Ellý Katrín Guðmundsdóttir fæddist 15. september 1964. Hún lést 13. júní 2024.
Útför Ellýjar fór fram 25. júní 2024.

Það var á ofanverðri síðustu öld sem ung kona leitaði til mín til að spjalla um flutning til Wisconsin. Það fór vel á með okkur og Ellý, Magnús og Ingibjörg fluttu síðan til Madison og góður vinskapur hófst. Makar okkar voru í námi sem krafðist mikillar fjarveru frá heimili. Mér fannst það stundum reyna á en minnist þess ekki að Ellý þætti það tiltökumál. Ég fann fljótt að hún bjó yfir mun meiri ró og dyggðum, kenndum við Stóumenn, en ég.

Fjölskylda Ellýjar stækkaði þegar Guðmundur fæddist og hún lauk jafnframt framhaldsnámi í umhverfislögfræði. Þegar ljóst var að fjölskyldan færi til Washington sótti Ellý um starf hjá Alþjóðabankanum og sinnti mikilvægum verkefnum. Þótt lengra væri á milli okkar hafði það ekki áhrif á vinskapinn. Við ókum þvert yfir landið til þeirra og þau flugu til okkar.

Á þessum árum urðum við fyrir því að jörð okkar varð fyrir umtalsverðum umhverfisáhrifum. Hæstaréttardómur féll og réttur til heilnæms umhverfis virtist enginn. Margir sýndu samúð en skorti þor til sýna það opinberlega. Ekki Ellý. Hún birti grein um rétt þolenda mengunar sem var að engu hafður í fyrrnefndum dómi. Hún bjó yfir þekkingu, réttlætiskennd og hugrekki.

Í september 2001 var árás gerð á BNA. Ellý hafði verið í vinnu, allar samgöngur aflagðar svo hún arkaði frá Washington til Bethesda. Með öll vinnugögn þannig að hún gæti haldið áfram að vinna þótt styrjöld væri hugsanlega yfirvofandi. Þrátt fyrir hina stóísku ró höfðu þessir atburðir áhrif á vinkonu mína eins og aðra. Einn daginn hringdi Ellý og sagði að hún væri að sækja um nýtt starf hjá Reykjavíkurborg á sviði umhverfismála. Ég hvatti hana áfram, en hún bætti þá við að ég skyldi skoða starf sem auglýst var á sviði skipulagsmála. Ég hlýddi því. Ég taldi að skipulagsmál heyrðu undir umhverfismál og myndu lúta væntanlegri stjórn Ellýjar, við fengum síðan báðar stöðurnar, en ég varð að sætta mig að heyra undir borgarstjóra. Við vorum samt í návígi og það var gaman að fylgjast með henni. Í kjölfar mikilla breytinga 2006 sögðu flestar konur í stjórnunarstöðum upp. Frá þessum tíma er mér í minni þegar Ellý varð vitni að framkomu þá yfirmanns okkar í minn garð. Hún kom til mín slegin eftir þetta. Ég var hins vegar orðin vön að láta margt yfir mig ganga, enda aðrir setið hljóðir hjá. Ekki Ellý.

Ellý varð forstjóri Umhverfisstofnunar, en fór aftur til borgarinnar. Hún hafði hugrekki til að láta skynsemina ráða, ekki viðteknar venjur.

Veikindi Ellýjar voru reiðarslag. Þrátt fyrir þau hélt hún sinni reisn. Hún kom fram og greindi frá sjúkdómnum af hugrekki. Það er ekki hægt að fjalla um Ellý án þess að minnast á Magnús sem studdi hana í að lifa lífinu til hins ýtrasta í lengstu lög. Þau hjón eru og verða fyrirmynd annarra. Börnin sýndu líkt og foreldrarnir styrk í veikindum Ellýjar. Bea er dásamleg viðbót við fjölskylduna og litli dóttursonurinn Almar Elí minnir okkur á að lífið heldur áfram í allri sinni dýrð, þótt dimmir skuggar eins veikindi og fráfall Ellýjar falli á vegi okkar. Minningin um einstaka konu lifir.

