Rauðuklettar taka um tíu þúsund manns í sæti undir berum himni.
Rauðuklettar taka um tíu þúsund manns í sæti undir berum himni. — Ljósmyndir/Justin Pagano
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Um sextán kílómetra suðvestur af höfuðborg Colorado-fylkis, Denver, er að finna einn sérstæðasta tónleikasal Bandaríkjanna. Þakið er stjörnuhimininnn sjálfur og hljóðvistin sækir töfra sína í tvo risavaxna kletta, rauða á lit.

Stefán E. Stefánsson
ses@mbl.is

Um sextán kílómetra suðvestur af höfuðborg Colorado-fylkis, Denver, er að finna einn sérstæðasta tónleikasal Bandaríkjanna. Þakið er stjörnuhimininnn sjálfur og hljóðvistin sækir töfra sína í tvo risavaxna kletta, rauða á lit. Staðurinn nefnist enda Rauðuklettar (Red Rocks). Þar er hægt að koma nærri 10 þúsund manns í sæti með mjög góðu móti og neðan við áhorfendapallana er sviðið sjálft. Skapar þessi umgjörð mjög sérstaka stemningu sem dregið hefur marga af bestu tónlistarmönnum heims á svæðið. Yfir sumartímann er nær viðstöðulaust tónleikahald í Rauðuklettum.

Þann 16. júní bar svo til að íslenska hljómsveitin Kaleo efndi til tónleika þar. Ekki í fyrsta sinn því fyrir tveimur árum lá leið þeirra þangað einnig.

Að þessu sinni var mikil eftirvænting í loftinu. Veðrið gott, rétt um 28 stiga hiti og léttur andvari. Örlítil hætta á rigningarskúrum en ekkert varð úr því. Öllum til talsverðrar ánægju. Og þegar tónleikarnir voru að hefjast var bekkurinn orðinn þéttsetinn. Bandaríski tónlistarmaðurinn Matt Maeson hitaði upp með sinni kröftugu rödd og þéttum gítarleik sem hamrabeltin rauðu tóku vel á móti. Eftir um 40 mínútna einleik hans var vangurinn orðinn fullsetinn og allir reiðubúnir fyrir íslenskt rokk.

Ísland er land þitt

Meðan hljómsveitin kom sér fyrir hljómaði stef úr lagi Magnúsar Þórs Sigmundssonar sem hann svo eftirminnilega samdi við texta Margrétar Jónsdóttur, Ísland er land þitt. Í hópi tugþúsundanna voru Íslendingar. Þeir einir vissu hvaða merkingu þetta lag hefur fyrir samlanda Kaleo-manna. Ekki dró úr hughrifunum að á þessum tímapunkti var 17. júní genginn í garð á Íslandi. Áttatíu ár frá stofnun lýðveldis á Þingvöllum.

Í kjölfarið tók sveitin til óspilltra málanna og hver smellurinn rak annan. Það er á tónleikum sem þessum sem maður áttar sig betur á því hversu þétt og mikið höfundarverk Jökuls Júlíussonar er orðið, lög á borð við Way Down We Go, All the Pretty Girls, Broken Bones, No Good, Hey Gringo og Lonely Cowboy, svo aðeins nokkur séu nefnd. Mitt á sviðinu stóð Jökull með gítarinn eða öllu heldur gítarana. Í hverju lagi skipti hann um áhald. Með kúrekahatt og í prjónaðri herðaslá að hætti sléttufaranna sem leituðu til Colorado um miðja 19. öldina í leit að gulli og grænum skógum.

Skáldið frá Djúpalæk

Um miðbik tónleikanna tók sveitin svo Vor í Vaglaskógi, sem fyrir löngu er orðið klassískt í flutningi hennar. Lagið er hrífandi og flutt hægt og þétt í útsendingu Kaleo. Texti Kristjáns frá Djúpalæk verður dulúðugur í meðförum hennar, angurvær, rétt eins og skáldið heldur fram að kyrrðin sé og friðandi og mild um leið. Féll flutningurinn vel í mannskapinn sem tók undir á sína vísu þótt langsamlega stærstur hluti áhorfenda hefði ekki nokkra hugmynd um hvað verið er að vísa í þegar talað er um grænan berjamó eða Vaglaskóg.

Enn rak hver slagarinn annan og mikil stemning á svæðinu. Þá kváðu allt í einu við kunnuglegir tónar, það er fyrir hin íslensku eyru sem á hlýddu. Stef sem hvert einasta íslenska mannsbarn þekkir og tengir við. Sofðu unga ástin mín. Þjóðlagið sem snertir viðkvæman streng í flestra hjörtum, ekki síst vegna textans sem Jóhann Sigurjónsson orti sem hluta af leikritinu Fjalla-Eyvindur og sett var á svið í fyrsta sinn árið 1912.

Heilbrigð þjóðerniskennd

Þarna var komin útsetning og túlkun Kaleo á þessu magnaða fyrirbæri sem hvorki er ljóð eða lag, heldur hluti af þjóðarsál og -vitund Íslendinga. Frumflutt í Rauðuklettum 16. júní 2024 og gefið út á smáskífu á þjóðhátíðardaginn, 17. júní.

Það verður að segja hljómsveitinni til hróss að hún lyftir íslenskri menningu með þessum hætti og á sinn einstæða hátt. Tónlistin er að sönnu frábær ein og sér, en það er ósennilegt að val Kaleo á fyrrnefndum lögum og textum sé tilviljun háð eða aðeins tengd þeirri staðreynd að um fallegar melódíur sé að ræða. Þessi ofursvala hljómsveit ber eigin hróður víða og í kjölsoginu af hinum gríðarlegu vinsældum fylgja þessar íslensku perlur. Hvenær hefði Jóhann Sigurjónsson dreymt um að kvæðið um dauðadjúpu sprungurnar á hálendi Íslands yrði flutt frammi fyrir 10.000 manns í Colorado í Bandaríkjunum? Aldrei.

Höf.: Stefán E. Stefánsson