Sigurmarkið Anna Björk Kristjánsdóttir fagnar liggjandi á jörðinni eftir 
hafa kastað sér á boltann og skorað sigurmark Vals á Akureyri.
Sigurmarkið Anna Björk Kristjánsdóttir fagnar liggjandi á jörðinni eftir hafa kastað sér á boltann og skorað sigurmark Vals á Akureyri. — Ljósmynd/Kristín Hallgrímsdóttir
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Möguleikar Akureyringanna í Þór/KA á því að fylgja Val og Breiðabliki eftir í baráttunni um Íslandsmeistaratitil kvenna í fótbolta dvínuðu verulega í gærkvöld

Besta deildin
Víðir Sigurðsson
vs@mbl.is

Möguleikar Akureyringanna í Þór/KA á því að fylgja Val og Breiðabliki eftir í baráttunni um Íslandsmeistaratitil kvenna í fótbolta dvínuðu verulega í gærkvöld þegar Valur vann dramatískan sigur, 2:1, í viðureign liðanna á Þórsvellinum á Akureyri.

Með sigri hefðu liðin verið jöfn að stigum, þremur á eftir Breiðabliki, sem vann Keflavík á útivelli í gærkvöld, 2:0.

Nú eru Breiðablik og Valur hins vegar jöfn á toppnum, sex stigum á undan Akureyringunum. Þór/KA hefur tapað öllum þremur leikjum sínum gegn Blikum og Val á tímabilinu og þar skilur á milli því liðið hefur unnið hina sjö leikina og virðist því ætla að hreiðra um sig í þriðja sætinu, í það minnsta næstu vikurnar.

Lengi vel var þó ekki útlit fyrir að Hlíðarendakonur færu með þrjú stig suður. Hulda Ósk Jónsdóttir kom Þór/KA yfir á 60. mínútu með glæsilegu skoti, 1:0, og þannig var staðan fram á 85. mínútu leiksins.

Þá náði Berglind Björg Þorvaldsdóttir að jafna metin, með sínu fyrsta marki fyrir Val, eftir sendingu Fanndísar Friðriksdóttur. Ekki í fyrsta sinn sem þær koma að marki í sameiningu.

Og Valskonur létu kné fylgja kviði því í framlengingunni skoraði varnarmaðurinn reyndi Anna Björk Kristjánsdóttir sigurmark Vals, 2:1, þegar hún var fyrst á boltann eftir að Harpa Jóhannsdóttir í marki Akureyringa varði vel hörkuskot Amöndu Andradóttur úr aukaspyrnu.

Katrín komin í gang

Enn ein af reyndari leikmönnum deildarinnar gerði útslagið í sigri Breiðabliks á Keflavík suður með sjó. Katrín Ásbjörnsdóttir var í fyrsta skipti í byrjunarliði Kópavogsliðsins á tímabilinu og nýtti tækifærið vel því hún skoraði bæði mörkin í 2:0 sigrinum.

Það fyrra gerði hún strax á fjórðu mínútu eftir sendingu Birtu Georgsdóttur og það síðara korteri fyrir leikslok eftir hornspyrnu.

Níundi sigur Breiðabliks í fyrstu tíu leikjunum og liðið er þremur stigum á undan Val.

Keflavík situr eftir í fallsæti eftir áttunda tapið í tíu leikjum.

Þróttur á sigurbraut

Þróttarkonur héldu áfram sinni uppsveiflu og unnu sinn þriðja sigur í fjórum leikjum, 1:0 gegn Fylki í Laugardalnum.

Þar skoraði Sigríður Th. Guðmundsdóttir sigurmarkið strax á þriðju mínútu leiksins.

Eftir slæma byrjun á mótinu hafa Þróttarar rifið sig upp af botni deildarinnar og liðið er komið upp í sjötta sætið.

Fylkiskonur léku hins vegar sinn sjöunda leik í röð án sigurs og eru áfram neðstar, nú fjórum stigum frá því að komast úr fallsæti. Róðurinn þyngist í Árbænum.