Uppbygging Nýtt hverfi kringum Borg í Grímsnesi er að rísa og mun það á endanum líta svona út fullbyggt.
Uppbygging Nýtt hverfi kringum Borg í Grímsnesi er að rísa og mun það á endanum líta svona út fullbyggt. — Ljósmynd/gogg.is
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Hugmyndin um borg í sveit er að efla byggð í sveitarfélaginu og bjóða upp á lóðir, sem skort hefur síðustu árin,“ segir Iða Marsibil Jónsdóttir, sveitarstjóri Grímsnes- og Grafningshrepps.

Dóra Ósk Halldórsdóttir
doraosk@mbl.is

„Hugmyndin um borg í sveit er að efla byggð í sveitarfélaginu og bjóða upp á lóðir, sem skort hefur síðustu árin,“ segir Iða Marsibil Jónsdóttir, sveitarstjóri Grímsnes- og Grafningshrepps, um mikla fyrirhugaða uppbyggingu á svæðinu í kringum Borg í Grímsnesi á næstu misserum. „Árið 2021 var farið í uppboð á þeim lóðum sem til voru á Borg og færri fengu en vildu.“

Iða segir að strax hafi verið ákveðið að hugsa svæðið sem blöndu af lóðum fyrir íbúðabyggð auk lóða fyrir atvinnuhúsnæði, verslun og þjónustu en gatnagerð á svæðinu er að mestu lokið.

Núna hafa verið boðnar út ellefu lóðir á svokölluðu athafnasvæði sem ætlað er fyrir léttan iðnað. Seinna í sumar verða boðnar út lóðir fyrir verslun og þjónustu.

„Við erum búin að skipuleggja samhliða þessu nýtt íbúðahverfi, svokallað miðsvæði þar sem gert er ráð fyrir sex verslunar- og þjónustulóðum og einni lóð fyrir hótel. Þar verður líka stór hleðslustöð fyrir bíla og eldsneytisstöð á stóru plani. Það er gríðarleg umferð hérna og um 2.500 bílar aka hér framhjá á hverjum degi.“

Í heildina er gert ráð fyrir 79 lóðum fyrir íbúðabyggð, með 160-260 íbúðum, en núna í fyrsta fasa fara ellefu íbúðalóðir í sölu með haustinu. „Þessi íbúðakjarni hefur verið að byggjast upp jafnt og þétt frá síðustu aldamótum og við höfum fundið fyrir áhuga fólks á að búa í sveitinni. Stærsta sumarhúsabyggð landsins er hér, eða um 3.300 sumarhús, og mikilvægt að auka við þjónustuna.“

Níu holu golfvöllur

Þá er einnig búið að hanna 9 holu golfvöll á svæðinu, sem er lokahnykkur verkefnisins í byrjun næsta árs. „Við ætluðum fyrst að hafa 18 holu golfvöll en ákváðum að taka helminginn af því svæði fyrir stærri lóðir þar sem heimilt væri að vera með léttan landbúnað,” segir Iða og bætir við að við golfvöllinn sé einnig gert ráð fyrir þjónustu, m.a. golfskála með veitingasölu. „Það er aldrei nóg af golfvöllum.“

Iða segir marga möguleika fyrir fólk sem vill vera nær náttúrunni í þessu nýja hverfi. „Hér er hægt að ganga frá íbúðahverfinu yfir á golfvöllinn og í alla þjónustu. Við sjáum fyrir okkur sjálfbært hverfi með mikla möguleika.“