Salvör Jónsdóttir.

Lífið er ekki fyrirsjáanlegt, sem betur fer. Nú, þegar Ellý Guðmundsdóttir vinkona okkar er öll, hvarflar hugurinn aftur í tímann, til Madison, Wisconsin, þar sem kynni okkar hófust 1994. Ellý og Maggi á sínu fyrsta ári í framhaldsnámi í Ameríku og við Arnór á okkar síðasta. Í minningunni vörðum við Ellý drjúgum tíma í sandkassanum í University Houses þennan vetur, þar sem báðar fjölskyldur bjuggu, hún með Ingibjörgu sína og ég með yngri börnin mín tvö, Marinellu og Jón Ágúst. Við undum okkur innan um nágranna frá ýmsum heimshornum, vetrarkulda og sjóðheit sumur og Íslendinganýlenduna kæru. Kærleiksböndin sem kvikna í slíkum aðstæðum rista djúpt og endast. Eftir að heim var komið urðu samverustundir færri og strjálli. En það var spennandi að fylgjast með þegar þau Ellý og Maggi komu heim til Íslands með börnin sín tvö, Ingibjörgu og Guðmund hinn unga, og Ellý fékk starf hjá Reykjavíkurborg. Glöð, kraftmikil og áhugasöm.

Þjóðin hefur fylgst með þeim hjónum, ásamt okkur vinum þeirra, full aðdáunar, hvernig þau hafa tekist á við verkefnið sem enginn óskar sér og hefur nú að lokum lagt Ellý að velli. Íslenskt samfélag verður ekki samt eftir þau spor sem þau skilja eftir í meðvitund þjóðarinnar um alzheimersjúkdóminn og viðhorf til lífsgöngunnar með hann að ferðafélaga. Megi þau hafa þökk okkar allra.

Við fjölskyldan þökkum Ellý samfylgdina og sendum hjartans samúðarkveðjur til Magga, Guðmundar, Ingibjargar, Beu og litla dóttursonarins og annarra ástvina.

Ragnheiður Jóna Jónsdóttir.

Mig langar til að minnast gamallar vinkonu minnar, Ellýjar Katrínar, í fáeinum orðum.

Ég kynntist henni þegar við byrjuðum í lagadeild HÍ 1985. Ellý útskrifaðist vorið 1990 en ég í febrúar 1991. Þá var Ellý að vinna á Fasteignamiðstöðinni og það vildi svo til að hún hvatti mig til að koma að vinna þar einnig eftir að ég kláraði. Sem ég gerði. Við unnum svo saman á fasteignasölunni um tíma. Við stoppuðum báðar stutt á fasteignasölunni en eftir að við hættum þar fórum við hvor sína leiðina í vinnu. Við vorum alltaf í nokkru sambandi. Það var þó meira á árum áður en það var seinni árin. Lengi hittumst við alltaf reglulega í hádegismat en þá unnum við báðar í miðbænum.

Það má segja um hana Ellý að ég hef alltaf litið á hana sem afskaplega skynsama og vel gerða manneskju. Maður varð betri maður af því að umgangast hana. Þetta sáu allir – þ. á m. þeir í Alþjóðabankanum í Washington, þegar hún gekk þar inn og spurði um vinnu án þess að hafa nokkur sérstök sambönd þar. Hún var þannig manneskja, bauð af sér góðan þokka.

Samband hennar og Magga var alltaf gott og þau sýndu hvort öðru mikla virðingu. Það var mikið áfall þegar Ellý veiktist af þeim illvíga sjúkdómi alzheimer. Hún hefur nú fengið hvíld frá honum. Þó að það sé óumræðilega sorglegt að Ellý sé fallin frá þá er það að vissu leyti gott að hún þurfti ekki lengur að burðast með þann klafa sem sjúkdómurinn hefur verið henni. Ég og mín fjölskylda sendum Magga og fjölskyldu innilegar samúðarkveðjur.

