Ingólfur Ómar skrifaði mér á sunnudag: Heill og sæll. Nú hefur rignt dálítið hér á suðvesturhorninu undanfarna þrjá daga.

Ingólfur Ómar skrifaði mér á sunnudag: Heill og sæll. Nú hefur rignt dálítið hér á suðvesturhorninu undanfarna þrjá daga.

Regnið úðar græna grund
grænkar lyng í mónum.
Blærinn strýkur blíðri mund
brekkum víðigrónum.


Helgi R. Einarsson skrifaði mér sama dag og lét fylgja lausn laugardagsgátunnar: Fótboltinn tröllríður öllu þessa dagana og dómar falla í hita leiksins:

Rangstaða

Út á völlinn menn arka
og allir byrja að sparka.
Eftir bévítans hark
fer boltinn í mark,
en markið er ekki að marka.


Tryggvi Jónsson yrkir við ljósmynd og er ekkert ofsagt:

Rofabörð þau rjúfa svörð,
rífa í fagurt landið skörð.
Vindabarið eftir veðurfarið
verður landið sundurgrafið.

Jón Atli Játvarðsson heldur áfram með þeim ummælum, að hann sjái ekki betur en lúpínan sé komin í bakkann. – Þetta fer allt vel á endanum.

Gengur hratt á gróðurlind,
graflækurinn elti kind,
lúpínan þá læknar mynd,
leggst á kné sér erfðasynd.

Tryggvi Jónsson svarar:

Engar kindur, ekkert skil
alveg sama hvert ég lít.
Fýkur landið fjandans til
fái það ekki kindaskít.


Jón Atli sendir boltann til baka:

Takmörkin ég trauðla skil,
tekinn frá mér allur kvóti.
Kindin farin fjandans til,
fann sig lítt í mold og grjóti.

Hólmfríður Bjartmarsdóttir bætir við:

Ekki finnst mér ofur snjallt
þó ekki segi meira
að lúpínan flæði yfir allt
og ekkert dafni fleira.


Og bætir við: Prófið að sá blóðbergi, strákar!

Jón Atli Játvarðarson svarar:

Lúpínan er lengi góð
lýtur ráðum hollum.
Sýgur nú úr bergi blóð
og bíður eftir rollum.


Stefán Sigurðsson á síðasta orðið: Lúpínan býr til besta jarðveginn þegar hún verður að mold.

Limran Sjöunda grafljóð eftir Hrólf Sveinsson:

Hér lúri ég, Láki frá Skál.
Æ, líknaðu, guð, minni sál;
það gerði ég nú
ef ég þættist þú
og þú værir Láki frá Skál.


Fuglalimra Úr heimsbókmenntunum eftir Pál Jónasson í Hlíð:

Hann Andríkur aurana þráir,
elskar virðir og dáir,
í pengetank dvelur
og pengene telur,
en finnst þeir víst ennþá of fáir.


Hjörtur Gíslason kvað:

Þótt ég eigi enga flík,
sem ytra kulda varni,
finnst mér ástin alltaf lík
eftirlætisbarni.


Öfugmælavísan:

Af þyrnum vínber fyrðar fá,
fíkjur á þistlum standa,
vatni og sméri hverjum hjá
hollt er saman að blanda.