Stoltir Gaflarar Gunnar Már og börn í afmælisboði.
Stoltir Gaflarar Gunnar Már og börn í afmælisboði.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Gunnar Már Torfason fæddist 26. júní 1924 í Hafnarfirði og er stoltur Gaflari „Gunni Mössu“.

Gunnar Már Torfason fæddist 26. júní 1924 í Hafnarfirði og er stoltur Gaflari „Gunni Mössu“.

Ungur að árum var hann settur í fóstur að Vesturkoti á Skeiðum. Gunnar Már undi hag sínum vel í sveitinni og eftir fermingu fór hann í vinnumennsku að Efri-Rauðalæk í Holtum. Mestan hluta ævinnar bjó Gunnar Már í Hafnarfirði, lengst af í Grænukinn 17. Stuttu eftir að hann varð ekkjumaður flutti hann að Sólvangsvegi 3 og árið 2021 yfir á Hjúkrunarheimili Sólvangs.

Gunnar Már var um tíma til sjós, en lengst af ævinni var hann vörubílstjóri í eigin atvinnurekstri. Hann vann m.a. fyrir Hvaleyrarbræður, Rafveitu Hafnarfjarðar, Íshús Hafnarfjarðar, Góðtemplara og Hjálparsveit skáta í Hafnarfirði, þar sem hann var meðlimur. Eftir að Gunnar Már komst á eftirlaunaaldur fór hann í sendiferðir fyrir Vélar og skip ehf. og Raftíðni ehf. Rúmlega níræður að aldri lauk hann sínum starfsferli og skilaði inn ökuskírteininu 95 ára.

Gunnar Már var alla tíð mikill sjálfstæðismaður og tók þátt í starfi flokksins í Hafnarfirði. Hann hafði gaman af veiðiskap og Veiðivötnin hafa ætíð verið í miklu uppáhaldi hjá honum. Í mörg ár veiddi hann þar að hausti í net ásamt fjölskyldunni. Hann hafði unun af að ferðast um landið og Landmannaafréttur var í miklu uppáhaldi og í Landréttir fór hann á hverju hausti.

Fjölskylda

Eiginkona Gunnars var Auður Þorláksdóttir, starfsmaður Öldutúnsskóla, f. 26.10. 1930 í Reykjavík, d. 29.6. 1993. Þau gengu í hjónaband 5.3. 1949. Foreldrar Auðar voru Magnea Vilhelmina Einarsdóttir, f. 5.5. 1904, d. 21.8. 1998, og Þorlákur Jón Jónsson, f. 23.12. 1907, d. 22.1. 1998. Vinkona Gunnars til marga ára var Aðalbjörg Björnsdóttir, 12.9. 1933, d. 27.11. 2022.

Börn Gunnars og Auðar eru 1) Haraldur Rafn Gunnarsson, rafvirki, f. 18.5. 1949, maki: Sigrún Karólína Ragnarsdóttir, f. 1950; 2) Gerður María Gunnarsdóttir, f. 15.5. 1950, maki: Karl Birgir Júlíusson, f. 1948; 3) Ársæll Már Gunnarsson, rafvirki, f. 17.7. 1952, maki: Kristín Breiðfjörð Kristinsdóttir, f. 1955; 4) Magnea Þóra Gunnarsdóttir, sjúkraliði, f. 5.12. 1953, sambýlismaður: Gretar Mar Jónsson; 5) Olga Gunnarsdóttir, næringarrekstrarfræðingur, f. 5.10. 1956, maki: Jörgen Tommy Jensen; 6) Auður Gunnarsdóttir, kennari, f. 26.1. 1959, maki: Magnús Rúnar Jónsson, f. 1958. Afkomendur Gunnars Más eru sextíu.

Hálfsystkini, samfeðra, börn Torfa og Stefaníu Guðnadóttur, f. 22.11. 1882, d. 19.11. 1918 úr spænsku veikinni, voru 1) Guðjón Guðmundur Torfason, járnsmiður í Rangárvallasýslu, f. 18.10. 1910, d. 7.1. 1996; 2) Hjálmar Ragnar Torfason, sjómaður í Englandi, f. 4.6. 1913, d. í júní 1979; 3) Guðný Torfadóttir, húsmóðir í Reykjavík, f. 15.9. 1914, d. 11.11. 1993; 4) Ólafur Engilbert Torfason í Árnessýslu, f. 20.10. 1917, d. 22.12. 1930 Alsystkini Gunnars voru 5) Stefanía Torfadóttir Ervin, kaupmaður og fatahönnuður í Bandaríkjunum, f. 20.9. 1922, d. 10.5. 1994; 6) Einar Karel Torfason bifreiðaeftirlitsmaður í Reykjavík, f. 4.12. 1925, d. 13.1. 2009; 7) Vilborg Torfadóttir, fiskvinnslukona í Reykjavík, f. 12.11. 1927, d. 19.7. 2009; 8) Hrönn Torfadóttir, útgerðarstjóri í Keflavík, f. 12.12. 1929, d. 21.12. 2006. Hálfsystkini Gunnars sammæðra, börn Maríu og Ásgeirs Páls Kristjánssonar: 9) Kristján Jóhann Ásgeirsson í Bandaríkjunum og Hafnarfirði, f. 1.4. 1932, d. 19.10. 2019; 10) Kristín Mikkalína Helga Ásgeirsdóttir í Hafnarfirði, f. 22.6. 1933, d. 5.3. 2016; 11) Karólína Guðrún Ásgeirsdóttir, húsmóðir í Bandaríkjunum, f. 27.7. 1939, d. í janúar 2017.

Foreldrar Gunnars voru Torfi Björnsson, vélstjóri í Hafnarfirði, búsettur í Kanada um skeið, f. 13.7. 1884, d. 17.7. 1967, og María Ólafsdóttir, húsmóðir í Hafnarfirði, f. 4.4. 1901, d. 31.7. 1971. Fósturfaðir Gunnars var Ásgeir Páll Kristjánsson, verkamaður í Hafnarfirði, f. 1.7. 1900, d. 22.7. 1970.