Hulda Rós Rúriksdóttir.

Mín kæra vinkona og samstarfskona Ellý Katrín hefur kvatt þennan heim.

Ellý var einstök manneskja sem snerti strengi í hjörtum fólks og þegar hún veiktist af alzheimersjúkdómnum tókst hún á við þann kalda veruleika með reisn, hugrekki og kærleika.

Það var í hennar anda að opna umræðuna með þeim hætti að alzheimer komst á dagskrá og ásýnd sjúkdómsins hérlendis breyttist varanlega.

Ég er ein þeirra lánsömu sem urðu samferða Ellý í starfi en ekki síður naut ég þeirra forréttinda að verða vinkona hennar.

Ég man fyrst eftir Ellý þegar hún kom til starfa sem forstöðukona Umhverfis- og heilbrigðisstofu Reykjavíkur. Við mér blasti ung kona með silfraða þræði í dökku hárinu, örlítið eldri en ég, með rauðan varalit og geislandi bros.

Hún var áberandi greind, bar með sér stefnufestu og augljóst var að umhverfismál áttu hug hennar allan. Árin liðu og starfsvettvangur beggja breyttist. Hún varð sviðsstýra umhverfis- og samgöngumála og ég skipulags- og byggingarmála. Við urðum samherjar sem áttum að auki skemmtilega tengingu í gegnum vináttu ömmu minnar við fallegu móður Ellýjar, hana Petreu.

Ég man eftir Ellý við kaffivélina í ráðhúsinu, í Converse-strigaskóm, vínrauðri peysu og með fallega hálsfesti við. Með breitt bros, dillandi hlátur og spaugilegar hliðar tilverunnar skammt undan. Ég minnist þess þegar Ellý mátaði síðkjól af mér. Hún hafði aldrei fengið lánaðan kjól en var sammála því að deilihagkerfið byrjaði hjá okkur sjálfum. Eitt sinn kom hún hjólandi til mín eftir að hafa verið á fyrirlestri um olíuleit á Drekasvæðinu og hvatti mig til þess að sækja um starf. Ætíð styðjandi og hennar lóð á vogarskálar vógu þungt.

Ég sé hana fyrir mér í áköfu vinkonuspjalli og hún að deila fréttum af Ingibjörgu í Boston og lýsa sköpunargleði Guðmundar. Ellý ljómaði þegar hún talaði um börnin sín. Hún gladdist mjög þegar Ingibjörg kynnti hana fyrir Beu sinni og sagði mér hvað hún væri frábær. Ellý var persónuleg og hjartahlý manneskja. Það var því mjög í hennar anda þegar hún gaf mér fallega ullarvettlinga prjónaða af Gunnu systur hennar þegar ég missti æskuvinkonu mína fyrir tíu árum. Hún sagðist vilja færa mér gjöf sem yljaði.

Það var sárt að horfa á sjúkdóminn ágerast en hughreystandi að finna hversu lengi glaðværðin fylgdi henni og hvernig hún treysti á Magga, sitt akkeri, lífsförunaut og stóru ást. Falleg hjón í blíðu og stríðu.

Ellý lifði svo fallega. Hún naut augnabliksins, gekk og hjólaði milli staða, borðaði hollt, hló innilega, tók eftir smáatriðum og þótti vænt um manneskjur og dýr. Hún var mikill umhverfis- og náttúrusinni, mild, heil og sönn í öllu sínu.

Ellý lauk starfsævinni hjá okkur á umhverfis- og skipulagssviði. Henni þótti gott að mæta í vinnuna og vinna áfram að umhverfismálum. Það var heiður að hafa hana í okkar hópi og hún var umvafin virðingu og vináttu allra. Þau eru mörg umhverfishjörtun sem munu heiðra minningu Ellýjar um ókomna tíð. Sjálf mun ég sakna vináttu og visku einstakrar konu það sem eftir er.

Ástvinum votta ég mína innilegustu samúð.

Ólöf Örvarsdóttir.

