Magnús Már Þórðarson, framkvæmdastjóri Tern Systems, segir að mikill meðbyr sé með fyrirtækinu.
Magnús Már Þórðarson, framkvæmdastjóri Tern Systems, segir að mikill meðbyr sé með fyrirtækinu. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Óformlegar þreifingar eru hafnar um mögulega sölu á Tern Systems. Félagið hefur selt hugbúnaðarlausnir víða um heim.

Þóroddur Bjarnason
tobj@mbl.is

Hugbúnaðarfyrirtækið Tern Systems, sem hefur í næstum 30 ár þróað hugbúnaðarlausnir fyrir stjórn flugumferðar á Íslandi og selt í Evrópu, Asíu og Afríku, stendur á ákveðnum tímamótum. Óformlegar þreifingar eru hafnar um framtíðareignarhald félagsins sem nú er að fullu í ríkiseigu í gegnum Isavia.

Magnús Már Þórðarson framkvæmdastjóri segir í samtali við ViðskiptaMoggann að fyrirtækið hafi átt mjög farsælt samstarf við Isavia í gegnum tíðina og hefur það lagt grunninn að því fyrirtæki sem Tern er í dag.

„Það hefur jafnframt haft mikil áhrif á okkur að Isavia er bæði eigandi og aðalviðskiptavinurinn. Manni er fyrir vikið þröngur stakkur sniðinn ef skala ætti fyrirtækið upp og auka tekjur og umsvif,” útskýrir Magnús.

Samtal í gangi

Hann segir að samtal hafi verið í gangi bæði innan stjórnar Tern Systems og Isavia um að skoða þyrfti eignarhaldið alvarlega.

„En auðvitað eru miklir hagsmunir í húfi og þessi geiri er mjög íhaldssamur. Það þurfa allir hlutaðeigendur að vera samstiga í svona breytingum og vanda mjög til verka.”

Magnús ítrekar að hann sjálfur ráði litlu um þessa þróun.

„Auðvitað er ég með í umræðunni og reyni að hafa áhrif á hana. En endanleg ákvörðun er tekin af öðrum aðilum en mér.“

Hann segir að ef ætlunin væri að láta fyrirtækið vaxa hratt þyrfti nýtt fjármagn.

„Þá erum við að tala um hundruð milljóna króna fyrsta kastið. Við þurfum einnig að sækja okkur þekkingu á því hvernig best er að skala svona fyrirtæki upp. Við erum búin að byggja grunninn en viljum gera meira. Ef við náum í tíu nýja viðskiptavini, sambærilega og Isavia á næstu 10 árum, þá er þetta orðinn allt annar leikur. Til að ná þangað þarf fjármagn og enn meiri þekkingu.”

Fyrsti evrópski viðskiptavinurinn

Tern Systems hefur um nokkurra ára skeið selt kerfi sín víða um heim eins og fyrr sagði en þrjú ár eru síðan fyrsti evrópski viðskiptavinurinn bættist í hópinn, HungaroControl í Ungverjalandi. Búnaðinn kaupa Ungverjar sem varakerfi fyrir aðalflugumsjónarkerfið.

Í Asíu er búnaður Tern Systems notaður sem aðalkerfi og/eða varakerfi á yfir 10 flugvöllum, í S-Kóreu, Indónesíu og Taílandi. Megnið af þeim eru stórir flugvellir sem þjóna tugum milljóna farþega á hverju ári.

Miðað við þessa aðila sem eru nú þegar í viðskiptavinahópi Tern Systems hlýtur tækifærið að vera töluvert stórt ?

„Já, við teljum að svo sé. En þetta er líka erfitt. Þröskuldurinn er hár. Það tók okkur fjögur ár að fá Ungverjana til að skrifa undir samning sem dæmi,” segir Magnús og brosir. „En við finnum meðbyrinn og það eru margir að fylgjast með okkur. Kerfið okkar er sveigjanlegt og nútímalegt og við getum strítt stóru aðilunum á markaðnum, THALES og INDRA. Þetta eru risafyrirtæki sem eru næstum þúsund sinnum stærri en við. Ég veit að það er þörf á ferskum vindum í þessum geira en svo er eftir að koma í ljós hversu vel okkur gengur að nýta þennan meðbyr. Það er klárt að við þurfum að geta hreyft okkur hraðar og verið með eiganda sem er tilbúinn að styðja við það.”

Magnús segir að kerfið fyrir Ungverja sé enn í prófunum en fari í fulla notkun á næsta ári. Þá verði það keyrt samhliða aðalkerfinu.

„Þeir eru líka byrjaðir að skoða nýtt aðalkerfi. Það er komið til ára sinna hjá þeim. Með því að taka okkur þarna inn sem varakerfi eru þeir að setja ákveðinn þrýsting á sína viðsemjendur.”

