Hægt væri að nýta skurðstofur í kringum Höfuðborgarsvæðið betur ef 
þær væru í rekstri einkaaðila. Íbúar svæðanna myndu njóta góðs af því.
Hægt væri að nýta skurðstofur í kringum Höfuðborgarsvæðið betur ef þær væru í rekstri einkaaðila. Íbúar svæðanna myndu njóta góðs af því. — Morgunblaðið/Golli
Hún var áhugaverð fréttin sem birtist í Morgunblaðinu í gær um nýja frjósemisstofu sem til stendur að opna hér á landi.

Hún var áhugaverð fréttin sem birtist í Morgunblaðinu í gær um nýja frjósemisstofu sem til stendur að opna hér á landi. Það eitt og sér er vissulega ánægjulegt og aðdáunarvert, þegar einkaaðilar taka sig til og verja tíma sínum og fjármagni til að byggja upp fyrirtæki í heilbrigðisþjónustu. Það var þó ekki síður áhugavert sem fram kom í máli stofnenda félagsins að mögulega gæti það einnig þjónustað erlenda aðila með því sem kallað er heilbrigðisferðamennska. Það er ekkert því til fyrirstöðu að erlendir aðilar geti nýtt sér þjónustu einkaaðila á Íslandi, hvort sem það er vegna frjósemi eða annarra þátta.

Hér mætti til gamans rifja upp hugmyndir sem Róbert Wessmann kynnti fjárfestum fyrir rúmum áratug, áður en hann stofnaði Alvotech. Þær hugmyndir snerust í stuttu máli um það að einkaaðilar gætu tekið yfir rekstur skurðstofa á sjúkrahúsunum í Keflavík og á Akranesi (sem þá voru að mestu ónýttar og stóðu alls ekki undir þeirri þjónustu sem þeim var ætlað) og gætu með starfsemi þar bæði sinnt íbúum hér á landi sem og erlendum viðskiptavinum sem gætu viljað nýta sér þjónustu þeirra.

Vegna ríkisafskipta og ófrelsis er verðlagið á bandarískum heilbrigðismarkaði löngu orðið snargalið og ekki erfitt að sjá fyrir sér hvernig íslenskar læknastofur gætu laðað til landsins Bandaríkjamenn í leit að hágæða heilbrigðisþjónustu á sanngjörnu verði, en Innherji hefur það fyrir satt að ýmsar aðgerðir og meðferðir kosti margfalt meira vestanhafs en þær gera á Íslandi. Nú þegar spara margir Bandaríkjamenn háar fjárhæðir með því að sækja læknisþjónustu til Mexíkó og ákveðinna landa í Evrópu, en Ísland hefur það m.a. fram yfir önnur Evrópulönd að ferðalagið frá Bandaríkjunum er styttra og tekur t.d. flugið frá Boston og New York enga stund. Þá glímir Mexíkó við orðspors- og öryggisvanda, á meðan Ísland er þekkt fyrir hreinleika, heilbrigði, langlífi – og öryggi.

Stigin hafa verið skref til að fjölga læknanemum hjá HÍ og þá hefur mikill fjöldi ungra Íslendinga skellt sér í læknanám erlendis, einkum í Slóvakíu, svo það gæti allt eins gerst að viðvarandi læknaskortur á Íslandi breyttist skyndilega í offramboð. Þá þyrfti umgjörðin utan um einkarekstur í heilbrigðisgeiranum að vera þannig að þessu efnilega og hámenntaða fólki sé ekki gert það of erfitt að grípa þau viðskiptatækifæri sem þau koma auga á, opna eigin stofu og finna hæfileikum sínum farveg.

Svo þyrfti vitaskuld að búa þannig um hnútana að sjúkratryggingakerfið og einkareknu heilbrigðisfyrirtækin styðji hvað við annað. Mætti kannski byggja á módelinu sem notað hefur verið í Singapúr en þar hefur tekist að virkja markaðsöflin og virkja ábyrgð fólks á eigin heilsu, en líka strengja öryggisnet sem grípur þá sárafáu sem eru bjargarlausir. Þykir heilbrigðiskerfi Singapúr með þeim bestu í heimi og þar eru útgjöld til heilbrigðismála samt með því lægsta sem þekkist.