Róbert Guðfinnsson athafnamaður er gestur Dagmála í dag.
Róbert Guðfinnsson athafnamaður er gestur Dagmála í dag. — Morgunblaðið/Hallur Már
Núverið lauk líftækni­fyrirtækið Genís á Siglu­firði við hlutafjáraukningu upp á 1,1 milljarð króna. Við aukninguna er heildar­virði þess metið á 23 milljarða króna.

Stefán E. Stefánsson
ses@mbl.is

Þetta staðfestir Róbert Guðfinnsson, stofnandi fyrirtækisins og stjórnarformaður í samtali í Dagmálum sem birt eru á mbl.is í dag. Sjálfur fer Róbert með 70% eignarhlut í félaginu.

Meðal nýrra fjárfesta í fyrirtækinu er Baldvin Björn Haraldsson, lögmaður. Þá leggur Andri Sveinsson, sem var einn nánasti samverkamað- ur Björgólfs Thors Björgólfssonar í Novator einnig nýtt fjármagn inn í fyrirtækið en hann kom að hlutafjáraukningu í Genís sem nam 2,4 milljörðum króna árið 2022. Athygli vekur að Baldvin Björn og Andri hafa báðir verið atkvæðamiklir á vettvangi líftæknifyrirtækisins Kerecis og leystu báðir út milljarða hagnað af fjárfestingu sinni í því fyrirtæki við sölu fyrirtækisins til Coloplast í ágúst á síðasta ári.

Aðspurður segir Róbert ekki útilokað að áhugi á Genís hafi aukist í kjölfar kaupa Coloplast á Kerecis en kaupverðið nam nærri 170 milljörðum króna. Bendir hann á að þeir sem hafi þekkingu á líftæknigeiranum séu líklegri til þess að geta lesið í gögnin sem tengjast fyrirtækinu og séð um leið þau miklu tækifæri sem þar leynast. Ítrekar hann í samtalinu í Dagmálum að fjárfesting í fyrirtæki á borð við Genís feli í sér mikla áhættu, en ávöxtunin geti einnig orðið góð í hlutfalli við það.

Genís hefur allt frá stofnun árið 2005 unnið að því að finna leiðir til hagnýtingar á kítíni og kítínafleiðum sem unnar eru úr rækjuskel sem til fellur við rækjuvinnslu á Siglufirði. Róbert bendir þó á að kítín sé að finna víðar í náttúrunni og að fyrirtækið sé ekki bundið að aðföngum sem til falla við rækjuvinnsluna á Siglufirði.

Þróunarverkefni fyrirtækisins í dag lúta að nýtingu kítínsykra í fæðubótarefnum, lyfjaframleiðslu og beinígræðslu. Þá hefur fyrirtækið lengi framleitt og selt hið svokallaða Benecta sem talið er að hafi jákvæð áhrif á liði líkamans og vinni sömuleiðis gegn bólgumyndun.

Meðal þess sem fyrirtækið vinnur nú að rannsóknum á er efni sem smurt er á liði þar sem gerviliðir eru græddir í fólk, m.a. í hnjá- og mjaðmaskiptum. Lúta tilraunir fyrirtækisins að því að lengja endingartíma slíkra gerviliða svo að þeir geti mögulega nýst ævilangt í stað t.d. 15 ára eins og gjarnan er miðað við í dag. Segir Róbert markaðinn fyrir lausnir af þessu tagi gríðarlega stóran og að hann fari vaxandi ár hvert.