Í lausu lofti „Í fyrsta lagi er ég mjög glysgjörn,“ segir myndlistarkonan Auður Lóa Guðnadóttir.
Í lausu lofti „Í fyrsta lagi er ég mjög glysgjörn,“ segir myndlistarkonan Auður Lóa Guðnadóttir. — Ljósmynd/Haukur Sigurðsson
Sýningin Í lausu lofti, sem stendur yfir í Galleríi Úthverfu á Ísafirði, samanstendur af nýjum skúlptúrum myndlistarkonunnar Auðar Lóu Guðnadóttur.

Anna Rún Frímannsdóttir
annarun@mbl.is

Sýningin Í lausu lofti, sem stendur yfir í Galleríi Úthverfu á Ísafirði, samanstendur af nýjum skúlptúrum myndlistarkonunnar Auðar Lóu Guðnadóttur. Blaðamaður náði tali af Auði Lóu þar sem hún var stödd fyrir austan, í Sauðaneshúsi á Langanesi en þar starfa þau hjónin sem safnverðir á sumrin.

„Það var verið að kalla eftir hugmyndum fyrir Listahátíð og ég var búin að ganga með hugmynd að þessari sýningu í smá tíma og sá að hún passaði svo vel inn í dagskrána hjá þeim þetta árið. Ég var nýbúin að eignast dóttur mína og ákvað eiginlega bara þar og þá að reyna að finna sýningunni einhvern farveg og stað en mig hafði lengi langað að sýna í Úthverfu,“ segir Auður Lóa, spurð að því hvernig það hafi komið til að hún opnaði sýningu á Ísafirði.

Náttúran mjög áhugaverð

Þá fjallar sýning Auðar Lóu meðal annars um það að tilheyra og tilheyra ekki og græna páfagauka í almenningsgörðum Lundúna.

„Þetta eru skúlptúrar unnir úr pappamassa sem er efniviður sem ég hef unnið mikið með á mínum ferli. Ég hef sögulega verið að vinna mikið með hunda og ketti sem efnivið líka og tengsl fólks við dýr,“ segir hún og útskýrir í framhaldinu að sér finnist mjög athyglisvert hvernig fólk eigi það til að manngera hunda og ketti á myndum og í myndböndum á netinu, líkt og að láta kött spila á píanó.

„Hundar og kettir eru svolítið mannleg dýr og við vörpum oft okkar ímynd á þau. Þótt páfagaukar séu líka gæludýr þá er tengingin við þá og aðra skrautfugla öðruvísi. Við vitum ekki einu sinni hvernig samband fólks við hunda og ketti byrjaði en það er svo augljóst að páfagaukar þróuðust ekki hér á Íslandi, þeir koma langt að.“

Segist Auður Lóa á margan hátt hafa heillast af slíkum fuglum í gegnum tíðina.

„Í fyrsta lagi er ég mjög glysgjörn,“ segir hún og hlær. „Pabbi minn er líffræðingur og á mínu heimili var alltaf horft á náttúrulífsþætti og mikið pælt í þróunarfræðinni. Þessi hugmynd um paradísarfuglana hefur verið mér mjög hugleikin í gegnum tíðina, þessar verur sem þróast á óheppilegan hátt, eru með gríðarlöng stél og fjaðrir til að laða að sér önnur dýr en geta svo ekki flúið sjálf frá rándýrum. Mér finnst þetta bæði mjög áhugavert og heillandi og sérstaklega þegar maður er að vinna með svona sjónrænan miðil eins og myndlistarmiðilinn. Þá verður allt þetta sjónræna í náttúrunni svo áhugavert.“

Vinnur sjónrænt og fígúratíft

Innt eftir því hvernig hún myndi lýsa sjálfri sér sem listamanni segist Auður Lóa að miklu leyti treysta innsæinu.

„Ég vinn mjög sjónrænt og fígúratíft. Ég útskrifaðist úr Listaháskólanum 2015 og hafði mjög gott af náminu en eyddi mörgum árum eftir útskrift í að gera það sem ég lærði ekki þar. Nú er ég ekki að tala illa um námið og ég held að það hafi haft mjög mótandi áhrif á mig en líka sýnt mér hvað ég vildi fá út úr því. Það hefur tekið tíma að læra að treysta innsæinu og ferlinu,“ segir hún og bætir því við að hún sé sífellt að sanka að sér upplýsingum bæði með því að lesa og horfa á heimildarmyndir.

„Ég treysti innsæi mínu til að taka þessar sjónrænu upplýsingar og vinna úr þeim og á þessari sýningu er viss undirliggjandi þráður. Ég byrja kannski á einni hugmynd og leyfi henni að blæða út frá þeim upplýsingum sem ég hef viðað að mér í gegnum tíðina.“

Hið eina rétta í stöðunni

Talið berst að fyrirmyndum í listinni og segist Auður Lóa heillast af ýmsum listamönnum og sækja sér innblástur víða. „Ég er mjög áhugasöm um listasögu og það eru alls konar listamenn sem ég horfi til hvað varðar stíl og inntak. Ég hef einnig mikinn áhuga á listamönnum sem ég tengi ekki beint við þær útfærslur sem ég er að gera. Fyrir nokkrum árum fórum við maðurinn minn til dæmis á sýningu Adrian Piper í New York. Þar var um að ræða yfirlitssýningu á hennar verkum og voru þau mjög pólitísk. Mér finnst hún alveg frábær en svo finnst mér líka mjög gaman að skoða málverk eins og eftir David Hockney en ég hef mikinn áhuga á honum og hans list.“

Segir Auður Lóa að í raun hafi ávallt legið fyrir henni að feta listabrautina. „Ég held að þetta hafi verið eitthvað sem ég vildi alltaf gera. Á vissum tímapunkti velti ég því reyndar fyrir mér að verða arkitekt eða grafískur hönnuður því það hljómar praktískara en svo var þetta bara alltaf einhvern veginn það eina rétta í stöðunni.“

Mikilvægt að sýna traust

Þá leggur hún mikla áherslu á aðgengileika í sinni vinnu. „Mér finnst gaman að gera sýningar þar sem fólki finnst það velkomið og þó að ég sé með einhverja eina eða aðra hugmynd sem ég er að vinna með þá finnst mér allt í lagi að fólk komi á sýninguna og finnist bara gaman, að það sé ekkert endilega að pæla mikið í því hvað ég hafi verið að hugsa með verkinu,“ segir Auður Lóa og tekur fram að sér finnist mikilvægt að sýna traust. „Ég er ekki mjög áhugasöm um að skrifa einhver ósköp um verkin mín því mér finnst það hálfgerð vanvirðing við sýningargestina. Myndlist er fyrir mér fyrst og fremst eitthvað sem maður upplifir og fer í gegnum skilningarvitin. Ég vil að fólk geti komið inn með sinn þekkingarheim, sína sýn og geti sett sína túlkun í verkin,“ segir hún að lokum.