Staðan í apríl Búið var að setja upp útveggi á vestustu einingunni, eða fingrinum.
Staðan í apríl Búið var að setja upp útveggi á vestustu einingunni, eða fingrinum. — Morgunblaðið/Baldur
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Uppsetningu útveggja á nýjum meðferðarkjarna Landspítalans miðar vel og er búið að klæða tvo af fimm hlutum byggingarinnar.

Baldur Arnarson
baldura@mbl.is

Uppsetningu útveggja á nýjum meðferðarkjarna Landspítalans miðar vel og er búið að klæða tvo af fimm hlutum byggingarinnar.

Ásbjörn Jónsson, sviðsstjóri framkvæmdasviðs Nýs Landspítala ohf. (NLSH), segir undirbúning að uppsetningunni hafa hafist í október síðastliðnum og að áformað sé að ljúka henni í janúar eða febrúar á næsta ári.

Fram kom í Morgunblaðinu 15. desember síðastliðinn að fyrsta útveggjaeiningin var sett upp föstudaginn 1. desember. Nánar tiltekið á fyrstu hæð suðurenda vestustu stangarinnar, gegnt BSÍ, en hlutar byggingarinnar eru einnig nefndir stangir. Fjórar stangirnar eru sex hæðir, auk 2ja hæða kjallara, en fimmta stöngin á milli þeirra er lægri bygging.

„Það eru nú um 50 manns að störfum í uppsetningarteymunum. Veðurfar hefur verið nokkuð hagstætt og hefur úrkoma ekki verið vandamál. Þó getur vindur haft áhrif enda er verið að hífa mikið með krönum. Það hafa ekki margir vinnudagar fallið niður vegna veðurs,“ segir Ásbjörn.

Útveggjaeiningarnar eru festar og skrúfaðar upp á stálfestingar sem eru steyptar í veggina. Hver eining er í senn útveggur, gluggi og klæðning. Saman mynda einingarnar ytra byrði hússins ef frá er talinn frágangur á þaki.

Spurður hvort slíkir útveggir hafi verið settir upp á Íslandi áður segir Ásbjörn að slíkir útveggir hafi meðal annars verið settir á Turninn á Höfðatorgi í Reykjavík og á endurnýjaða vesturálmu Orkuveitu Reykjavíkur.

Framkvæmdir við uppsteypu meðferðarkjarnans hófust í upphafi vetrar 2020 og lauk þeim í lok mars á þessu ári. Heildarmagn steypu í meðferðarkjarnann er um 55 þúsund rúmmetrar. Hann er um 70 þúsund fermetrar og því ein stærsta bygging landsins. Þá verða útveggirnir samtals um 30 þúsund fermetrar sem er sennilega Íslandsmet, að því er fram kom í Morgunblaðinu 15. desember sl.

Nýi Landspítalinn ohf. samdi við litháíska útveggjaverktakann Staticus um hönnun, framleiðslu og uppsetningu á útveggjum meðferðarkjarnans.