Urriðaholt Svona munu íbúðirnar líta út sem ÞG Verk er að reisa við Grímsgötu í Urriðaholtinu en allar íbúðir hafa nú þegar verið seldar.
Urriðaholt Svona munu íbúðirnar líta út sem ÞG Verk er að reisa við Grímsgötu í Urriðaholtinu en allar íbúðir hafa nú þegar verið seldar. — Tölvuteikning/ÞG Verk
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Verktakafyrirtækið ÞG Verk hefur hraðað uppbyggingu nýrra verkefna vegna góðrar sölu á árinu.

Baldur Arnarson
baldura@mbl.is

Verktakafyrirtækið ÞG Verk hefur hraðað uppbyggingu nýrra verkefna vegna góðrar sölu á árinu.

Þorvaldur Gissurarson, forstjóri ÞG Verks, segir óvænta eftirspurn frá Grindvíkingum, í kjölfar hamfaranna síðastliðið haust, hlutdeildarlán og takmarkað framboð af nýjum íbúðum meðal skýringa á góðri sölu að undanförnu. Vegna lítils framboðs, og væntinga um vaxtalækkanir, geri markaðurinn ráð fyrir að verð nýrra íbúða muni hækka á næstunni.

Þorvaldur segir fyrirtækið hafa selt um 130 íbúðir á fyrri hluta ársins en ætla má að söluverðmæti þeirra sé tæpir 10 milljarðar króna. Fram kom í Morgunblaðinu í lok mars að fyrirtækið hefði selt rúmlega 100 íbúðir á fyrsta ársfjórðungi.

Í fyrsta lagi séu óseldar um 16 íbúðir af um 100 í Vogabyggð, þar með talið í Kuggavogi.

Í öðru lagi séu óseldar um 10 íbúðir af 162 í Sunnusmára 1-13 suður af Smáralind. Í þriðja lagi séu 33 íbúðir uppseldar á Grímsgötu 2-4 í Urriðaholti.

91% tilbúið til afhendingar

Samanlagt eru því 269 af 295 íbúðum í þessum húsum seldar. Samsvarar það um 91% íbúða sem tilbúnar eru til afhendingar.

Sem áður segir hyggst ÞG Verk hraða framkvæmdum við nýjar íbúðir vegna eftirspurnar. Á haustmánuðum hyggst félagið hefja sölu 55 íbúða í Baughamri í Skarðshlíð í Hafnarfirði og 80 íbúða í Urriðaholtsstræti fyrir 55 ára og eldri.

Næstu verkefni þar á eftir eru fjölbýlishús í Þorraholti í Garðabæ og á Stálhöfða í nýju íbúðahverfi á Ártúnshöfða í Reykjavík; samtals eru það um 400 íbúðir.

ÞG Verk er eitt umsvifamesta, ef ekki umsvifamesta, verktakafyrirtæki landsins, og má til dæmis nefna að árið 2022 seldi fyrirtækið um 200 íbúðir og áætlaði

Morgunblaðið þá að söluverðmæti þeirra væri um 16 milljarðar. Þá hefur fyrirtækið byggt um 650 íbúðir í Vogabyggð og Smárabyggð og eru aðeins 26 óseldar.