Tern Systems hefur nú þegar fengið um einn milljarð króna fyrir verkefnið. Magnús segir að ef svo færi að aðili eins og HungaroControl keypti Polaris, flaggskip Tern Systems, og innleiddi sem sitt aðalflugleiðsögukerfi, yrðu tekjurnar umtalsvert meiri.

Ekki einfalt mál

Eins og gefur að skilja er það ekki einfalt mál að skipta út flugumsjónarkerfi á flugvöllum, enda um gríðarlega vandasama starfsemi að ræða þar sem ekkert má út af bera.

„Já, það er stórmál,” svarar Magnús. „En við erum að leita leiða til að lækka þröskuldinn. Við vitum að stóru aðilarnir á markaðnum eru að koma með nýjar útgáfur af kerfum sínum árið 2030 og því eru margir að líta í kringum sig. Tækifærið er því núna fyrir okkur.”

Magnús, sem hefur verið flugáhugamaður allt síðan hann var ungur drengur í Njarðvík, sér mikil tækifæri fyrir íslenska fluggeirann. Hann segir að lega landsins og sú staðreynd að Íslendingar séu háðir flugi með samgöngur hafi búið til mikla þekkingu. Hana megi enn efla.

„Fyrir mér er flugið auðlind sem við ættum að gera meira úr. Sú hugmynd hefur komið upp í samræðum við Isavia og flugfélögin að hér verði stofnaður flugklasi. Þar myndu sprotar geta haft aðstöðu til að byggja upp þjónustu sem tengdist ekki bara flugumferð heldur líka flugvellinum m.a.”

Tern byrjaði einmitt sem sproti í Háskóla íslands á níunda áratugnum og varð formlegt fyrirtæki árið 1997 og hefur vaxið og dafnað síðan þá. Sjálfur kom Magnús, sem er menntaður í verkfræði og fjármálum, fyrst að fyrirtækinu sem forritari árið 2001. Hann var ráðinn framkvæmdastjóri árið 2009 eftir að hafa í millitíðinni unnið hjá Kaupþingi m.a.

Magnús segir að Tern Systems þrói og reki fjöldann allan af kerfum í dag fyrir Isavia en markmiðið sé að skerpa fókusinn og þróa einungis 2-3 kerfi. Það yrðu þá Polaris og Orion, flughermir fyrir flugumferðarstjóra, og í þriðja lagi lítið flugumsjónarkerfi sem notað er á 25 litlum flugvöllum á Íslandi og Grænlandi. Þróun þess kerfis hefur verið hætt að mestu en viðhaldi er sinnt af Tern Systems.

Mikil sjálfvirknivæðing

Eins og mikið er fjallað um þessa dagana er heimurinn í miðri tæknibyltingu með aukinni notkun gervigreindar. Flugheimurinn fer ekki varhluta af því. Langur tími líður þó alla jafna þar til ný tækni er tekin þar í notkun eins og Magnús útskýrir:

„Það er að verða mikil sjálfvirknivæðing í þessum geira eins og öðrum, með gervigreind m.a. Þetta er nokkuð sem við erum byrjuð að skoða. Ég sé fyrir mér að gervigreind eigi í vaxandi mæli eftir að geta nýst flugumferðarstjórum til að koma með tillögur að lausnum og aðgerðum, líkt og á öðrum sviðum. En þetta er mjög íhaldssamur bransi og það mun taka tíma fyrir allar svona nýjungar að skila sér inn í kerfin, allt að tíu ár, eins og reynslan sýnir.”

Auk HungaroControl eru fleiri evrópskir viðskiptavinir í sigtinu að sögn Magnúsar. Samtöl eru í gangi við þjónustuveitendur á Norðurlöndunum, í Eystrasaltsríkjunum og Austur-Evrópu.

„Margir af þessum aðilum hafa fylgst með okkur í nokkur nokkur ár. Undanfarið hefur orðið ákveðin breyting á þessum samtölum og við finnum töluvert aukinn áhuga á því sem við erum að gera. Ég spái því að við verðum búin að skrifa undir samning við nýjan viðskiptavin í Evrópu á þessu ári.“

Tern Systems sækir reglulega um Evrópustyrki fyrir sitt rannsóknar- og þróunarstarf. Þá nýtur félagið einnig skattaafslátta hér á landi sem nýtast vel að sögn Magnúsar.

Sem dæmi hefur Tern Systems að undanförnu fengið Sesar-Evrópustyrki samtals að upphæð 160 milljónir króna til að skoða notkun gervigreindar í flugleiðsögukerfum og hvernig best er að nýta þau kerfi til að bregðast við aukinni umferð dróna.

Í dag starfa 80 manns hjá Tern, þar af 65 á Íslandi. Áætluð velta Tern Systems er 1.500 milljónir króna í ár.

„80% af því eru launakostnaður,” útskýrir Magnús og ítrekar hve gott og hæft starfsfólk félagsins sé.

„Mesta virðið í fyrirtækinu liggur í starfsfólkinu okkar,” segir hann að lokum.