Eldi Til stendur að nýta jarðsjó og yfirborðssjó í eldisstöð Laxeyjar.
Eldi Til stendur að nýta jarðsjó og yfirborðssjó í eldisstöð Laxeyjar. — Morgunblaðið/Óskar Pétur Friðriksson
Miklum áfanga lauk á dögunum hjá Laxey hf. sem vinnur að því að koma sjö þúsund tonna landeldisstöð í Viðlagafjöru í Vestmannaeyjum í fullan rekstur,.

Gunnlaugur Snær Ólafsson
gso@mbl.is

Miklum áfanga lauk á dögunum hjá Laxey hf. sem vinnur að því að koma sjö þúsund tonna landeldisstöð í Viðlagafjöru í Vestmannaeyjum í fullan rekstur, en fyrirtækið hefur bæði fengið starfsleyfi útgefið af Umhverfisstofnun og rekstrarleyfi útgefið af Matvælastofnun.

Fram kemur í greinargerð Matvælastofnunar að stöðin verði á svæði sem þegar hefur verið raskað, auk þess sem nálægðin við höfnina hafi verið talin hentug. „Stefnt er að því að seiði verði alin upp í seiðaeldisstöð í Friðarhöfn og verði flutt á sérútbúnum seiðaflutningavögnum (tankbílum) til matfiskeldis í eldisstöðinni í Viðlagafjöru. Áætlað er að nýta jarðsjó og hlýjan yfirborðssjó í eldisstöðinni í Viðlagafjöru. Fjallað var um valkosti, núllkost, staðsetningar, vatnsnýtingu, fjölda seiða og tækni.“

Bent er þó á að Skipulagsstofnun hafi talið mikilvægt að áfangaskipta fyrirhuguðum framkvæmdum til þess að unnt sé að meta betur áhrif grunnvatnsvinnslunnar með hliðsjón af vöktun.

Í starfsleyfinu setur Umhverfisstofnun meðal annars skilyrði um að mannvirki við útrás frárennslis skuli tryggilega frágengið þannig að það sé viðunandi rennsli. Viðunandi rennsli einkennist af því að ekki myndist pollar eða að sjá megi uppsöfnun næringarefna nærri útrásinni.“ Stofnunin gerir einnig kröfu um að Laxey taki reglulega myndir við útrásina til að meta áhrif starfseminnar.

Einnig er Laxey gert að „tryggja viðunandi hreinsun frárennslisvatns með tromlusíu eða öðrum sambærilegum eða betri búnaði sem hreinsar frárennslið áður en því er veitt í viðtakatjörn/viðtaka.“