Guðlaug Magnúsdóttir fæddist 6. janúar 1945. Hún lést 4. júní 2024. Útför Guðlaugar fór fram 24. júní 2024.

Mér var mjög brugðið þegar Bjarni, sonur Gullýjar, tilkynnti mér andlát móður sinnar. Ég vissi vel um veikindi hennar, sem höfðu varað lengi, en grunaði ekki að endirinn væri svo skammt undan.

Gullýjar minnist ég fyrst úr Melaskóla. Hún var í F-bekk en ég í G í sama árgangi og stóðu bekkirnir okkar í röð, hlið við hlið, áður en gengið var í stofurnar. Við kynntumst síðan lítillega þegar við 15 ára gamlar unnum saman eitt sumar í gamla kirkjugarðinum við Suðurgötu. Eftir það lágu leiðir okkar ekki saman, svo heitið gæti, þar til hún kom í viðtal vegna starfs á skjalasafni Ráðhúss árið 1999 en ég hafði þá nýtekið við starfi forstöðumanns þess. Í viðtali vegna starfsins kom hún afskaplega vel fyrir og ég sá að hún var rétta manneskjan í starfið.

Það var einstakt lán að fá Gullýju til starfa á skjalasafnið. Hún var frábær starfsmaður, eldklár, fljót að tileinka sér allt sem starfið krafðist og alltaf reiðubúin að standa vaktina þegar borgarstjórnarfundir stóðu yfir, stundum fram á nótt.

Hún var falleg kona og glæsileg og í einkalífi var hún afar hamingjusöm. Hún var gift Frank Hall, æskuást sinni, og eiga þau þrjú börn, hvert öðru hæfileikaríkara, öll með fjölskyldur.

Gullý var alltaf hress og létt í lund og einstök í öllum samskiptum. Í samstarfinu urðum við góðar vinkonur og héldum mjög góðu sambandi eftir að ég fór til annarra starfa þrátt fyrir að samfundirnir væru ekki eins margir og við báðar hefðum viljað. Það er með miklum trega sem ég kveð kæra vinkonu og við fjölskyldan vottum Frank og börnum þeirra hjóna okkar dýpstu samúð.

Soffía Kjaran.

Hinsta kveðja

En handan við fjöllin
og handan við áttirnar og nóttina
rís turn ljóssins
þar sem tíminn sefur.
Inn í frið hans og draum
er förinni heitið.

(Snorri Hjartarson)

Með þessu fallega ljóði eftir Snorra Hjartarson viljum við kveðja þig elsku Gullý með hjartans þakklæti fyrir allar okkar ótal mörgu skemmtilegu samverustundir í gegnum árin. Megi kærleiksljósið umvefja þig á nýjum slóðum. Við munum sakna þín.

Innilegar samúðarkveðjur til þín kæri vinur okkar Frank og fjöl- skyldunnar.

Kjarnakonur.

Guðrún Árný Þórbjarnardóttir.