— Morgunblaðið/Eggert
Tanya Zharov segir að mikilvægasti eiginleikinn í fari stjórnarmanna segir hún að það sé getan til að hlusta. Hún hefur komið að stjórnun fjölmargra fyrirtækja.

Tanya Zharov, framkvæmdastjóri lögfræðisviðs og aðstoðarforstjóri Alvotech, hefur í gegnum tíðina setið í fjölmörgum stjórnum fyrirtækja. Meðal annars hjá ORF líftækni, Íslandssjóðum, Kauphöllinni, Sýn og Carbon Recycling International. Hún segir það hafa verið dýrmæta reynslu að hafa setið í stjórnum svo fjölbreyttra fyrirtækja.

„Það sem ég hef lært er að árangur verður ekki til á einni nóttu og það tekur gríðarlega langan tíma að byggja upp fyrirtæki. Ég kom inn í nokkur af þessum fyrirtækjum þegar þau voru stutt á veg komin en ég hef gaman af því að koma að uppbyggingu fyrirtækja,“ segir hún í viðtali við ViðskiptaMoggann þar sem nánar er rætt um tíma hennar hjá Íslenskri erfðagreiningu, stofnun Auðar Capital, það hvernig hún endaði í lögfræðinámi, uppbyggingu Alvotech og margt fleira.

Spurð hvað hún telji að sé mikilvægasti eiginleikinn í fari stjórnarmanna segir hún að það sé getan til að hlusta.

„Það er mikilvægt að hafa skoðanir en það er mikilvægt að koma inn og hlusta og kynnast rekstrinum. Þú þarft að skilja áskoranirnar. Það er til dæmis allt annar handleggur að koma inn í fyrirtæki sem er nýstofnað heldur en fyrirtæki sem er komið lengra á veg. Verandi stjórnarmaður hjálpar að hafa fengist við einhverjar af þeim áskorunum sem stjórnendur standa frammi fyrir því að hlutverkið er sambland af eftirliti og stuðningi,“ segir Tanya.