Ábúendum í Fagraskógi við Eyjafjörð voru nú í vikunni veitt umhverfisverðlaun Hörgársveitar 2024, samkvæmt ákvörðun skipulags- og umhverfisnefndar sveitarfélagsins.
Á bænum búa þau Stefán Magnússon og Sigrún Jónsdóttir og reka þar mektarbú. Best er Fagriskógur þó þekktur fyrir að þar ólst upp Davíð Stefánsson (1895-1964), þjóðskáldið sem jafnan kenndi sig við bæinn.
Leiðin út með vestanverðum Eyjafirði, Ólafsfjarðarvegur, liggur við Fagraskóg hvar stendur reistulegt íbúðahús, reist árið 1929. Rétt sunnan þess er Davíðslundur, minningarreitur skáldsins góða.