Það að leggja fram kæru eða kvörtun snýst í raun ekki lengur um hvort sá sem kæruna leggur fram hafi góðan málstað í höndum

Bjarki Már Baxter
Lögmaður á Málþingi lögmannsstofu

Undanfarnar vikur hafa birst fréttir af löngum afgreiðslutíma innan stjórnsýslunnar, bæði hjá stjórnvöldum og kærunefndum. Umboðsmaður Alþingis hefur gert athugasemdir og sett fram fyrirspurnir af því tilefni gagnvart nokkrum stjórnvöldum. Í fréttum hefur til að mynda komið fram að Orkustofnun hafi afgreitt kvörtun sem barst stofnuninni í desember 2021 í mars á þessu ári og var málsmeðferðartíminn því 27 mánuðir. Fram hefur komið að þessi langi málsferðartími eigi við um fleiri mál hjá Orkustofnun.

Fleiri dæmi má nefna. Að sögn umboðsmanns Alþingis hefur málsmeðferðartími hjá Úrskurðarnefnd um upplýsingamál ekki verið lengri í átta ár og fækkaði úrskurðum nefndarinnar úr 102 á árinu 2020 í 46 á árinu 2023. Þá hefur verið fjallað um langan afgreiðslutíma vegna kvartana til Embættis landlæknis, s.s. vegna mistaka við veitingu heilbrigðisþjónustu. Umboðsmaður Alþingis hefur beint því til heilbrigðisráðuneytisins að grípa til markvissra og raunhæfra aðgerða til að fækka kvörtunarmálum sem bíða afgreiðslu hjá landlækni. „Vandinn er ærinn, hefur verið það um árabil og fer vaxandi“ segir á vefsíðu umboðsmanns.

Kærunefnd húsamála birti áhugaverða tilkynningu á vefsíðu sinni í mars sl. vegna tafa á afgreiðslu mála hjá nefndinni. Þar er tekið fram að vegna gríðarlegs málafjölda muni nefndin forgangsraða aðfararhæfum húsaleigumálum fram yfir önnur mál. Þá er því beint til þeirra sem leita til nefndarinnar með mál að hafa málsatvikalýsingu kjarnyrta, ágreiningsefni skýr og aðeins leggja fram gögn sem hafa bein tengsl við málið. Tekið er fram að úrlausnir nefndarinnar verði að jafnaði styttri en áður.

Þau vandamál sem að framan er lýst virðast ná yfir stjórnsýsluna almennt og er það í samræmi við reynslu undirritaðs af lögmannsstörfum undanfarin ár. Sem dæmi bíður undirritaður enn úrskurðar frá Úrskurðarnefnd um upplýsingamál vegna kæru sem lögð var fyrir nefndina í október 2022 og því þegar kominn 20 mánaða málsmeðferðartími sem ekki sér fyrir endann á.

Flestir sem upplifa að á þeim sé brotið telja að með kvörtun eða kæru til eftirlitsstjórnvalds eða kærunefndar sé mögulegt með tiltölulega einföldum, ódýrum og skjótum hætti að fá niðurstöðu í mál. Það á að vera einn tilgangur kærumála fyrir stjórnvöldum. Þá getur niðurstaða í kærumáli í mörgum tilvikum verið grundvöllur bótakröfu eða leitt til þess að leyfi sem áður hefur verið hafnað verði gefið eða leyst úr öðrum réttarágreiningi milli einstaklinga og lögaðila innbyrðis eða þessara aðila gagnvart stjórnvöldum. Í mörgum tilvikum snúa ágreiningsmál að mikilvægum hagsmunum einstaklinga eða lögaðila sem geta verið jafnframt verið fjárhagslegir.

Það að leggja fram kæru eða kvörtun snýst í raun ekki lengur um hvort sá sem kæruna leggur fram hafi góðan málstað í höndum heldur er farið að snúast um úthald og fjárhagslega getu viðkomandi. Þar fyrir utan er alls óvíst að úrlausn stjórnvalds feli í sér endalok máls, enda er almennt hægt að bera úrlausnir stjórnvalda undir dómstóla, sem getur hæglega tekið nokkur ár einnig. Í ársskýrslu Hæstaréttar fyrir árið 2023 segir í ávarpi forseta réttarins að málsmeðferðartími Landsréttar í einkamálum sé allt að eitt og hálft ár og við því þurfi að bregðast. Þar er ótalinn sá tími sem málsmeðferðin tekur fyrir héraðsdómi, fyrir áfrýjun máls til Landsréttar, sem getur verið eitt til eitt og hálft ár og jafnvel enn lengri tími.

Þegar framangreint er tekið saman getur málsferðartími máls sem fer í kæruferli innan stjórnsýslunnar, síðan til héraðsdóms og þar á eftir til Landsréttar leikandi verið 4 ár og allt upp 5-6 ár eða lengri í stærri málum. Það liggur í augum uppi að það er með öllu óásættanleg fyrir réttaröryggi og hagsmuni fólks og fyrirtækja í landinu þegar málshraði stjórnvalda er almennt farinn að telja í árum.