Árbæjarsafn Halldóra Björg starfar við móttöku gesta sem sækja safnið heim og svarar flestu sem spurt er um.
Árbæjarsafn Halldóra Björg starfar við móttöku gesta sem sækja safnið heim og svarar flestu sem spurt er um. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
„Einhver algengasta spurning krakkanna sem hingað koma er sú hvort ég sjálf hafi verið til í gamla daga. Umhverfið hér vekur mikinn áhuga barnanna og hughrifin eru greinilega mjög sterk,” segir Halldóra Björg Haraldsdóttir Evensen.

Sigurður Bogi Sævarsson
sbs@mbl.is

„Einhver algengasta spurning krakkanna sem hingað koma er sú hvort ég sjálf hafi verið til í gamla daga. Umhverfið hér vekur mikinn áhuga barnanna og hughrifin eru greinilega mjög sterk,” segir Halldóra Björg Haraldsdóttir Evensen.

Hún starfar nú við móttöku gesta í Árbæjarsafni í Reykjavík og er þar á sínu fjórða sumri. Starfið felst í því að svara spurningum gesta sem á safnið koma og sjá jafnframt til þess að allt sé í besta standi; umhverfi og aðstæður. Fjöldi gesta kemur dag hvern á safnið, sem Halldóra lýsir sem vinsælum fjölskyldustað.

„Börn sem hingað koma með foreldrum sínum eða þá ömmu og afa; þetta er stór hópur safngesta og afar skemmtilegur. Árbæjarsafn með öllum sínum sögum og fróðleik höfðar sterkt til barnanna. Svo er líka okkar sem hér störfum að segja frá þeim munum sem hér er að finna. Einnig byggingunum; torfhús eru börnunum framandi og einnig erlendum ferðamönnum, til dæmis af skemmtiferðaskipum, sem hér eru mikið,” segir Halldóra Björg.

Hún segist jafnan hafa haft mikinn áhuga á safnamenningu og sögu og því sé starfið á Árbæjarsafni alveg fyrir sig.

„Við skiptum safnasvæðinu hér á milli okkar; erum hvert með sinn reit eða hús á vissum tímum. Þegar þú hittir mig var ég til dæmis við gamla Árbæinn og torfkirkjuna sem alltaf vekja eftirtekt, rétt eins og klæðaburðurinn,” segir Halldóra sem var í vinnukonufötum fyrri tíðar þegar blaðamaður tók af henni mynd.

Íslenskur þjóðbúningur getur svo verið klæðnaður á öðrum dögum því Árbæjarsafn er staður fjölbreyttrar menningar í samfélagi sem er í örri þróun á tímum tækni og fjölmenningar.