur styrk og huggun í sorginni.

Katrín Jónsdóttir.

Elsku litla systir, Ásthildur.
Þetta er svo sárt og erfitt, ég á eftir að sakna þín mikið, en veit að þú ert með okkur.
Við fylgdumst vanmáttug með þinni hetjulegu baráttu við illvíga krabbameinið, sem náði loks að sigra líkamann en ekki þína jákvæðni og létta geð, sem við hin dáðumst að og hafði góð áhrif á okkur. Eftir sitjum við, fegin að þú ert laus frá sársaukanum, en um leið svo döpur og söknum þín sárt. Á svona tímum finnur maður svo vel að dauðir hlutir skipta engu máli, heldur vináttan og kærleikurinn, að vera góð hvert við annað.
Þótt bara væri ár á milli okkar fannst mér ég vera stóra systir þín og vildi vernda þig fyrir öllu illu. Við tvær vorum á yngri árum eins og tvíburar, klæddumst oft eins, og það var svo gott á milli okkar. Minningar hrannast upp, bæði sorg og gleði. Þú varst gleðigjafi, svo orðheppin og sagðir svo skemmtilega frá, við hlógum mikið, gaman að vera með þér.
Það geislaði af þér, þú varst björt yfirlitum, grallari, stríðin, jákvæð, með stórt hjarta og skynjaðir hvernig fólki leið. Þú varst dáð á vinnustöðum, fyrir þjónustu, dugnað og samviskusemi.
Mamma okkar dó úr krabbameini daginn eftir fermingu þína, þegar þú varst 14 og ég 15 ára, en Þuríður og Dúdú eldri. Það var mikill missir, en mamma var með sinni ákveðni og góðsemi búin að ala okkur vel upp, góður grunnur sem við bjuggum að alla tíð. Þið komið heim fyrir klukkan 11 – og ekkert þýddi fyrir okkur að þrátta. Pabbi okkar var svo einn með okkur systurnar þrjár, þar til hann dó nokkrum árum síðar.
Þú kynntist Dumma, Guðmundi manninum þínum, hann sat einn daginn inni í stofu, svo sætur og vel klæddur – og svo átti hann Austin Mini. Þetta varð gott hjónaband og heimili þitt og Dumma var fallegt og gott að koma til ykkar. Arfleifð ykkar er mikil, sérstaklega í ykkar fallegu og vel upp öldu og frábæru dætrum og barnabörnum. Hugur okkar er hjá ykkur.
Við systurnar þrjár seldum íbúðina í Skaftahlíðinni og ég og þú keyptum íbúðir í Gaukshólum í Breiðholti, á 6. hæð, sitt hvorum megin við lyftuna. Við bjuggum þar í mörg ár, þar til þið Dummi fluttuð í Barrholtið í Mosfellsbæ en við Arinbjörn í Seljahverfið og svo síðar líka í Mosfellsbæ.
Þú gættir Sigurgeirs okkar þegar hann var lítill – og Arinbjörn var stundum snöggur út að morgni, þegar Sigurgeir brosti breitt til þín, með eitthvað ilmandi í bleyjunni. Þér fannst gaman þegar hann sagði: Addý mín, ég skal passa þig. Þið voruð alla tíð góðir vinir.
Í veikindunum keyptir þú nýja og flotta Toyotu. Sölumaðurinn ungi bauðst til að aðstoða þig með hvað sem væri. Þegar þú komst næst í umboðið sagðir þú við hann: Bíllinn minn er dálítið skítugur, geturðu þvegið hann fyrir mig? Hinir sölumennirnir hlógu og skildu stríðnina. Og þú grínaðist líka við læknana og sjúkrahúsprestinn.
Við minnumst ferðalaganna okkar góðu til útlanda. En nú ert þú lögð upp í Sumarlandsferðina þína. Far þú í friði kæra systir, mágkona og frænka.

Vertu, Guð faðir, faðir minn,

í frelsarans Jesú nafni,

hönd þín leiði mig út og inn,

svo allri synd ég hafni.

Lára Davíðsdóttir, Arinbjörn Sigurgeirsson og Sigurgeir Arinbjarnarson.