Tanya öðlaðist mikla reynslu af því að taka þátt í skráningu deCode á markað vestanhafs.
Tanya öðlaðist mikla reynslu af því að taka þátt í skráningu deCode á markað vestanhafs. — Morgunblaðið/Eggert
Tanya Zharov, aðstoðarforstjóri Alvotech, á að baki langa reynslu af stjórnendastörfum og vexti ólíkra fyrirtækja. Hún rifjar í samtali við ViðskiptaMoggann upp tíma sinn hjá Íslenskri erfðagreiningu, stofnun Auðar Capital, það hvernig hún endaði í lögfræðinámi, uppbyggingu Alvotech og margt fleira.

Magdalena A. Torfadóttir
magdalena@mbl.is

„Ég vil vera þar sem eru breytingar, þar þrífst ég best og breytingar og uppbygging hafa verið rauði þráðurinn í mínum starfsferli,“ segir Tanya Zharov, framkvæmdastjóri lögfræðisviðs og aðstoðarforstjóri Alvotech, í samtali við ViðskiptaMogga. Tanya er lögfræðingur að mennt en á að baki langan og farsælan feril í íslensku atvinnulífi. Hún starfaði lengi hjá Íslenskri erfðagreiningu og var í stofnendateymi fjármálafyrirtækisins Auðar Capital. Hún hefur þar að auki setið í fjölmörgum stjórnum fyrirtækja.

Tanya fæddist í Rússlandi á tímum Sovétríkjanna, en flutti til Íslands þegar hún var sjö ára ásamt móður sinni í kjölfar þess að móðir hennar, Alevtina Druzina, giftist Íslendingi, Halldóri Vilhjálmssyni. Tanya bjó fyrstu árin sín í Leníngrad, en foreldrar hennar voru tungumálakennarar í Háskólanum í Pétursborg. Hún lýsir árunum í Rússlandi sem frábærri æsku, hún var einkabarn með ömmur sem snerust í kringum hana auk foreldra.

„Ég hugsa oft til þess þegar mamma ákvað að yfirgefa Rússland og flytja til Íslands þangað sem ástin dró hana og hversu mikið hugrekki er fólgið í því vegna þess að á þessum tíma var það þannig að þegar maður flutti frá Sovétríkjunum var allt eins líklegt að þú færir aldrei heim aftur og vel gat verið að hún sæi aldrei fjölskyldu og vini,“ segir Tanya.

Sjálf fór hún aðeins einu sinni til Sovétríkjanna, sumarið 1980, fyrir fall þeirra. Eftir að Sovétríkin liðuðust í sundur 1991 fór hún þó oft til Rússlands og dvaldi þar síðar með eiginmanni sínum.

„Mig langaði að upplifa Rússland sem fullorðin. Ég kann rússnesku og það hefur gagnast mér vel bæði í lífi og starfi. Ég og maðurinn minn bjuggum í Pétursborg árið 1993 og síðan á Kamtsjatkaskaga. Á þeim tíma voru Íslendingar sem stunduðu viðskipti í Rússlandi og það má segja að þar hafi ég öðlast mína fyrstu reynslu af viðskiptalífinu,“ segir Tanya.

Eftir að hún útskrifaðist frá Menntaskólanum í Reykjavík lá leiðin í lögfræði við Háskóla Íslands. Hún lýsir því að áhugi á löngu sumarfríi og tilviljun hafi ráðið valinu.

„Eftir að hafa verið á eðlisfræðideild í MR fékk ég nóg af stærðfræði og fór því ekki í verkfræði eða tölvunarfræði eins og svo mörg af mínum bekkjarsystkinum. Ég skráði mig upphaflega í ensku og sögu en þegar nær dró haustinu langaði mig í lengra sumarfrí og lögfræðin var það fag sem byrjaði síðast þannig að ég skipti yfir í lögfræðina,“ segir Tanya.

Nýorðin meðeigandi þegar Kári hringdi

Tanya hafði unnið við skattaráðgjöf með áherslu á alþjóðlegan rétt hjá PWC, þar sem Valdimar Guðnason endurskoðandi kom að stofnun skattasviðs hjá fyrirtækinu og gaf henni tækifæri til að vera með í að búa það til. Hún varð síðar meðeigandi og í tilefni þess var haldin hátíðleg athöfn.

