Sigríður Árnadóttir fæddist 14. maí 1930 á Finnsstöðum í Eiðaþinghá. Hún lést 8. júní 2024.

Foreldrar hennar voru Árni Jónsson bóndi á Finnsstöðum, f. 13. maí 1896, d. 17. maí 1967 og kona hans Stefanía Þ. Guðjónsdóttir, f. 2. september 1904, d. 2.12. 1998.

Sigríður var elst sex systkina en hin eru: Jón Steinarr, f. 13.12. 1932, d. 31.7. 2009, Kristinn, f. 4.6. 1938, Sveinn, f. 16.9. 1940, Guðný, f. 18.4. 1942, og Arinbjörn, f. 6.4. 1946.

Sigríður giftist 22. desember 1957 Jóhanni Helgasyni frá Þórustöðum í Öngulsstaðahreppi (Eyjafjarðarsveit), f. 16. janúar 1926, d. 3. október 2021. Sigríður og Jóhann eignuðust sjö börn en þau eru: 1) Stefán, f. 8.11. 1955, kona hans var Karólína Margrét Másdóttir, d. 13.1. 2024 og eiga þau fjóra syni og fimm barnabörn. 2) Helgi, f. 3.7. 1959, kona hans var Kristín Sólveig Eiríksdóttir, d. 30.10. 2021 og eiga þau fjóra syni og sjö barnabörn. 3) Árni, f. 21.6. 1960, d. 26.11. 2014. 4) Hólmfríður, f. 2.6. 1962, eiginmaður hennar er Unnar Vilhjálmsson og eiga þau fjórar dætur og sjö barnabörn. 5) Sigríður, f. 26.12. 1963, eiginmaður hennar er Sigurður Sigurðsson og eiga þau fjóra syni og fimm barnabörn. 6) Eiríkur S., f. 8.2. 1968, kona hans er Friðrika Tómasdóttir og eiga þau þrjú börn og tvö barnabörn. 7) Jónína Þuríður, f. 22.8. 1969, eiginmaður hennar er Guðmundur Örn Sverrisson og eiga þau tvö börn. Afkomendur Sigríðar og Jóhanns voru því 54 talsins.

Sigríður tók gagnfræðapróf við Alþýðuskólann á Eiðum og fór seinna meir í Húsmæðraskólann á Varmalandi í Borgarfirði. Hún starfaði í Kaupfélagi Héraðsbúa á Egilsstöðum og síðar á Símstöðinni á Egilsstöðum.

Hún og Jóhann kynntust á Egilsstöðum en stofnuðu heimili í Helgamagrastræti 44 á Akureyri haustið 1957. Þau fluttust í Hrafnagilsstræti 38 árið 1964 og þar fæddust tvö yngstu börn þeirra.

Árið 1996 fluttust þau í Grundargerði 5 en eftir andlát Jóhanns fluttist Sigríður í Víðilund 24.

Á meðan börnin voru að alast upp var Sigríður heimavinnandi húsmóðir en fór í kjölfarið að sinna ýmsum störfum utan heimilis. Hún vann um tíma við saumaskap á saumastofunni Gefjun og síðar við ræstingar á Hótel KEA en lauk starfsferlinum við ræstingar og umsjónarstörf við Háskólann á Akureyri.

Útför Sigríðar fer fram frá Akureyrarkirkju í dag, 26. júní 2024, og hefst athöfnin klukkan 13.

Í dag kveðjum við móður okkar, Sigríði Árnadóttur frá Finnsstöðum í Eiðaþinghá, sem lengst af bjó raunar á Akureyri. Hún fæddist og ólst upp á ættaróðalinu, Finnsstöðum, sem hafði verið í ábúð ættarinnar allt frá árinu 1687. Næstelsta ættarsetur á Austurlandi.

Allt frá barnæsku hafði hún mikinn áhuga á tónlist og íþróttum og þá sérstaklega sundi. Hún fékk að fara á sundnámskeið tíu ára gömul, sem tíðkaðist ekki í sveitinni á þeim árum. Sundáhuginn hélst allt fram til þess síðasta og var dagurinn nánast ónýtur ef hún missti af tíma með sundleikfimihópnum í Akureyrarlauginni.

