Vasaþjófnaður hefur færst í vöxt á helstu ferðamannastöðum Íslands, sem hefur leitt til aukinnar áherslu á forvarnir innan ferðaþjónustunnar.

Viktoría Benný B. Kjartansdóttir
viktoria@mbl.is

Vasaþjófnaður hefur færst í vöxt á helstu ferðamannastöðum Íslands, sem hefur leitt til aukinnar áherslu á forvarnir innan ferðaþjónustunnar. Landverðir hafa bætt eftirlit sitt, meðal annars með skiltum sem vara ferðamenn við hættunni.

„Það er alltaf brugðist við tilkynningum þegar þær berast, ef það er tilkynnt um vasaþjófnað, hvort sem er í þéttbýli, dreifbýli eða á ferðamannastöðum, þá er einhver sendur á staðinn,“ segir Jón Gunnar Þórhallsson, varðstjóri hjá lögreglunni á Suðurlandi, spurður um viðbrögð lögreglunnar við vandanum. Jón segir lögregluna hafa reynt að bregðast við með auknu eftirliti, en erfitt sé að eiga við vandann.

Dagur Jónsson yfirlandvörður tekur undir þetta og segir að lögreglan hafi verið sýnileg á þeim ferðamannastöðum þar sem vasaþjófnaður á það til að vera hvað mestur. Það er á fjölförnum stöðum eins og við Gullfoss, Geysi og á Þingvöllum. Dagur segir sýnileika lögreglunnar og landvarðanna hjálpa til við að sporna við vasaþjófnaði.

„Eins og núna um daginn þá voru þrír ungir karlmenn að stela af fólki, svo eru líklega einhverjir aðrir sem taka við dótinu og við vitum ekki hverjir það eru,“ segir Dagur. „Þetta virðist vera fólk sem kemur að utan, þetta er ekki fólk sem er búsett á Íslandi,“ bætir hann við.

„Það eru allir að reyna að gera sitt besta,“ segir Dagur og bætir við að flestir stóru ferðaþjónustuaðilarnir hafi upplýst ferðamenn um hættuna.

Að sögn Dagbjarts Brynjarssonar, sérfræðings í öryggismálum hjá Ferðamálastofu, er aukið eftirlit mikilvægt til að mæta þessum vanda. Hann nefnir að þjóðgarðsverðir hafi verið á varðbergi og sýnilegir á ferðamannastöðum. „Það mikilvægasta er að láta ferðamenn vita af stöðunni og að lögreglan verði meira sýnileg,“ segir Dagbjartur. „Þetta er ekki að hætta, þannig að ég myndi telja betra að gefa frekar í, sérstaklega með því að lögreglan verði sýnilegri á þessum stöðum,“ bætir hann við.