Viku síðar hringdi Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar (ÍE), í hana og bauð henni að taka þátt í uppbyggingu fyrirtækisins. Tanya var tvístígandi og sagði að það væri kannski ekki tímabært þar sem hún væri nýorðin meðeigandi vikuna áður. Þá svaraði Kári: „Tanya, ég er að fara að skrá fyrirtækið á markað. Þá þarf ég einhvern með mér sem kann á pappíra. Og ég vil að þú verðir með mér í þessu. Mér er alveg sama hvað þú varst að gera í síðustu viku. Ég er með hugann við næstu viku og framtíðina.“

Tanya hitti Kára og eftir það samtal ákvað hún að slá til og taka þátt í deCode-ævintýrinu. Fyrirtækið var skráð á Nasdaq-markaðinn í Bandaríkjunum árið 2000 og Tanya lýsir þeirri reynslu sem miklu ævintýri.

„Það voru bara Íslendingar í okkar skráningarteymi félagsins. Það voru margir sem hvöttu Kára til að fá erlenda aðila með reynslu af skráningu að borðinu en honum fannst mikilvægt að þessi þekking yrði til hér á landi og skráningarteymið væri íslenskt sem að þessu kæmi. Kári sagði alltaf við okkur: „Sko krakkar mínir, þið lærið af þessu sama hvort þetta gengur eða ekki og getið þá gert þetta aftur.“ Við „krakkarnir“ vorum sem sagt rúmlega þrítug og hann var rétt kominn yfir fimmtugt,“ segir Tanya og hlær þegar hún rifjar þetta upp.

Misjöfn viðbrögð við stofnun Auðar Capital

Tanya var síðar í stofnendateymi fjármálafyrirtækisins Auðar Capital ásamt Höllu Tómasdóttur, nýkjörnum forseta Íslands, og fleiri konum. Stofnteymið var sett saman af átta konum sem störfuðu hjá félaginu í upphafi og urðu allar hluthafar, auk átta annarra kvenna sem komu inn sem fjárfestar. Tanya hafði unnið um nokkurt skeið hjá ÍE og tíð ferðalög fylgdu því starfi. Á þessum tíma var hún með þrjú ung börn og var orðin þreytt á ferðalögum. Árið 2007 komu Halla Tómasdóttir og Kristín Pétursdóttir til hennar með hugmynd að stofnun fjármálafyrirtækis. Hún hikaði hvergi og sagði strax að hún væri til í að taka þátt í þessu verkefni.

„Það sem heillaði mig við hugmyndina um Auði Capital var að þetta var ólíkt öðrum fjármálafyrirtækjum. Hitt var að vera með í að búa til fyrirtæki alveg frá grunni, allt frá því að búa til alla samninga við viðskiptavini, kerfi og sækja um starfsleyfi. Við byrjuðum átta konur og það sem við gerðum og sögðum var ólíkt orðræðunni á þeim tíma. Við fengum mikla jákvæðni og stuðning, en eflaust þótti einhverjum við vera frekar skrítnar,“ segir Tanya og hlær.

Hún bætir við að fyrirtækið hafi komist vel út úr bankahruninu árið 2008. Ef eitthvað er hafi viðskiptavinum þeirra fjölgað til muna haustið 2008 og árið 2009.

„Við fengum starfsleyfi í apríl 2008 en segja má að við höfum sprungið út um haustið 2008 þegar margir viðskiptavinir sem fóru illa út úr samskiptum við önnur fjármálafyrirtæki í hruninu leituðu til okkar,“ segir hún.

