Landsýn Horft af Skjálfandaflóa til fjalla á skaganum sem segir frá í bókinni. Fremst á myndinni djarfar fyrir húsunum í Flatey, sem fór í eyði árið 1967.
Landsýn Horft af Skjálfandaflóa til fjalla á skaganum sem segir frá í bókinni. Fremst á myndinni djarfar fyrir húsunum í Flatey, sem fór í eyði árið 1967.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Göngugarpur á Grenivík hefur skrifað bækur um Kinnar- og Víknafjöll. Hann segir Gjögraskaga vera nafn með tignarleika og reisn. Dýrð fjallanna er rómuð og í nýjustu bókinni segir frá landslagi og leiðum á Flateyjardal og í Náttfaravíkum.

Sigurður Bogi Sævarsson
sbs@mbl.is

Alls 55 fjöll í allri sinni dýrð eru til frásagnar í nýrri bók, Kinnar- og Víknafjöll með mínum augum eftir Hermann Gunnar Jónsson á Grenivík. Þetta er þykkt rit í plastkápu, 320 blaðsíður, sem þó hæfir vel í poka ferðamanna; ætlað til leiðsagnar um áhugavert svæði. Ekki síður henta bækurnar þeim sem kjósa að skoða landið heima í stofu því landakort, texti og ljósmyndir spila saman og skapa heildarsýn. Þarna er undir skaginn milli Eyjafjarðar og Skjálfandaflóa norðan Víkur- og Ljósavatnsskarðs.

Segja má að skagi þessi sé klofinn í tvennt af Flateyjardal og nú segir Hermann frá fjöllunum austan hans. Frá tindum og toppum vestan dals segir hann í bókinni Fjöllin í Grýtubakkahreppi sem kom út fyrir nokkrum árum.

Hermann segir bókaskrif hafa sprottið af fjallabrölti sínu; áhugamáli sem tekið hafi hann sterkum tökum á síðustu árum. Viðmælandi okkar býr á Grenivík sem er innan marka Grýtubakkahrepps og árið 2009 gerði hann að takmarki sínu að ganga á öll fjöll í sveitarfélaginu.

„Þegar ég var langt kominn með að ganga á öll fjöll Grýtubakkahrepps, sem ég skráði 103 talsins, var gaukað að mér hvort ekki væri rétt að gera eitthvað með þær heimildir sem safnast hefðu á þessari vegferð. Ég keypti hugmyndina og eftir ráðfæringar við gott fólk sem reynslu hafði af bókarskrifum varð úr bókin Fjöllin í Grýtubakkahreppi , sem fékk góðar viðtökur. Seinni bókina ákvað ég ekki endanlega að skrifa fyrr en ég var langt kominn með þær göngur,“ segir Hermann. Hann er Bárðdælingur að uppruna en hefur búið á Grenivík síðastliðin 30 ár. Var lengi til sjós en er nýlega kominn í land og starfar nú við smíðar.

„Það að hafa afgreitt Grýtubakkafjöllin kveikti svolítið í mér með að gera meira, ef svo má segja, svo úr varð að ég ákvað að ganga á öll hin fjöll skagans og afrakstur þess er bókin sem nú var að koma út. Titill bókarinnar finnst mér mjög lýsandi um innihaldið þar sem ég lýsi Kinnar- og Víknafjöllum með mínum augum,“ tiltekur Hermann og heldur áfram:

„Þarna segir frá því sem fyrir augu ber á þessum slóðum en í báðum bókum eru persónulegar lýsingar á ferðum mínum á fjöllin. Einnig má nefna að ég lýsi gönguleiðum um Látrastönd, Keflavík og Fjörður í fyrri bókinni auk fleiri gönguleiðalýsinga. Í þeirri nýrri er svo líka lýst leiðum vestan úr Fjörðum austur á Flateyjardal, Náttfaravíkur og þaðan inn í Kinn.“

Skaginn á milli Eyjafjarðar og Skjálfanda skiptist á milli Grýtubakkahrepps og Þingeyjarsveitar. Ekki hefur verið til eitt nafn um þetta svæði fyrr en á seinni árum, sbr. að árið 2010 var kosið á milli fjögurra nafna á skagann samhliða sveitarstjórnarkosningum. Þá var um að velja nöfnin Gjörgraskagi, Flateyjarskagi, Náttfaraskagi og Reynisnes. Íbúar Grýtubakkahrepps vildu flestir nafnið Gjögraskagi en í Þingeyjarsveit var mest stemning fyrir Flateyjarskaga og því mætli Örnefnanefnd með. Hermann kaus að nota bæði nöfnin í nýju bókinni; Gjögraskagi/Flateyjarskagi. Í hugskoti hans breiðir Gjögraskaganafnið sig yfir allan skagann. Hermann telur og finnst besta mál að jafnvel bæði nöfnin lifi áfram enda tengja íbúar umhverfis skagann svo misjafnlega við heitin.

„Yfir nafninu Gjögraskagi finnst mér tignarleiki og reisn. Þarna er tindóttur Gjögrafjallgarðurinn allar götur inn á Kaldbak með stórskorin og reisuleg fjöll rist í sundur með hömrum gyrtum tröllaskálum og klettabeltum. Á milli eru svo friðsælir grasi grónir dalir þar sem ríkir dýrð í dauðaþögn. Eftir viðkynningu á austursvæðinu síðustu árin þá blasir við mér fegurð og innileiki á Flateyjardal og Náttfaravíkum, með hinum reisulegustu Kinnar- og Víknafjöllum,“ segir Hermann þegar hann ræðir um fjöllin á skaganum.

Af nægu er að taka þegar göngugarpurinn er spurður um fjöllin sem hann hefur nú gert að umfjöllunarefni í tveimur bókum og hvort einhver þar séu öðrum minnisstæðari. Úr bókinni Fjöllin í Grýtubakkahreppi kýs hann að tiltaka ferðirnar á Bollafjall og Þórurnar. Að ganga eftir Gjögrinum, sem er nyrst á skaganum við mynni Eyjafjarðar, í upphafi nætur þegar sólin hneig í hafið hafi sömuleiðis verið einstakt.

„Í Kinnar- og Víknafjöllunum þá myndi ég nefna með sama hætti ferðirnar á Mosahnjúk og svo ferð á Dalafjall. Heillandi ferðir. Ekki endilega hæstu fjöllin en stemning og aðstæður voru töfrandi.“