Flugstjóri Með flugvellinum skapast þær teningar út á land sem Reykjavík þarf svo hún sé raunveruleg höfuðborg, segir Jóhann meðal annars hér í viðtalinu. Í stofunni heima þar sem er veggmynd af DC 6
Flugstjóri Með flugvellinum skapast þær teningar út á land sem Reykjavík þarf svo hún sé raunveruleg höfuðborg, segir Jóhann meðal annars hér í viðtalinu. Í stofunni heima þar sem er veggmynd af DC 6 — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Flugið heillaði mig strax sem strák og í sjálfu sér kom aldrei neitt annað til greina en leggja fagið fyrir sig,“ segir Jóhann Skírnisson flugstjóri.

Sigurður Bogi Sævarsson
sbs@mbl.is

„Flugið heillaði mig strax sem strák og í sjálfu sér kom aldrei neitt annað til greina en leggja fagið fyrir sig. Þekking á landinu og aðstæðum kemur með tímanum og hún hefur verið mér mikilvæg í fluginu,“ segir Jóhann Skírnisson flugstjóri. Nú á föstudag lýkur hann ferli sínum í fluginu sem spannar alls 39 ár. Allan þann tíma hefur Jóhann verið einkum í innanlandsfluginu; fyrst hjá Flugfélagi Norðurlands en frá 1997 hjá Flugfélagi Íslands, nú Icelandair.

Jóhann er frá bænum Skarði í Dalsmynni norður á Gjögraskaga. Hann ólst þar upp í stórum hópi systkina og áhuginn beindist fljótt að fluginu.

„Eitthvað sem var bókstaflega í undirmeðvitundinni gerði mig áhugasaman um þetta og ég byrjaði að árið 1976 að læra flug. Fyrst eftir að ég lauk flugnámi var ég kennari í faginu en sumarið 1987 færð ég mig yfir til Flugfélags Norðurlands sem þá var og hét. Á þessum árum var mikil árstíðasveifla í fluginu en ég hef verið svo heppinn að hafa aldrei misst vinnuna vegna samdráttar,“ segir Jóhann.

Hjá Flugfélagi Norðurlands munstraðist Jóhann á vélar af gerðinni Piper Chieftain og flaug á þeim oft og víða, ekki síst í sjúkraflugi. Á þessum tíma var flugmaðurinn alltaf einn og enginn sjúkraflutningamaður með eins og nú er.

„Þá gat tekið á að heyra í óttaslegnu og þjáðu fólkinu þegar ísinn þeyttist af skrúfunum í skrokk vélarinnar í illviðrum og ókyrrð. Þessi flugvélategund var með bulluhreyfla og þrisvar sinnum man ég eftir að hafa lent með annan hreyfil bilaðan,“ segir Jóhann, sem flaug þó allra mest á Twin Otter. Reynslan af slíkum vélum er hvarvetna góð enda eru þær sterkbyggðar og duga vel við erfiðar aðstæður.

„Otterinn er mín vél; ég á að baki þúsundir flugtíma á slíkum. Þetta eru vélar sem klikkuðu ekki við hinar erfiðustu aðstæður. Ég á minningar um margar frábærar ferðir til og frá Akureyri út í Grímsey, til Vopnafjarðar, Þórshafnar, austur á Egilsstaði og vestur á Ísafjörð. Á þeim stöðum urðu bæði íbúar og samstarfsfólk vinir okkar flugmanna, sem var dýrmætt,“ segir Jóhann.

Í flugrekstri á Akureyri hafa verkefni á Grænlandi alltaf verið stór póstur. Sé flogið í hánorður frá Eyjafirði er liðlega tveggja stunda ferð á Twin Otter að ströndum hins víðfeðma lands, sem líkja má við óendanleika alls. Þá er enn margra stunda flug beint í norður allt til nyrsta lands heims.

„Þjónusta við til dæmis vísindamenn og danska herinn hefur alltaf verið stórt verkefni í flugþjónustu þarna. Vegalengdir eru miklar og fyrir flugmenn er þarna margt að læra. Ég segi annars alltaf að þótt maður lendi í ýmsum krefjandi aðstæðum í fluginu hér heima, til dæmis vegna veðurs eða bilana, þá er slíkt yfirleitt frekar léttvægt í samanburði við Grænland. Þar þurfti maður svo oft alfarið að treysta á sjálfan sig og þekkingu á aðstæðum, enda var leiðsögutækni mjög takmörkuð og flugvellir frumstæðir. Og stundum auðvitað alls engir; oft er lent á snjó og jökulbreiðum á Twin Otter með skíðum,“ segir Jóhann og heldur áfram:

„Í innanlandsfluginu hefur líka orðið mikil viðhorfsbreyting hvað varðar öryggismál. Fyrr á árum urðu hryggileg slys í fluginu sem tóku mannslíf. Hafa verður í huga að á þessum tíma var allur búnaður flugvéla ekki jafn fullkominn og nú, veðurspár óáreiðanlegar eða ekki fyrir hendi og stundum voru flugmenn undir mjög miklum þrýstingi um að fara í loftið, jafnvel þótt veður byði alls ekki upp á slíkt. Nú hafa verið settar stífari reglur um hvenær flugfært sé eða ekki, flugmenn eru betur þjálfaðir, tækin eru nákvæmari og vélarnar betri. Slysunum hefur líka fækkað. Þó er að mörgu að hyggja í þessu, samanber gps-tæknina sem nú er mikið notuð við leiðsögn í loftinu. Hætta er talin á því að Rússar séu að trufla þá tækni og því þurfa aðrir möguleikar að vera fyrir hendi. Þetta er raunar eins og alltaf gildir í fluginu; þú þarf alltaf að hafa undankomuleið og vera búinn að gera plan B og C fari svo að annað bregðist.“

Jóhann fór að fljúga Fokker 50 hjá Flugfélagi Íslands um aldamótin. Þær vélar voru í útgerð til 2017 en þá voru Dash 8-vélarnar teknar við. Þær vélar hafa reynst afar vel svo sem í Grænlandsflugi og opnað nýja möguleika í því.

„Ekki síður hafa þessar vélar verið góðar í innanlandsfluginu frá Reykjavíkurflugvelli, sem ég tel afar mikilvægan hlekk fyrir allt gangvirki íslensks samfélags. Með flugvellinum skapast þær tengingar út á land sem Reykjavík þarf svo hún sé raunveruleg höfuðborg. Verði innanlandsflugið fært til dæmis á Keflavíkurflugvöll þýðir slíkt meðal annars að leggirnir í fluginu lengjast, sem aftur hækkar verð flugmiða sem ég ekki viss um að fólk vilji,“ segir Jóhann – nú þegar hann stefnir inn á braut til lokalendingar eftir farsælan flugferil og 18.250 flugtíma.