„Eitt af markmiðum okkar með því að stofna fyrirtækið var að breyta orðræðunni og þegar ég les í dag heimasíður annarra fjármálafyrirtækja líður mér eins og við höfum haft áhrif – þar sem bæði fjármálafyrirtæki og fjárfestar eru að fylgja eftir orðræðu um samfélagslega ábyrgð og jafnrétti sem er eitthvað sem við vorum með á dagskrá á fyrstu árum Auðar Capital.“

Nokkrum árum síðar sameinaðist Auður verðbréfafyrirtækinu Virðingu, sem síðar sameinaðist Kviku banka. Tanya segir að sú þróun hafi ekki heillað hana og hún hafi ekki haft áhuga á að vinna í banka. Kári hafi stuttu síðar haft samband við hana um að verða aðstoðarforstjóri ÍE og hún þáði það boð. Þá hafði margt breyst hjá fyrirtækinu meðan hún starfaði hjá Auði. Tanya starfaði hjá ÍE fram til ársins 2020 þegar Róbert Wessman hafði samband við hana og bað hana um að taka við stöðu aðstoðarforstjóra Alvotech.

„Ég sagði bara já, ég hugsaði mig ekki einu sinni um. Líkt og ég sagði áðan þá vil ég vera þar sem breytingar eru og þar sem uppbyggingin er mikil,“ segir hún.

Það var og er mikill metnaður hjá Alvotech og segja má að félagið hafi farið í gegnum þrjár skráningar á einu ári árið 2022, raunar á hálfu ári. Fyrst á Bandaríkjamarkað, síðan á First North-markaðinn hér á landi og loks á Aðalmarkaðinn. Ég hef reynt að fá staðfestingu á að þetta sé heimsmet í skráningum á einu ári, sem ég tel það vera. Ég hef svo gaman af þessum uppbyggingarfasa og þetta hefur verið algjört ævintýri.“

Styrkleiki að vera öðruvísi

Tanya kveðst hafa verið afar heppin og hafi ekki upplifað margar hindranir á ferlinum. Hún segir þó mikilvægt að vera meðvituð um að hún hafi þurft að hafa fyrir sínu.

„Það lífsleikniráð sem ég lifi eftir er að það er styrkleiki að vera öðruvísi. Sérstaklega ef þú ert í umhverfi þar sem breytingar eru tíðar. Þá skiptir engu máli hvort þú sért í jakkafötum með bindi eða ekki. Það skiptir bara máli hvort þú komir hlutum í verk,“ segir Tanya.

Hún rifjar upp að hún hafi aldrei fundið sig í náminu þegar hún var í lögfræðinni. Skólasystkini hennar stefndu mörg hver á að verða dómarar, lögmenn eða ráðuneytisstjórar. Það hafi aldrei heillað hana.

„Ísland hefur breyst gífurlega mikið frá því ég var í námi og möguleikarnir eru mun meiri fyrir fólk í dag. Ég lenti oft í því hér áður fyrr að fólk spurði mig: Bíddu ertu lögfræðingur? Og gefið er í skyn hvað ég sé að vilja upp á dekk. En það er pláss fyrir alla og í öllum teymum er mikilvægt að þar séu einstaklingar með fjölbreytta eiginleika, menntun og reynslu.“

Alvotech var stofnað í janúar 2013 og hefur síðan þá farið úr því að vera með enga starfsmenn yfir í að vera með yfir 1.000 starfsmenn. Tanya segir að Alvotech sé um þessar mundir að fara í gegnum ákveðinn umbreytingarfasa og sé að vaxa úr því að vera rannsóknar- og þróunarfyrirtæki yfir í að vera framleiðslufyrirtæki.

„Alvotech hefur vaxið gífurlega, sérstaklega síðan ég tók við fyrir fjórum árum. Þá voru 450 starfsmenn hjá félaginu, þar af 300 á Íslandi, en nú erum við rúmlega 1.000 og þar af rúmlega 800 á Íslandi. Alvotech er alþjóðlegur vinnustaður, sem er bæði skemmtilegt og krefjandi. Við erum nýbúin að flytja alla okkar starfsemi á Íslandi í höfuðstöðvarnar okkar í Vatnsmýrinni en það er mikill kostur að hafa starfsemina hérna heima undir einu þaki.“

Sem kunnugt er sérhæfir Alvotech sig í þróun og framleiðslu á líftæknilyfjahliðstæðum. Tanya segir að það séu tvö fyrirtæki í heiminum sem eru að gera sambærilega hluti og Alvotech. Þau eru bæði í Suður-Kóreu.

