Gleði Slóvenar höfðu fulla ástæðu til að fagna eftir
jafnteflið við England því þeir eru komnir áfram úr riðlakeppni EM í
fyrsta sinn.
Gleði Slóvenar höfðu fulla ástæðu til að fagna eftir jafnteflið við England því þeir eru komnir áfram úr riðlakeppni EM í fyrsta sinn. — AFP/Kirill Kudryavtsev
Englendingar urðu sigurvegarar í C-riðli Evrópumóts karla í fótbolta í Þýskalandi án þess að sýna nein sérstök tilþrif í þremur leikjum sínum.

EM í fótbolta
Víðir Sigurðsson
vs@mbl.is

Englendingar urðu sigurvegarar í C-riðli Evrópumóts karla í fótbolta í Þýskalandi án þess að sýna nein sérstök tilþrif í þremur leikjum sínum.

Þeir gulltryggðu efsta sætið með markalausu jafntefli gegn Slóvenum í Köln á meðan Danir og Serbar skildu líka jafnir án marka í München.

England með fimm stig, Danmörk með þrjú stig og Slóvenía með þrjú stig fara því öll í sextán liða úrslitin en Serbar fengu tvö stig og eru úr leik. Fimm af sex leikjum riðilsins enduðu með jafntefli, allir nema sigurleikur Englands gegn Serbíu í fyrstu umferðinni.

Danir mæta Þjóðverjum

Englendingar mæta einhverju liðanna sem enda í þriðja sæti í sínum riðli en Danir mæta gestgjöfunun, Þjóðverjum, í sextán liða úrslitum. Slóvenar mæta annaðhvort Portúgal eða sigurvegara E-riðils þar sem Belgía, Rúmenía, Slóvakía og Úkraína geta öll unnið.

Úrslitin þýða jafnframt að Króatar eru úr leik en þeir geta ekki lengur komist áfram vegna slaks árangurs í þriðja sæti. Ungverjar bíða með öndina í hálsinum og vonast eftir því að hvorki Georgíumenn né Tékkar vinni sína leiki í lokaumferð F-riðilsins í kvöld. Þá sleppa Ungverjar síðastir áfram.

Óvænt hjá Austurríki

Austurríki stóð óvænt uppi sem sigurvegari í D-riðli eftir sigur á Hollandi í bráðfjörugum leik í Berlín í gær, 3:2.

Á meðan gerðu Frakkar og Pólverjar jafntefli í Dortmund, 1:1, og Austurrríki fékk því 6 stig, Frakkland 5 stig og Holland 4 og liðin þrjú leika öll í sextán liða úrslitum.

Pólverjar hafa hins vegar lokið keppni með eitt stig en þeir voru þegar úr leik fyrir leikinn gegn Frökkum.

Austurríki leikur því við liðið sem endar í öðru sæti F-riðils, Tyrkland, Tékkland eða Georgíu.

Frakkar mæta liðinu í öðru sæti E-riðils en þar eru Rúmenía, Belgía, Slóvakía og Úkraína öll jöfn fyrir lokaumferðina í dag.

Hollendingar þurfa að bíða og sjá hverjir mótherjar þeirra verða en þar sem þeir enduðu í þriðja sæti munu þeir mæta sigurliði úr A-, C- eða E-riðli. Spánn og England eru því tveir af þremur mögulegum mótherjum þeirra.

Austurríki komst þrisvar yfir, fyrst með sjálfsmarki og síðan skoruðu Romano Schmid og Marcel Sabitzer. Cody Gakpo og Mepmhis Depay jöfnuðu í 1:1 og 2:2 fyrir Hollendinga.

Kylian Mbappé lék með grímu gegn Pólverjum vegna nefbrotsins og hann kom Frökkum yfir úr vítaspyrnu. Robert Lewandowski náði að leika fyrsta og eina leik sinn með Pólverjum og hann jafnaði í 1:1 úr vítaspyrnu.