Ég frétti fyrst af Ellý Katrínu árið 2000, þegar við Ólafur unnum um skeið fyrir Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna (FAO) í Róm. Yfirmaður lögfræðisviðs FAO, þrautreyndur og heimsþekktur sérfræðingur á sviði auðlindaréttar, Bill Edeson, spurði hvort ég þekkti Ellý Katrínu Guðmundsdóttur. Þessi unga íslenska kona sem hann hafði unnið með hjá Alþjóðabankanum væri einhver klárasti lögfræðingur sem hann hefði kynnst. Þvílík meðmæli!

Þess var ekki langt að bíða að ég fengi að kynnast henni sjálf. Eftir að þau Magnús fluttu heim unnum við að svipuðum málum, hún hjá Reykjavíkurborg og ég hjá Háskólanum. Samstarf kom af sjálfu sér, ekki síst í verkefnum fyrir meistara- og doktorsnema, þar sem Ellý var hugmyndarík og áræðin. Seinna valdi Alþingi okkur í stjórnlaganefnd til að undirbúa endurskoðun stjórnarskrárinnar. Það var mikið og flókið verkefni, reyndi á hugkvæmni, þekkingu, vönduð vinnubrögð og þrautseigju okkar allra. Að mínu góða samstarfsfólki ólöstuðu var Ellý mér ómetanlegur bakhjarl í viðkvæmu starfi formanns. Ráðholl, íhugul og trú. Seinna unnum við saman í stjórn Hafsins, öndvegisseturs um sjálfbæra nýtingu og vernd sjávarauðlinda, sem Jón Ágúst Þorsteinsson, forstjóri Klappa, grænna lausna, stóð fyrir. Hann sá nauðsyn þess að leiða saman ólíka haghafa í sjávarútvegi: útgerðir, rannsóknarstofnanir, stjórnsýslu, markaðsfyrirtæki, fjármálastofnanir, þekkingariðnað og hugbúnaðarfólk. Hver og einn kom með sín viðhorf og þekkingu að borðinu. Úr varð firnasterk taug samtvinnuð úr mörgum þáttum, sem dró málaflokkinn yfir hjalla sem áður höfðu sýnst ókleifir. „Hafið“ á hlut í ýmsum framförum sem orðið hafa á undanförnum árum, svo sem við mengunarvarnir á sjó, rafvæðingu hafna, þróun vistvænna skipa o.fl. Orð eru til alls fyrst og duga best ef mörg sjónarmið eru kynnt.

Í þessum störfum sýndi Ellý Katrín afburðahæfileika til að greina, setja fram á skýran hátt, finna lausnir og benda á hættur. Alltaf á sinn hógværa, stillilega hátt, með glimt í auga, því hún var fljót að sjá spaugilegu hliðina á málum og stutt í hláturinn. Hún var dásamleg samstarfskona sem prýddi hvern hóp.

Ég hef borið ómælda virðingu fyrir Ellý Katrínu frá því við kynntumst fyrst, verið næstum feimin við hana. Minnug orða Bills Edesons – ein klárasta kona sem ég hef hitt. Hátindi styrkleika síns náði Ellý þegar hún hélt opinbera fyrirlesturinn Þegar minnið hopar. Rúmlega fimmtug í blóma lífsins, í einu ábyrgðarmesta starfi landsins og nýgreind með alzheimer. Hún – og þau Magnús og börnin þeirra – sviptu hulunni af þessum hræðilega sjúkdómi. Tóku þöggunina úr sambandi. Sögðu frá, sýndu myndir, leyfðu okkur að fylgjast með frá degi til dags. Takk elsku hugrakka fjölskylda fyrir að taka svo óendanlega mikilvægt skref í réttindabaráttu þeirra sem heilsan svíkur.

Fólk eins og þið breytir heiminum. Sjúkdómurinn rændi ykkur og okkur öll óbætanlega – en þið sneruð honum til góðs. Þvílíkt afrek.

Blessuð sé minning þín elsku vinkona mín – og blessaðir séu allir ástvinir þínir.

