Nokkuð hefur verið fjallað um aukin gjaldþrot veitingastaða að undanförnu. Þeir skera sig þó ekki úr öðrum atvinnugreinum.

Gísli Freyr Valdórsson
gislifreyr@mbl.is

Þrátt fyrir nokkra aukningu í gjaldþrotum veitingastaða í fyrra er hlutfallslegur fjöldi gjaldþrota þó enn lægri en á árunum 2018 til 2020, einkum vegna mikillar fjölgunar veitingastaða undanfarin ár.

Þetta kemur fram í gögnum sem tekin eru saman af Creditinfo að beiðni ViðskiptaMoggans. Í greiningu Creditinfo er farið nánar yfir rekstur nokkurra atvinnuflokka sem tengjast veitingageiranum, þ.e. hótel og gistiheimili með veitingaþjónustu, veitingastaðir og loks önnur ótalin veitingaþjónusta.

Fyrirtækjum í þessum þremur greinum (veitingageiranum) fjölgaði um 60% frá ársbyrjun 2018 til ársbyrjunar 2024 (úr 600 í 960). Fjölgunin varð talsvert meiri en í flestum öðrum atvinnugreinum á sama tímabili. Hún varð þó einnig mikil í byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð, úr 2.500 fyrirtækjum í 3.760, sem er um 50% aukning.

Aðalgeir Ásvaldsson, framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja á veitingamarkaði (SVEIT), lýsti í byrjun júní yfir þungum áhyggjum af fjölgun gjaldþrota í greininni í samtali við mbl.is. Þar sagði hann meðal annars að veitingahús yrðu gjaldþrota nánast í hverri viku.

Miðað við tölurnar þá reynist það rétt ef horft er til ársins í fyrra, og gott betur því tæplega 70 fyrirtæki í veitingageiranum urðu gjaldþrota í fyrra, sem er sambærilegur fjöldi og árið 2020. Á sama tíma urðu 135 ferðaþjónustufyrirtæki gjaldþrota, sem einnig svipar til ársins 2020.

Fjöldinn fyrir 2024 í heild er metinn út frá fyrstu fimm mánuðum ársins 2024. Hafa ber í huga að frá 2020 hefur fyrirtækjum í veitingageiranum fjölgað um þriðjung og fyrirtækjum í ferðaþjónustu um 23%, þ.e. hlutfallslega færri fyrirtæki urðu gjaldþrota í fyrra en 2020. Til samanburðar fjölgaði gjaldþrotum mikið í byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð en þau voru um 300 árið 2023, sem er u.þ.b. tvöfaldur meðalfjöldi gjaldþrota árin 2018 til 2021.

„Okkur finnst áhugavert að sjá að þótt gjaldþrotum hafi vissulega fjölgað í veitingageiranum, líkt og komið hefur fram í fréttum, er hlutfall gjaldþrota fyrirtækja í honum samt sem áður lægra en árin 2018 til 2020,“ segir Kári Finnsson, forstöðumaður viðskiptaþróunar hjá Creditinfo, í samtali við ViðskiptaMoggann. Hann bendir jafnframt á að fyrirtækjum hafi fjölgað mikið á síðastliðnum árum í öðrum atvinnugreinum sem teknar voru til skoðunar og mikilvægt sé að fylgjast vel með þróuninni í öðrum atvinnugreinum, t.d. byggingargeiranum.

„Þar hefur fjölgun fyrirtækja verið einna mest en á sama tíma er þar nú hæsta hlutfall gjaldþrota fyrirtækja af þeim atvinnugreinum sem við skoðuðum,“ segir Kári.

Þróun hlutfallslegs fjölda gjaldþrota fyrirtækja af öllum fyrirtækjum í virkri starfsemi í atvinnugreinunum má sjá á myndinni hér til hliðar. Árið 2022 sker sig úr með óvenjufá gjaldþrot í samanburði við árin í kring, sem væntanlega má rekja til sérstakra aðgerða ríkisstjórnarinnar og lánafyrirtækjanna vegna kórónuveirufaraldursins. Ætla má að fjölgun gjaldþrota eftir 2022 megi rekja til afleiðinga aðgerðanna, þ.e. að fyrirtæki hafi í raun fengið gálgafrest. Þróun fjölda fyrirtækja og gjaldþrota í öðrum helstu atvinnugreinum en sýndar eru í greiningunni hefur verið með sambærilegum hætti.