„Það fer ágætlega saman að stjórna umferð ferðamanna og vernda náttúruna. Ein aðferð til þess er að taka gjald.“

Magnús Óskarsson
Lögmaður með málflutningsréttindi í New York-ríki og hæstaréttarlögmaður hjá Lögmáli ehf.

Nú eru ferðamenn farnir að streyma til landsins að nýju og enginn veltir fyrir sér hvort þeir eru smitaðir af covid-19-veirunni. Jafnvel örlar á því að hægjast sé á ferðamannastraumnum þó erfitt sé að átta sig á því hvað er satt í þeim efnum og hvað er upphlaup ferðaþjónustufyrirtækja sem vilja lægri skatta eða aðra opinbera aðstoð. Menningar- og viðskiptaráðherra boðar átak í neytendamarkaðssetningu fyrir ferðamenn. Væntanlega á að nota til þess skattfé. Blessunarlega ganga ferðalög langflestra vel en fyrir kemur að ferðamenn slasast eða jafnvel láta lífið, t.d. við erfiðar fjallgöngur að vetrarlagi eða í hópferðabifreiðum. Einnig er fjöldinn slíkur að sums staðar hafa innviðir ekki við eða náttúran sem Ísland er hvað þekktast fyrir verður fyrir skaða. Upp hafa komið álitaefni um hvenær megi takmarka umferð ferðamanna af slíkum ástæðum. Það hefur sannað sig að óheftur aðgangur að vinsælum ferðamannastöðum sem sumir vilja leyfa á grundvelli almannaréttar er ávísun á náttúruspjöll.

Í opinberri umræðu og í pólitískum tilgangi hefur því verið haldið fram að frá miðöldum hafi verið hér ríkjandi reglur um almannarétt og einatt vísað í Jónsbók, lögbók Magnúsar konungs lagabætis sem gekk í gildi á árunum 1281 til 1283. Hugtakið almannaréttur hefur verið mistúlkað og misnotað til að verja hagsmuni stórra ferðaþjónustuaðila og eftirlitsiðnaðarins. Ákvæði Jónsbókar um almannarétt voru undantekningarákvæði, sett fram í samhengi við afdráttarlaus eignarréttindi landeigenda og þess rækilega gætt að geta þess að bætt skuli tjón sem mögulega yrði ef farið væri út fyrir þær heimildir laganna. Ákvæði Jónsbókar um almannarétt voru sett í þeim tilgangi að menn gætu komist leiðar sinnar milli héraða með þeim náttúrulegu takmörkunum sem voru á fararskjótum þess tíma og viðlegubúnaði. Meðal annars var í búnaðarbálki Jónsbókar ákvæði um rétt manna til að æja dráttardýrum sínum að sumri til í annars manns landi þar sem ekki er slegið. Það er mjög í samræmi við þessa hugsun. Þessu hlutverki gegnir vegakerfið í dag. Það glitti ekki í það í Jónsbók að menn færu um lönd annarra með hópa í atvinnuskyni. Jónsbók tryggði að maður á sauðskinnsskóm gæti stytt sér leið yfir land annars manns og gæti tínt bláber og fjallagrös á leiðinni til að draga fram lífið.

Almannaréttur í þeim skilningi að um sé að ræða einhvern fornan algildan rétt eða jafnvel mannréttindi er þess vegna ekki til og eru hugmyndir um slíkt seinni tíma uppfinning. Almannaréttur í slíkum skilningi nýtur því engrar sögulegrar sérstöðu og fá sterk rök eru fyrir honum sérstaklega andspænis öðrum mikilvægum réttindum eða hagsmunum eins og mannréttindaákvæðum um eignarrétt eða hagsmunum um vernd náttúrunnar.

Um almannarétt er nú fjallað í fjórða kafla náttúruverndarlaga frá 2013. Skýrustu heimildirnar til að takmarka umferð ferðamanna er þar að finna. Annars vegar er heimild sem Umhverfisstofnun hefur ef veruleg hætta er á tjóni af völdum mikillar umferðar eða vegna sérstaklega viðkvæms ástands náttúru að takmarka umferð eða loka viðkomandi svæði tímabundið fyrir ferðamönnum. Þessi heimild gildir aðeins í tvær vikur þó hana megi framlengja með staðfestingu ráðherra. Hins vegar, segir að á eignarlandi í byggð sé eiganda eða rétthafa heimilt að takmarka eða banna með merkingum við hlið eða göngustíga umferð manna og dvöl á afgirtu óræktuðu landi.

Þessar heimildir eru skýrar. Þar fyrir utan eru heimildirnar kannski ögn óljósari. Þó má í krafti eignarréttar landeiganda líklega takmarka eða stýra umferð með ýmsum hætti. Einkum ef aðeins er verið að beina umferð í tiltekinn farveg um land svo að fólk komist leiðar sinnar án þess að umferð gangandi manna sé beinlínis stöðvuð. Það á sér stoð í inngangsákvæði fjórða kafla náttúruverndarlaga þar sem segir m.a. að fara skuli eftir merktum leiðum og skipulögðum stígum og vegum eftir því sem auðið er, hlífa girðingum, fara um hlið eða stiga þegar þess er kostur og ef farið er um lokuð hlið skal loka þeim eftir að gengið hefur verið um þau.

Það fer ágætlega saman að stjórna umferð ferðamanna og vernda náttúruna. Ein aðferð til þess er að taka gjald. Sú aðferð er almennt viðurkennd og hefur gefið góða raun. Af mikilli umferð ferðamanna hljótast náttúruspjöll, sum óafturkræf. Undanþágan sem felst í almannarétti getur ekki haft mikla þýðingu í því sambandi.