Veturinn 1948-1949 var hún í Reykjavík í söngnámi og stefndi að framhaldsnámi erlendis en þurfti að gefa þann draum frá sér. Á Egilsstöðum söng hún í blönduðum kór, stóð fyrir dansleikjahaldi með vinkonu sinni og var virk í Leikfélagi Fljótsdalshéraðs. Þar lágu einmitt saman leiðir hennar og Eyfirðingsins Jóhanns Helgasonar sem hafði komið austur til að vinna í Kaupfélagi Héraðsbúa.

Þau stofnuðu heimili á Akureyri þar sem fjölskyldan dafnaði á komandi árum, sjö börn á fjórtán árum. Það var því ærið verkefni að hugsa um heimilið og barnaskarann. Mömmu og pabba var mjög umhugað um velferð okkar systkinanna hvort sem var í námi, íþróttum, tónlist eða hverju því sem við tókum okkur fyrir hendur. Mamma lærði undirstöðuatriði lestrarkennslu og sá til þess að við komum öll fluglæs í Barnaskólann.

Mamma var mikil blómaræktarkona og helgasti staðurinn í garðinum var bóndarósabeðið. Þar uxu hinar fegurstu rósir sem vöktu verðskuldaða aðdáun. Einn daginn hafði vegfarandi skilið eftir svohljóðandi vísu í rósabeðinu í Hrafnagilsstræti 38:

Enn sú fegurð allt það ljós

eyðir hverjum skugga.

Þar sem ilmar rauðust rós

rétt við opinn glugga.

Mikill íþróttaáhugi hefur alla tíð einkennt fjölskylduna, við systkinin öll keppnisfólk í íþróttum og virk í félagsstörfum fyrir okkar félag. Sama má segja um flest barnabarnanna. Þetta var mömmu vel að skapi sem tók sérstöku ástfóstri við handboltann. Hún fylgdist vel með gengi sinna liða, átti sitt fasta pláss í stúkunni í KA-heimilinu, þar missti hún helst ekki af heimaleik, hvort heldur var hjá karla- eða kvennaliðum.

Sigríður og Jóhann eignuðust sjö börn og þegar við bættust tengdabörn, barnabörn og barnabarnabörn er óhætt að segja að ávallt hafi verið líf og fjör í kringum þau. Mamma var mikil fjölskyldukona og umhugað um allt sitt fólk, hafði jafnan orð á því að hún væri stoltust af því að hafa hjálpað til við að koma allri hersingunni til manns.

Hún hélt upp á níræðisafmælið með því að kaupa íbúð og flytja á efstu hæð í Víðilundi 24 sem hafði þann ótvíræða kost að þar fékk hún besta stúkusætið með útsýni yfir KA-svæðið. Þar bjó hún síðustu fjögur árin, með stuttu lokastoppi á hjúkrunarheimilinu Hlíð.

Við eftirlifandi systkinin erum ævarandi þakklát fyrir uppeldið og að hafa komið okkur og afkomendum okkar til manns og biðjum fyrir innilegar kveðjur til ættingja og vina í sumarlandinu.

Stefán, Helgi, Hólmfríður, Sigríður, Eiríkur S. og Jónína Þuríður Jóhannsbörn.

Fyrir rúmum þremur áratugum varð ég þeirrar gæfu aðnjótandi að vera kynnt fyrir einstakri konu, Sigríði, sem seinna varð tengdamóðir mín. Það var ágústkvöld og ég hálffeimin þar sem ég gekk inn í Hrafnó-ið. Skónum raðaði ég snyrtilega í forstofunni og gekk rólega, örlítið hikandi, inn í anddyri og eldhús. Við gluggann stóð lágvaxin kona sem tók á móti mér með mjög svo hlýju brosi. Á þeirri stundu hvarf allt hik. Sigríður var opin og hversdagsleg. Hún hafði mikla kímnigáfu og enginn þurfti að vera óöruggur í návist hennar, þvert á móti. Hún hafði unun af að segja frá, sérstaklega frá atvikum sem tengdust æskuárunum austur á Héraði og alls konar uppátækjum barna þeirra Jóhanns. Frásagnirnar voru glettnar, jafnvel þegar hún sagði frá alvarlegum hlutum. Við vorum ekki búnar að vera lengi í eldhúsinu þetta fyrsta kvöld þegar hún hóf að segja frá næstyngsta barninu sínu, manninum sem hafði boðið mér mér inn á æskuheimili sitt það kvöld. Stundum leist mér ekki á blikuna því aðeins nokkurra ára hafði drengurinn ákveðið að ganga á Súlur án vitneskju annarra og nánast þurft að kalla lögregluna til, hann hafði líka verið algerlega ófeiminn við að tala við ókunnuga, farið í heimsóknir án hennar vitundar og lent í svaðilförum á ferðalögum, en frásagnarmátinn var slíkur að við skellihlógum báðar.

