Í eldhúsinu Kvenfjelagasamband Íslands vildi létta húsmæðrum störfin.
Í eldhúsinu Kvenfjelagasamband Íslands vildi létta húsmæðrum störfin. — Morgunblaðið/Ólafur K.Magnússon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sjöunda landsþing Kvenfjelagasambands Íslands var haldið í júní 1947 og stóð í eina viku. Alls mættu 39 fulltrúar af 17 kjörsvæðum og gerðar voru „margar merkar samþyktir“, að því er fram kom strax í fyrirsögn umfjöllunar Morgunblaðsins.

BAKSVIÐ
Orri Páll Ormarsson
orri@mbl.is

Sjöunda landsþing Kvenfjelagasambands Íslands var haldið í júní 1947 og stóð í eina viku. Alls mættu 39 fulltrúar af 17 kjörsvæðum og gerðar voru „margar merkar samþyktir“, að því er fram kom strax í fyrirsögn umfjöllunar Morgunblaðsins.

Í fyrsta lagi var ályktað um heimilisvélar og raforkumál enda náin tengsl þarna á milli. Kvenfjelagasambandið skoraði á Alþingi og ríkisstjórn að áætla á næstu tveimur árum ríflega upphæð í erlendum gjaldeyri til innkaupa á áhöldum og rafknúnum vélum til þess að Iétta heimilisstörfin og yrði gjaldeyrinum skipt til kaupa á hinum ýmsu tækjum í samráði við Kvenfjelagasamband Íslands.

Eyðublöð yrðu send

„Ennfremur beinir landsþing K.Í. þeirri áskorun til Alþingis, að verðtollar á þessum nauðsynlegu vinnutækjum húsmæðranna verði eigi hærri en tollur á landbúnaðarvjelum.“

Sambandið fól stjórn sinni að senda svo fljótt sem unnt yrði eyðublöð út til allra kvenfélaga landsins og fela stjórnum félaganna að safna nákvæmum upplýsingum um það, hvaða áhöldum heimilin óskuðu eftir til eigin afnota eða sameiginlegra afnota. Jafnframt yrði aflað upplýsinga um hvaða áhöld hefðu verið pöntuð hjá kaupmönnum og kaupfélögum.

Þá var skorað á stjórn sambandsins að undirbúa stofnun verkfærakaupasjóðs fyrir húsmæður í líkingu við verkfærakaupasjóð Búnaðarfjelags Íslands sem styrkti efnalitlar húsmæður til kaupa á nauðsynlegum verkfærum.

Loks var skorað á Alþingi og ríkisstjórn að hraða sem mest rannsóknum á möguleikum til rafvirkjunar í stórum stíl út um sveitir landsins, þar sem þess hafði verið óskað.

Samkeppni milli húsgagnateiknara

Í öðru lagi var ályktað um uppeldis- og menningarmál. Landsþingið beindi þeirri áskorun til stjórnar sinnar, að auk þess sem sambandið hefði sendikennara til þess að halda matreiðslunámskeið og styrki til saumanámskeiða leitaðist stjórnin einnig við að fá hæfa ráðunauta til leiðbeininga- og fyrirlestrastarfsemi.

„Leggur þingið sjerstaka áherslu á, að ekki sje síður nauðsynlegt að leiðbeina fólki um híbýlaskipan og húsgagnaval, og felur stjórninni að athuga hvort ekki mætti t.d. koma á samkeppni milli húsgagnateiknara.“

Enn fremur beindi þingið þeirri áskorun til fræðslumálastjórnar, að komið yrði sem fyrst á fót fullkominni kennaramenntun í saumum og annarri handavinnu og að samræma og kerfisbinda handavinnukennslu í barnaskólum. Þá sagði í ályktun: „7. landsþing Kvenfjelagasambands Íslands telur að í bæjum og þorpum geti dagheimili og leikskólar fyrir börn innan skólaskyldualdurs verið mæðrum hin mesta hjálp.“

Undir þessum sama lið var vikið að áfengisbölinu. „7. landsþing Kvenfjelagasambands Íslands lýsir ánægju sinni yfir samtökum kvenna í áfengismálum og óskar þess eindregið, að öll fjelög innan sambandsins styðji þau samtök af alefli. Jafnframt skorar þingið á ríkisstjórnina og Alþingi það, er næst kemur saman, að láta ekki lengur dragast að gera ráðstafanir til úrbóta áfengisböli þjóðarinnar.“

Bæta þurfti úr sjúkrahússþörf

Í þriðja og síðasta lagi var ályktað um heilbrigðismál en áfengisbölið taldist, merkilegt nokk, frekar til uppeldis- og menningarmála.

