[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Íslenska landsliðið í handknattleik, skipað stúlkum 20 ára og yngri, tapaði í gær í fyrsta sinn á heimsmeistaramótinu í Norður-Makedóníu þegar það beið lægri hlut fyrir Portúgal, 26:25.

Íslenska landsliðið í handknattleik, skipað stúlkum 20 ára og yngri, tapaði í gær í fyrsta sinn á heimsmeistaramótinu í Norður-Makedóníu þegar það beið lægri hlut fyrir Portúgal, 26:25. Þetta var úrslitaleikur um sigur í milliriðlinum en Portúgal fékk þar með 5 stig og Ísland 4 og bæði liðin fara í átta liða úrslitin sem leikin eru á morgun. Þar leikur Ísland gegn Ungverjalandi og Portúgal mætir Danmörku. Elín Klara Þorkelsdóttir var langmarkahæst í íslenska liðinu með 8 mörk.

Stúlknalandslið Íslands í körfuknattleik, skipað leikmönnum 20 ára og yngri, tapaði naumlega fyrir Svíum, 78:73, á Norðurlandamótinu í Södertälje í Svíþjóð í gær. Íslenska liðið hefur því tapað báðum leikjum sínum en það beið lægri hlut gegn Írlandi í gær og mætir Dönum í lokaleiknum í dag. Agnes María Svansdóttir skoraði 23 stig fyrir Ísland og Anna Lára Vignisdóttir 21 en þær voru með meira en helming stiga liðsins.

Vestri og Fram verða bæði með tvo leikmenn í banni vegna gulra spjalda þegar liðin mætast í Bestu deild karla í fótbolta annað kvöld. Framararnir Alex Freyr Elísson og Kyle McLagan voru úrskurðaðir í eins leiks bann í gær vegna gulra spjalda, sem og Vestramennirnir Vladimir Tufegdzic og Ibrahima Baldé . Alex Freyr er kominn með sjö gul spjöld og fer því í bann í annað sinn í ár. Þá verða Hólmar Örn Eyjólfsson, fyrirliði Vals, og Björn Daníel Sverrisson , fyrirliði FH, í banni í leikjum sinna liða á föstudagskvöldið.

Ítalski knattspyrnustjórinn Roberto De Zerbi hefur verið ráðinn til Marseille í Frakklandi. Félagið staðfesti í gær að samkomulag milli hans og félagsins væri í höfn. De Zerbi hætti hjá enska úrvalsdeildarfélaginu Brighton í vor en stýrði áður Shakhtar Donetsk í Úkraínu og Sassuolo á Ítalíu.

Brasilíumenn urðu að sætta sig við markalaust jafntefli gegn Kosta Ríka í fyrsta leik sínum í Ameríkubikar karla í fótbolta í Los Angeles í fyrrinótt. Þeir áttu þó 19 markskot í leiknum. Kólumbía vann Paragvæ, 2:1, í Houston með mörkum frá Daniel Munoz og Jefferson Lerma . Julio Ensisco skoraði fyrir Paragvæ.

Knattspyrnumaðurinn Hólmbert Aron Friðjónsson er á förum frá þýska liðinu Holstein Kiel. Samningur hans rennur út um mánaðamótin. Hólmbert gekk í raðir Holstein Kiel árið 2021 og lék 26 deildaleiki fyrir félagið en var um tíma í láni hjá Lilleström í Noregi. Meiðsli settu strik í reikninginn á síðasta tímabili en Hólmbert lék einungis fjórtán leiki og skoraði eitt mark. Holstein Kiel leikur í þýsku 1. deildinni á næsta tímabili eftir að hafa endað í öðru sæti B-deildarinnar í vetur.