Syndafallssagan Nína Hjálmarsdóttir og Embla unnu saman að sýningunni Eden.
Syndafallssagan Nína Hjálmarsdóttir og Embla unnu saman að sýningunni Eden. — Ljósmynd/Gunnlöð Jóna Rúnarsdóttir
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Í prentaðri dagskrá Listahátíðar í Reykjavík 2024 eru fjórtán viðburðir merktir sviðslistir. Annað eins í klúbbi hátíðarinnar. Þetta er lengsti dálkurinn í efnisyfirlitinu.

Af listum
Þorgeir Tryggvason

Í prentaðri dagskrá Listahátíðar í Reykjavík 2024 eru fjórtán viðburðir merktir sviðslistir. Annað eins í klúbbi hátíðarinnar. Þetta er lengsti dálkurinn í efnisyfirlitinu. Að hluta til skýrist það af nýlegri þróun í flokkunarkerfi listgreinanna, þar sem regnhlífin sviðslistir nær yfir leiklist, dans og óperu. En ekki síður hefur farið fram umtalsvert landnám í greininni. Illskilgreinanlegir gjörningar og formtilraunir falla hér undir og stækka flokkinn. Rétt er að geta þess að flokkunarkerfið er eilítið öðruvísi á vef hátíðarinnar, svona til að flækja málið eilítið. En auðvitað er það innihaldið sem skiptir máli.

Eins og oft áður eru sýningar sem gera mætti ráð fyrir á efnisskrám stofnanaleikhúsanna lítt áberandi á hátíðinni í ár. Hér er ekkert sambærilegt við t.d. flutning Sinfóníuhljómsveitar Íslands á þriðju sinfóníu Mahlers, eða tónleika Jacobs Colliers og Lise Davidsen úr tónlistardálkinum (þrettán viðburðir og fjórtán í klúbbnum). Á hinn bóginn sækja engin sambærileg víðfræg erlend leikhús hátíðina heim. Sennilega er þetta blanda af listpólitík og peningasjónarmiðum, og svo einfaldlega ólíkri stemningu í viðkomandi listgreinum á þessu andartaki sögunnar.

Ég valdi af hálfgerðu handahófi þrjár sýningar til að sjá og skoða. Kannski gefur þetta slembival sæmilega tilfinningu fyrir stöðu mála í sviðslistum í samhengi stórviðburðar á borð við alþjóðlega fjölgreinalistahátíð eins og okkar.

Einn leikari leitar höfundar

Sýning íranska leikskáldsins Nassims Soleimanpours er hönnuð fyrir hátíðir á borð við þessa, og hefur að sögn gert víðreist. Frumlegt form ber hitann og þungann af merkingunni, þemað er samskipti og hindranir á vegi þeirra. Tæknin í forgrunni, aldrei þessu vant ekki sem ógn heldur tækifæri.

Stóra hugmyndin er leikarinn. Hann er nýr í hvert sinn, úr „röðum heimamanna“, og veit ekki hvað bíður hans, annað en handrit sem hann hefur aldrei séð. Fljótlega breytist „handritið“ þó í samskipti við leikskáldið sjálft, þar sem þáttur leikarans er engu að síður fyrirskipaður af skáldinu. Meginviðfangsefnið er síðan að kenna leikaranum nokkur orð í farsí, sem í lokin duga honum til að segja móður skáldsins litla sögu. Hindrunum tungumáls og vegalengda er rutt úr vegi, tengingu náð.

Það má dást að fimi Nassims við að halda sýningunni (og tækninni) á teinunum. Í sýningunni eru falleg augnablik og áhrifarík hugsun. Á hinn bóginn mistekst henni að nýta það sem fyrir fram mátti búast við (og auglýst var) að yrði hennar helsta orkuuppspretta: stefnumót leikara við óséð handrit. Sú ögrun sem mætir leikaranum er nánast eingöngu að ná tökum á nokkrum einföldum persneskum setningum. Sem er of lítið, og nýtti t.d. nánast ekkert af því sem gerir Ingvar E. Sigurðsson að þeim yfirburðaleikara sem hann er. Þótt Nassim sé í grunninn óvissuferð fyrir gestaþátttakandann er alltof lítill háski í því sem lagt er fyrir viðkomandi til að skapa bitastætt drama.

Undir rifi hverju

Þær gerast varla frjórri til úrvinnslu, sögurnar, en fyrstu blaðsíður Biblíunnar. Sköpunar- og þá ekki síður syndafallssagan. Hvernig lítur hún út frá sjónarhóli tveggja heitustu viðfangsefna samtímans: hinseginleika, og ekki síst inngildingar, sem var svo eftirminnilega kippt inn á sviðið í leikhúsinu í viðbrögðum við söngleikjauppfærslu í Þjóðleikhúsinu fyrir tveimur leikárum?