Fyrst er að telja að þinginu þótti það orðin óumflýjanleg nauðsyn að bæta úr sjúkrahússþörf og elliheimilisþörf í héruðum landsins og mælti eindregið með frumvarpi því til laga um héraðshæli, sem lá þá fyrir Alþingi.

Þá beindi landsþing Kvenfjelagasambands Íslands þeirri eindregnu ósk til landlæknis og heilbrigðisstjórnar landsins að vegna bráðaðkallandi þarfar og tilfinnanlegrar vöntunar yrði fæðingardeild Landspítalans tekin til afnota eigi síðar en á komandi hausti.

Kosinn heiðursforseti

Í þingsetningarræðu sinni hafði forseti sambandsins, frú Ragnheiður Pjetursdóttir á Háteigi, lýst yfir því að hún myndi eigi taka við kosningu sem forseti, enda hafði hún gegnt forsetastörfum frá stofnun sambandsins, eða í 17 ár samfleytt. Kosin var í hennar stað frú Guðrún Pjetursdóttir, Skólavörðustíg 11a, Reykjavík, systir Ragnheiðar, en hún hafði verið meðstjórnandi sambandsins frá upphafi. Meðstjórnandi var kosin Rannveig Þorsteinsdóttir, Reykjavík, en frú Aðalbjörg Sigurðardóttir var fyrir í stjórninni. Þingið kaus fyrrverandi forseta sem heiðursforseta.

Stefán Íslandi í spjalli við Morgunblaðið

Okkar vinsælasti einsöngvari

Í þessum sama mánuði, júní 1947, barst sú gleðifregn að einn af dáðustu sonum þjóðarinnar væri í heimsókn á landinu, Stefán Íslandi óperusöngvari.

Ekki nóg með það heldur ætlaði hann að halda söngskemmtun í Gamla Bíói. „Munu söngelskir menn fagna komu hans nú sem fyrr og hlakka til að heyra til hans á ný, því að öðrum ólöstuðum, er það víst, að Stefán er okkar vinsælasti einsöngvari,“ stóð í frétt Morgunblaðsins.

Stefán var í sumarleyfi og var ferðinni heitið á æskustöðvarnar í Skagafirði, þar sem hann átti að fá tækifæri til að fara á hestbak og fara á fiskirí. „Það er hans uppáhalds frístundaskemmtun.“

„En til hvers er að tala um fiskirí og hesta í blaðaviðtali við söngvara?“ spurði svo blaðamaður.

„Það kemur víst lítið söngnum við,“ samsinnti Stefán.

Barst þá talið að söngferli Stefáns í útlöndum. „Í vor fekk Stefán tilboð frá óperunni í París um að syngja þar í fimm mánuði, en hann varð að hafna því tilboði vegna þess, að hann er ráðinn við óperu Konunglega leikhússins í Höfn.“

Þá var spurt hvernig Stefáni hefði litist á sig í Bandaríkjaförinni veturinn áður og lét hann vel af þeirri ferð, nema hvað hún hefði verið erfið. En ekki kvaðst hann hafa haft áhuga fyrir því að setjast þar að til að syngja, þótt hægt hefði verið um vik að fá samninga. Var á honum að skilja, að lífsbarátta listamanna þar í landi væri honum ekki að skapi.

„Stefán Íslandi er jafnan aufúsugestur er hann kemur hingað til lands á sumrin og fyllir hvert húsið á fætur öðru, svo að færri komast að á söngskemtunum hans en vilja. – En að þessu sinni er ekki víst hve margar söngskemtanir hann heldur hjer, tímans vegna.“

Undirleik á söngskemmtuninni annaðist Fritz Weisshappel.