RÚV Farið hefur verið yfir öryggisráðstafanir síðustu daga.
RÚV Farið hefur verið yfir öryggisráðstafanir síðustu daga. — Morgunblaðið/Eggert
Sýn hefur virkjað þverfaglegt teymi sérfræðinga til að fara yfir hvort hættu sé að finna í kerfi Sýnar í kjölfar netárásarinnar sem Árvakur varð fyrir síðastliðna helgi. Ríkisútvarpið hefur einnig farið yfir sínar netöryggisráðstafanir.

Birta Hannesdóttir
birta@mbl.is

Sýn hefur virkjað þverfaglegt teymi sérfræðinga til að fara yfir hvort hættu sé að finna í kerfi Sýnar í kjölfar netárásarinnar sem Árvakur varð fyrir síðastliðna helgi. Þetta segir Gunnar Guðjónsson, framkvæmdastjóri yfir rekstri/upplýsingatæknisviði Sýnar, í skriflegu svari til Morgunblaðsins.

Á sunnudaginn varð Árvakur, útgáfufélag Morgunblaðsins, fyrir stórfelldri netárás þar sem gögnum úr innra kerfi hans var læst og þau dulkóðuð, ekkert bendir þó til þess að upplýsingum hafi verið lekið.

„Ógnir tengdar netárásum er hægt að lágmarka með markvissum fyrirbyggjandi hætti en erfitt er að sjá fyrir hvar árásaraðilar bera næst niður [...]. Við erum því alltaf að reyna að besta varnir samstæðunnar og þroska viðbrögð við hvers kyns árásum og útföllum sem kunna að verða. Þannig að síðustu sólarhringar okkar hafa eðlilega litast af því sem þið upplifðuð svo harkalega,“ segir Gunnar og sendir Árvakri baráttukveðjur.

Ríkisútvarpið hefur einnig farið yfir sínar netöryggisráðstafanir í kjölfar netárásarinnar segir Stefán Eiríksson útvarpsstjóri í samtali við Morgunblaðið.

„Við byggjum það bara á upplýsingum um hvar veikleikarnir fundust hjá Árvakri til að sjá hvort það megi sjá eitthvað sambærilegt hjá okkur,“ og bætir við að ekki hafi fundist sambærilegir veikleikar í netöryggiskerfi RÚV og óskar Árvakri jafnframt velgengni.