Þetta er útgangspunktur samsköpunarsýningarinnar Eden sem líkt og Nassim var sýnd í Tjarnarbíói undir regnhlíf Listahátíðar. Falleg og íburðarmikil umgjörð Tönju Huldar Levý og Seans Patricks O'Briens skapar seiðandi vettvang fyrir þær Emblu Guðrúnu Ágústsdóttur og Nínu Hjálmarsdóttur til að vakna til lífsins og vitundar um sig sem líf- og kynverur. Og síðan bölvun og blessun eplisins sem gerði okkur að því sem við erum, til góðs og ills.

Sem flytjendur/leikarar eru þær ansi sterkar og koma með forvitnilega krafta að borðinu. Nína úr reynslu sinni sem drag-karl og Embla með ákaflega sterka nærveru og áhrifaríka textameðferð, eins og þau sem sáu hana í Góða ferð inn í gömul sár í Borgarleikhúsinu á síðasta leikári muna gjörla.

Fyrsti hluti Eden er afbragð. Eftir hægan inngang þar sem tónlist Ronju Jóhannsdóttur nýtur sín vel, eins og reyndar í gegnum sýninguna alla, byrja þær Embla og Nína að segja söguna, og flétta hana á skemmtilegan hátt saman við hliðstæða sögu Gylfaginningar og Völuspár um Ask og Emblu (eða Emblu og Nínu, réttara sagt). Tengja þetta síðan líka við tæknifrjóvgunarferli og síðast en ekki síst við allsnægtagarð kapítalismans, sjálfa Skeifuna. Þetta verður allt frekar frjótt og skemmtilegt og kætti fullskipaðan salinn.

Fljótlega samt víkur sögunni annað, fyrst inn í Paradísarmissi Miltons og síðan í óhreinleikabálk þriðju Mósebókar (ef biblíukunnáttan bregst mér ekki). Þar er mun minni úrvinnsla eða spennandi samsláttur í boði og sýningin missir flugið. Svolítið eins og höfundarnir hafi treyst slagkrafti efnisins til að sjá um sig sjálfur. En eftir væntingarnar sem þær sköpuðu með snjöllum fyrsta hlutanum verður of lítið úr þessu.

Stundarfriður í Nevada

Andi absúrdleikhússins ræður ríkjum í Las Vegan, sem Ilmur Stefánsdóttir skrifaði og sviðsetti í Hafnarhúsportinu undir merkjum Common Nonsense. Eða kannski öllu fremur andi íslenskra sporgöngumanna hefðarinnar, þeirra Þorvaldar Þorsteinssonar og Guðmundar Steinssonar. Endurómur frægasta verks þess síðarnefnda er hávær í þessari harmsögu um tætta fjölskyldu sem reynist alveg ófær um að hlúa að barninu sem hefur tekið allar ógnir samtímans inn á sig (í gegnum TikTok, nema hvað?) þannig að lífsviljinn er þrotinn. Eða jú, þau telja vænlegast að leita á náðir höfuðborgar yfirborðsmennskunnar, Las Vegas, svo dóttirin geti menntað sig í sirkuslistum. Það fer nú meira og minna öðruvísi en ætlað var, eins og vanir leikhúsgestir geta nærri um.

Af þeim sýningum sem hér hefur verið gefinn gaumur er Las Vegan sú sem treystir langsamlega mest á hefðbundin form og miðlunartækni. Handrit í hefðbundnu formi, persónusköpun og – hugsið ykkur – plott! En það er ekki bara ást á leikhúsi hefðarinnar sem gerir Las Vegan að áhrifaríkustu leikhúsupplifun þessa gamla rýnis á hátíðinni.

Hér er einfaldlega framúrskarandi vinna á öllum póstum. Handritið eitursnjallt, sviðsetningin sterk, umgjörð og búningar (væntanlega verk Ilmar) stórkostleg og leikhópurinn allur í frábæru formi, þau Davíð Þór Jónsson, Ebba Katrín Finnsdóttir, Eggert Þorleifsson, Guðrún Gísladóttir, Jón Sigurður Gunnarsson, Justyna Micota, Margrét Vilhjálmsdóttir og Valur Freyr Einarsson. Ein af betri sýningum leikársins ef við lítum á Listahátíð sem endapunkt þess.

Eða glæsilegt upphaf þess sem fram undan er ef við horfum í þá áttina.