„Þau eru aftur á móti ekki nákvæmlega eins og við. Það sem við höfum fram yfir þau er til dæmis að við erum með alla þróun og framleiðslu innanhúss, en á móti erum við ekki með söludeild. Við eru með samninga við stór lyfjafyrirtæki á hverjum markaði, sem sjá um að dreifa vörunum fyrir okkur og taka jafnframt þátt í kostnaði við þróun lyfjanna, sem dreifir áhættu.“

Tanya lýsir geiranum sem afar flóknum og að það reynist oft þrautin þyngri að fá erlenda sérfræðinga til landsins.

„Það er mikilvægt fyrir fyrirtæki eins og okkur að fá hingað til lands erlenda sérfræðinga með sérþekkingu sem er ekki til hér. Okkur hefur raunar gengið vel með það síðustu ár og höfum verið virk í samtali við stjórnvöld um þau mál með góðum árangri,“ segir Tanya bætir við að undanfarin ár hafi Alvotech verið í uppbyggingarfasa.

„Við erum búin að vera í fjármögnunar- og þróunarferli og það er ósköp eðlilegt þegar fyrirtæki eru í uppbyggingarfasa að þau tapi peningum. Kostnaðurinn er til að skapa verðmæti og búa til tekjustofna framtíðarinnar. Það heitir að fjárfesta í uppbyggingunni.“

Vinna að því að breyta heiminum

Tanya segir að helsta áskorunin sem Alvotech hafi glímt við sé uppbyggingin en henni hafi fylgt krefjandi og skemmtileg verkefni.

„Þegar þú ert að byggja upp þá ertu að breyta heiminum og það er erfitt, þess vegna eru ekki allir að því. Þetta er erfitt því þú ert að búa til eitthvað nýtt sem hefur ekki verið gert áður. Þú ert að byggja upp og breyta samfélaginu,“ segir hún.

„Breytingar hafa verið rauði þráðurinn í mínum starfsferli. Ég hef alltaf haft gaman af að vera þar sem eru breytingar því þar eru líka tækifærin. En ef þú vilt hafa það auðvelt þá mögulega velurðu þér að vinna hjá sígildara fyrirtæki sem farið er að skila hagnaði og er með reglulega starfsemi og tekjur.“

Tanya segir að áfangarnir sem Alvotech hafi náð séu margir en sá stærsti sé að öllum líkindum úttektin frá bandaríska lyfjaeftirlitinu sem náðist í upphafi þessa árs.

„Stóru áfangarnir hafa þó að sjálfsögðu verið margir og við höfum fjárfest mikið í uppbyggingunni sem hefur skilað sér fyrir okkur,“ segir Tanya og bætir við að það hafi verið mikil vinna að tvískrá félagið, á hlutabréfamarkað í Bandaríkjunum og á Íslandi.

„Það var í mörg horn að líta og þetta var flókið verkefni. Við þurftum til að mynda að fá með okkur erlenda banka og lögmannsstofur auk innlendra ráðgjafa en þetta gekk vel,“ segir Tanya.

„Ég vil þó sérstaklega nefna að íslenskir ráðgjafar okkar voru frábærir og hafa stutt mjög vel við félagið. Það er gaman að sjá hversu mikið af flottu ungu fólki er starfandi á Íslandi sem getur unnið við alþjóðleg og flókin fjármögnunarverkefni. Það að við gerðum þetta eins hratt og við gerðum sýnir metnaðinn enda erum við í dag stærsta félagið í íslensku Kauphöllinni. Við erum auðvitað mun þekktara fyrirtæki á Íslandi og erum að vinna að því að byggja upp sýnileika í Bandaríkjunum. Það er verkefni sem tekur tíma en við höfum mikinn metnað fyrir.“

Spurð hvert Alvotech stefni, segir Tanya að markmiðið sé einfalt.

„Við stefnum á að verða það fyrirtæki sem er fremst í þróun og framleiðslu líftæknilyfjahliðstæðna. Við ætlum að verða best í heimi á okkar sviði,“ segir Tanya að lokum.