Guðrún Pétursdóttir.

Sú harmafregn barst starfsfólki Reykjavíkurborgar á dögunum að Ellý Katrín Guðmundsdóttir, fyrrverandi borgarritari og sviðsstjóri hjá Reykjavíkurborg, væri látin aðeins 59 ára að aldri, eftir að hafa glímt við alzheimersjúkdóminn.

Ellý hóf störf sem forstöðumaður og sviðsstýra hjá umhverfis- og heilbrigðisstofu Reykjavíkur, síðar umhverfissviðs, í fimm ár. Hún var ráðin sviðsstýra umhverfis- og samgöngusviðs Reykjavíkurborgar árið 2008 og gegndi því starfi þar til hún tók við starfi borgarritara í október 2011. Hún baðst lausnar frá embætti borgarritara 2016 af heilsufarsástæðum og starfaði sem lögfræðingur hjá borginni til 2019.

Hjá Reykjavíkurborg var Ellý Katrín þekkt fyrir brennandi áhuga á umhverfis- og loftslagsmálum og var hún frumkvöðull á mörgum sviðum þess málaflokks. Hún vann m.a. að því að samþætta samgöngu- og umhverfismál og sinnti alþjóðlegu samstarfi borga í loftslagsmálum. Hún flutti til dæmis erindi á COP21-loftslagsráðstefnunni í París um hvernig aðild að Covenant of Mayors hefur gagnast Reykjavíkurborg og hvað hefur áorkast í kjölfarið. Verkefnið opnaði nýjar víddir fyrir borgina í þessum málaflokki og í kjölfarið setti borgin fram sín fyrstu markmið um samdrátt útblásturs gróðurhúsalofttegunda. Þá voru ýmis verkefni er varða sjálfbæra þróun unnin undir handleiðslu Ellýjar og var m.a. verkefninu Græn skref í starfsemi Reykjavíkurborgar komið á fót á hennar sviði. Hún hefði eflaust verið stolt af skrifstofu borgarstjóra og borgarritara þessa dagana sem hefur nýlokið innleiðingu á öllum fjórum Grænu skrefunum. Ellý Katrín sá um umsókn Reykjavíkurborgar á sínum tíma um að vera Græna borgin í Evrópu. Borgin komst í úrslit í þeirri samkeppni. Hún gegndi ýmsum trúnaðarstörfum og sat m.a. í stjórnarskrárnefnd sem skipuð var af Alþingi árið 2010 og sat jafnframt í fjölda annarra starfshópa og nefnda á vegum Reykjavíkurborgar eða annarra opinberra aðila.

Ellý Katrín var farsæll stjórnandi hjá Reykjavíkurborg og treysti samstarfsfólki fyrir þeim verkefnum sem hún fól þeim að vinna. Hún skar sig úr hópnum á hófstilltan hátt. Eitt af því sem hún kenndi öðrum stjórnendum var að það væri óhætt að tala líka í vinnunni um eigin fjölskyldu og börnin sín, hún skapaði vinnustað þar sem fjölskyldugildin voru í hávegum höfð. Henni tókst að finna lausnir á málum með farsælum hætti. Hún hafði líka hugrekki sem yfirmaður til að gera nauðsynlegar breytingar á þeirri starfsemi sem hún bar ábyrgð á.

Ellý Katrín greindist með forstig alzheimersjúkdóms aðeins 51 árs gömul. Hún var ötull málsvari einstaklinga með alzheimersjúkdóm og hvatti til opinskárrar umræðu um sjúkdóminn. Hún hlaut riddarakross fyrir störf á opinberum vettvangi og framlag til opinskárrar umræðu um alzheimer.

Fyrir hönd Reykjavíkurborgar sendi ég fjölskyldu og vinum Ellýjar Katrínar innilegar samúðarkveðjur um leið og ég þakka Ellý Katrínu fyrir sitt framlag í þágu borgarbúa og samfélagsins alls.

Þorsteinn Gunnarsson.