Bátsleifar Erfitt er að segja til um aldur naustsins í verbúðum á Höfnum á Skaga. Við erum að skjóta á að það sé frá 16.-17. öld, segir Ásta í viðtalinu.
Bátsleifar Erfitt er að segja til um aldur naustsins í verbúðum á Höfnum á Skaga. Við erum að skjóta á að það sé frá 16.-17. öld, segir Ásta í viðtalinu.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Þetta er annað árið í þessari stóru rannsókn á verbúðum á Höfnum á Skaga. Í fyrra vorum við aðallega í því að grafa í verbúðunum sjálfum og fara niður í gegnum aldirnar þar,“ segir Ásta Hermannsdóttir, verkefnastjóri fornleifa hjá Byggðasafni Skagafjarðar.

Dóra Ósk Halldórsdóttir
doraosk@mbl.is

„Þetta er annað árið í þessari stóru rannsókn á verbúðum á Höfnum á Skaga. Í fyrra vorum við aðallega í því að grafa í verbúðunum sjálfum og fara niður í gegnum aldirnar þar,“ segir Ásta Hermannsdóttir, verkefnastjóri fornleifa hjá Byggðasafni Skagafjarðar, en nýlega fundust merki um bátsleifar, sem er tímamótafundur þar sem ekki hefur áður fundist bátur sem ekki er í kumli áður.

Hún segir að í ár hafi verið ákveðið að stækka svæðið talsvert til að ná öllum hólnum sem þau voru að vinna á. Við höfum grun um að það gæti verið naust þarna suðvestast á svæðinu. „Það kom á daginn að svo er, en það er erfitt að segja til um aldur naustsins. Við erum að skjóta á að það sé frá 16.-17. öld, sem er þá með yngstu minjunum á svæðinu.“

Ásta segir að gríðarlega mikið sé farið af landi vegna sjávarrofs. „Það má gera ráð fyrir því að elstu naustin hafi verið við sjó þá og að það sé líklega allt farið og bara yngstu fasarnir eftir.“

Yfir 4,4 metra langur bátur

Hún segir að líklega hafi þrjú naust verið grafin upp hér á landi og ekki hafi verið vísbendingar um báta í þeim að því er vitað sé. „En hér eru ljósar vísbendingar. Kjölfarið á bátnum er greinilegt og fremsti hlutinn sést á því að þar raðast bátasaumurinn í gólfið. Þannig að það er alveg öruggt að þarna hefur verið bátur sem líklega hefur verið skilinn þarna eftir. En hann er mjög illa farinn. Það voru þarna viðarleifar fyrst en það er búið að vera mjög þurrt og erfitt að halda svæðinu vinnuhæfu. Þannig að viðarleifarnar voru fljótar að hverfa og það verður ekki hægt að gera neina viðargreiningu.“

Fá betri heildarmynd

Hún segir að það sé sýnilegt að endinn á naustinu sem hefur snúið að sjónum hefur rofnað svo ekki hefur öll lengd bátsins varðveist. „Það sem við höfum grafið upp sýnir lengd upp á 4,4 metra, en það er líklegt að báturinn hafi verið nokkuð lengri en það.“ Hún segir að núna sé verið að taka inn alla naglana og teikna þetta allt upp. „Þegar við erum búin að því er mögulega hægt að reikna út hvað báturinn hafi líklega verið breiður og átta sig betur á stærðinni á bátnum.“

Mikið af hvalbeinum

Ásta segir að auk naustanna sé verið að vinna í svæði á bak við húsin sem snýr frá sjónum. „Það er útivinnusvæði og öskuhaugur og þar höfum við fundið gríðarlega mikið af fiskibeinum í elstu lögunum. Það er líka að koma mjög mikið upp af hvalbeinum og við erum að fá þessa dagana fyrstu rannsóknir á beinum sem fundust í fyrra. Við vorum bara núna að draga upp stóra hryggjarliði og rifbein. Það er líka sérstakt að þau bein eru oft í veggjum húsanna, og spurning hvort þau hafi verið notuð sem hluti af byggingarefni húsanna, eða hvort þau hafi haft einhverja merkingu eða hvort tveggja. Sum beinin eru með skurðarförum, sem getur bent til verkunar á hvölunum.

En í fyrra fundum við bein sem okkur fannst líklegast að hefði verið notað sem skurðarborð, eða bretti.“

Núna er hópurinn að færa sig inn í verbúðirnar sjálfar frá útivinnusvæðinu til að nýta þessar síðustu vikur til að koma búðunum lengra niður í tímann og finna eldri minjar í íverurýmunum sjálfum.

Höf.: Dóra Ósk Halldórsdóttir