Það er svo ótal margs annars að minnast. Til að mynda þegar ég bjó ein í Reykjavík, beið komu frumburðarins og hún hringdi reglulega til að kanna hvernig ég hefði það. Hvernig hún strauk alltaf fyrst yfir hendur barnabarnanna þegar hún fékk þau í fangið og kannaði hvort fremsti hluti fingra væri örlítið uppréttur, eins og á henni. Þegar þau Jóhann komu og gistu í Dalhúsunum og hún svaf eins og unglingarnir á meðan við Jóhann spjölluðum yfir morgunkaffinu. Hvernig við lásum bækur og ræddum þær á eftir, spurðum svo: en ertu búin að lesa þessa? Hvernig Varmalandsuppskriftir jólaíssins, jólabúðingsins og rauðrófnanna lifðu áfram. Hversu vel hún lýsti fyrir mér hvernig var að alast upp í torfbæ, svo ég geti sagt erlendum ferðamönnum hvernig lífið var á venjulegum sveitabæjum hér áður fyrr. Ég mun heldur aldrei gleyma hvernig hún laumaði gjarnan votti af kaldhæðni í frásagnirnar, brosti með augunum, beið, hló síðan lágt og við tókum öll undir.

Sigríður og Jóhann eignuðust sjö börn og fyrir okkur sem erum alin upp í fámennari fjölskyldum, þá er ómetanlegt að kynnast öðru fjölskyldumynstri: margmenninu við matarborðið, fjölmenninu á sameiginlegum stundum og heyra klið margra ólíkra radda. Á mínum meðgöngum sagði ég oft við sjálfa mig með mikilli lotningu: Og Sigríður gekk með sjö börn, sjö! Það er fáum gefið að feta í hennar fótspor, hvort heldur sem er í þeim efnum eða öðrum.

Elsku Sigríður, ég veit að það var vel tekið á móti þér því þín biðu margir sem vilja endurnýja kynnin. Minning þín mun lifa í mínu brjósti líkt og annarra sem hlotnaðist sú gæfa að fá að kynnast þér. Ég þakka þér fallega samfylgd, hún hefði ekki getað verið betri.

Hvíl í friði.

Þín tengdadóttir,

Friðrika.

Það var alltaf gott að koma bæði í Hrafnagilsstrætið og síðar í Grundargerðið til ömmu og afa og vorum við bræður reglulega í hádegismat á námsárunum. Heimagerði ávaxtagrauturinn og ekki síst kleinurnar voru í sérstöku uppáhaldi hjá okkur. Þar var alltaf mikið hlegið enda stutt í húmorinn hjá þeim báðum.

Amma Sigga hafði einstakt lag á að grípa á lofti þegar einhver var að grínast og gat spunnið ótrúlegustu sögur til að halda gríninu gangandi, það var alltaf gaman í kringum ömmu.

Þá var hún dugleg að fylgjast með okkur barnabörnunum t.d. í íþróttum og átti sitt sæti í KA-heimilinu. Þegar Andri var níu ára gamall tók hann loforð af ömmu sinni og afa að þau yrðu að lifa nógu lengi til að sjá sig spila handbolta með meistaraflokki KA og þau stóðu svo sannarlega við það og gott betur. Þá fannst okkur bræðrunum sérstaklega flott að þau amma og afi hafi kostað Alfreð Gíslason í Goðsagnahöll KA, en hann hafði á unglingsárum verið nágranni og mikill heimilisvinur þeirra í Hrafnagilsstrætinu.

Amma hafði einstaklega hlýja og góða nærveru, alltaf til í spjall og alltaf stutt í grínið. Við söknum þín amma.

Baldur Már, Andri Snær og Ágúst Stefánssynir.