Á Akureyri Hópurinn frá Haukum á Íslandsleikunum,
Bára Fanney Hálfdanardóttir til vinstri og Stella Hrund Ásbjarnardóttir
aðstoðarþjálfari til hægri.
Á Akureyri Hópurinn frá Haukum á Íslandsleikunum, Bára Fanney Hálfdanardóttir til vinstri og Stella Hrund Ásbjarnardóttir aðstoðarþjálfari til hægri.
Um 35 krakkar með sérþarfir æfðu körfubolta hjá Haukum í Hafnarfirði í vetur og hefur þeim fjölgað jafnt og þétt frá því byrjað var að bjóða upp á starfsemina haustið 2018

Steinþór Guðbjartsson
steinthor@mbl.is

Um 35 krakkar með sérþarfir æfðu körfubolta hjá Haukum í Hafnarfirði í vetur og hefur þeim fjölgað jafnt og þétt frá því byrjað var að bjóða upp á starfsemina haustið 2018. „Verkefnið var smátt í sniðum til að byrja með en iðkendum hefur fjölgað reglulega,“ segir Bára Fanney Hálfdanardóttir, yfirþjálfari hópsins.

Hjónin Thelma Þorbergsdóttir og Kristinn Jónasson, formaður körfuknattleiksdeildar Hauka, komu verkefninu á laggirnar og sáu um það fyrstu árin. Bára Fanney, sem er hokin af reynslu sem körfuboltaþjálfari, vann þá við greiningu fatlaðra. „Um hálfu ári eftir að þau byrjuðu fengu þau mig með sér sem aðstoðarþjálfara og ég hef verið yfirþjálfari undanfarin þrjú ár,“ segir hún.

Krakkarnir eru á aldrinum sex til 16 ára og fylgja æfingar hefðbundnu körfuboltatímabili. Þeim er skipt í tvo hópa. Yngri börnin æfa einu sinni á viku frá september til maí, en eldri krakkarnir mæta á æfingar tvisvar í viku.

Allir með

Bára Fanney segir mikilvægt að fatlaðir fái tækifæri til að æfa og spila með ófötluðum og séu þannig hluti af körfuboltasamfélaginu. „Undanfarin ár höfum við farið á þrjú til fjögur opin minniboltamót á ári og alls staðar verið vel tekið.“ Hún sé að athuga möguleika á keppni erlendis. „Markmiðið er að komast á Special Olympics-mót í framtíðinni.“

Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir, yfirþjálfari hjá krökkum með sérþarfir í fótbolta hjá Stjörnunni/Ösp, og Bára Fanney skipulögðu svokallaða Íslandsleika, þar sem markmiðið er, auk opinna æfinga og keppni, að kynna ófötluðum einstaklingum í viðkomandi sveitarfélagi íþróttirnar. Fyrstu leikarnir fóru fram á Akureyri í mars. Krakkar frá báðum félögum fóru saman norður, þar sem fyrst var keppt á móti ófötluðum í fótbolta og körfubolta, en síðan var þátttakendum skipt í blönduð lið. „Viðburðurinn heppnaðist mjög vel, allir voru sérlega ánægðir og við ætlum að halda þessu áfram.“

Bára Fanney segir að körfuboltafjölskyldan í Haukum hafi tekið viðbótinni sérlega vel og mikil ánægja sé með framtakið. „Við erum hluti af heildinni og fáum okkar rými eins og aðrir.“ Þau hafi æft í íþróttahúsi Hraunvallaskóla og fengið að vera þar í næði án utanaðkomandi áreitis. Vegna fjölgunar iðkenda hafi þau hugleitt að færa sig yfir í Haukahúsið og slá þá tvær flugur í einu höggi; fá meira pláss og tengjast Haukasamfélaginu enn frekar.

Allir með

Allir með er samstarfsverkefni Íþróttasambands fatlaðra, ÍSÍ og UMFÍ styrkt af hinu opinbera með það að markmiði að fjölga tækifærum fatlaðra í íþróttum í samstarfi við íþróttahreyfinguna. Bára Fanney, sem var kjörin þjálfari ársins 2023 hjá Haukum, segir að forystumenn í fleiri íþróttafélögum hugsi sér til hreyfings í þessu efni. Hún segir að nokkrir iðkendur hjá sér æfi líka körfubolta hjá sínum félögum á höfuðborgarsvæðinu. „Það skiptir miklu fyrir iðkendur með sérþarfir að vera velkomnir hjá íþróttafélögum í sínum heimabæ rétt eins og aðrir skólafélagar þeirra.“